Heilbrigðisþjónusta

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 16:58:17 (4634)

2003-03-10 16:58:17# 128. lþ. 93.28 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv. 78/2003, Frsm. JBjart
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[16:58]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti hv. heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu. Þetta er 453. mál og í nál. er gerð grein fyrir gestum sem komu á fund nefndarinnar vegna málsins og þeim sem skiluðu umsögnum vegna þess.

Frumvarpið er lagt fram í framhaldi af samkomulagi ríkisins við Samband íslenskra sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Samkomulagið felur í sér að ríkið yfirtekur 15% hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði og meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildarsjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa. Sveitarfélögin munu áfram láta í té lóðir undir slíkar heilbrigðisstofnanir ríkissjóði að kostnaðarlausu og án greiðslu gatnagerðargjalds í samræmi við gildandi lög um heilbrigðisþjónustu.

Í samkomulaginu afsala sveitarfélögin sér lögbundnum rétti til tilnefningar í stjórnir umræddra stofnana um leið og þátttaka þeirra í stofnkostnaði og viðhaldi fellur niður. Í frumvarpinu er lagt til að stjórnir heilsugæslustöðva og umræddra sjúkrahúsa verði lagðar niður. Gildandi lög gera ráð fyrir fimm manna stjórnum, þar af eru þrír fulltrúar tilnefndir af viðkomandi sveitarstjórn, einn tilnefndur af starfsmönnum og einn án tilnefningar. Eftir að valdsvið forstöðumanna stofnana var aukið með setningu laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ábyrgð þeirra skýrð, hefur valdsvið stjórna verið minnkað að sama skapi og er hlutverk þeirra fyrst og fremst að sinna eftirliti og ráðgjöf við stjórnun viðkomandi stofnunar.

Nefndin fellst fyrir sitt leyti á að stjórnir umræddra stofnana verði lagðar niður en telur að koma eigi til móts við þau sjónarmið sem komið hafa fram við meðferð málsins um að starfsmenn taki áfram þátt í stjórnun og stefnumótun viðkomandi heilbrigðisstofnana. Leggur hún til að gerðar verði breytingar á 4., 7. og 8. gr. frumvarpsins á þann veg að hjúkrunarforstjóri og yfirlæknir eða lækningaforstjóri skuli sitja í framkvæmdastjórn með og undir stjórn framkvæmdastjóra. Auk þess leggur nefndin líka til að gerðar verði breytingar á 4. og 7. gr. frv., en þær fela það í sér að framkvæmdastjóri skuli halda upplýsinga- og samráðsfund með starfsmannaráði á heilbrigðisstofnunum a.m.k. fjórum sinnum á ári.

Ég vil af þessu tilefni taka fram að þessi breyting tekur einungis til tiltekinna heilbrigðisstofnana. Um hjúkrunarheimili gildir sérákvæði sem er í 18. gr. laganna um málefni aldraðra og í 4. mgr. 30. gr. laganna um heilbrigðisþjónustu er líka fjallað sérstaklega um sjálfseignarstofnanir, þannig að það eru sérákvæði sem fjalla um þær stofnanir. Þessi breyting sem við leggjum til núna tekur ekki til þeirra.

Við meðferð nefndarinnar á frv. kom fram gagnrýni á að fulltrúar sveitarstjórna ættu ekki lengur, með þeirri breytingu sem frv. leggur til, aðild að stjórnun framangreindra heilbrigðisstofnana og því geti sjónarmið íbúa á svæðinu ekki haft jafnmikil áhrif og áður. Vegna þessa ákvað nefndin að leggja til að komið yrði á því fyrirkomulagi að framkvæmdastjóri og fulltrúar sveitarstjórnar eða sveitarstjórna, ef sjúkrahús sinnir stærra svæði, hittist reglulega á upplýsinga- og samráðsfundum sem ekki séu sjaldnar en tvisvar á ári. Eins og ég sagði vill nefndin með þessu koma til móts við þau sjónarmið að tryggja áhrif íbúa svæðisins.

Að síðustu leggur nefndin til breytingar á skipun nefndar sem meta skal hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra sjúkrahúsa. Bent hefur verið á að tilnefning sveitarstjórna í nefndina gæti reynst flókin þar sem starfssvæði heilbrigðisstofnunar nær yfir mörg sveitarfélög, t.d. á Austurlandi. Jafnframt hefur verið á það bent að betur verði hægt að tryggja sérfræðiþekkingu í nefndinni með því að fela ekki sérstökum aðilum að tilnefna í hana heldur fela ráðherra að skipa nefndina í samræmi við lögbundið skilyrði um að fulltrúar hennar skuli hafa sérþekkingu á sviði rekstrar, starfsmannamála og stjórnsýslu. Nefndin leggur því til að gerðar verði breytingar á c-lið 8. gr. frumvarpsins í samræmi við framangreint.

Gerð er grein fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til varðandi stjórnir stofnananna á þskj. 1077. Þar segir:

,,Á heilsugæslustöðvum skal starfa framkvæmdastjórn undir yfirstjórn framkvæmdastjóra. Auk hans skulu yfirlæknir (lækningaforstjóri) og hjúkrunarforstjóri skipa framkvæmdastjórn.``

Síðan segir að heimilt sé að fjölga fulltrúum í framkvæmdastjórn sé gert ráð fyrir því í skipuriti stofnunarinnar og að framkvæmdastjórn skuli vera framkvæmdastjóra til ráðgjafar um rekstur heilsugæslustöðvar og skuli hann hafa samráð við hana um allar mikilvægar ákvarðanir varðandi þjónustu og rekstur stöðvarinnar. Sambærilegt ákvæði er síðan um hinar stofnanirnar eftir því sem nefndin leggur til við breytingu á 7. gr. frv.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum. Undir álit þetta skrifa auk framsögumanns hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller, Ólafur Örn Haraldsson og Björgvin G. Sigurðsson, en bæði Ásta R. Jóhannesdóttir og Björgvin G. Sigurðsson með fyrirvara.