Tollalög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 20:01:12 (4636)

2003-03-10 20:01:12# 128. lþ. 94.35 fundur 611. mál: #A tollalög# (aðaltollhöfn í Kópavogi) frv. 32/2003, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[20:01]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er lagt til að Kópavogshöfn verði aðaltollhöfn sem hefur þá þýðingu að skip sem eru í förum til og frá landinu geta fengið fyrstu og síðustu tollafgreiðslu hér á landi við höfnina.

Þetta mál var talsvert rætt í efh.- og viðskn. Alþingis, m.a. með hliðsjón af því að á það var bent að í svokölluðu svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins væri ekki gert ráð fyrir því að þessi höfn hefði mjög veigamikið hlutverk heldur væri fyrst og fremst horft til hafnanna í Hafnarfirði og Reykjavík. Ljóst er að um stöðu hafnarinnar kunni að vera ólík sjónarmið á milli sveitarfélaganna. Það breytir ekki því að nál. er með þessum hætti og við leggjum til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Það kom fram í máli fulltrúa Kópavogshafnar að höfnin í Kópavogi er lítil. Hún hefur fyrst og fremst þjónað smábátum svo og viðgerðarþjónustu. En á seinni árum hefur einnig verið tekið á móti skipum með vörur frá útlöndum. Þarna landar skip vörum á tíu daga fresti og það er mat bæjaryfirvalda í Hafnarfirði að samþykkt umrædds frv. geri þjónustu við það markvissari og betri.

Svæðisskipulagið gerir þó ráð fyrir stækkun Kópavogshafnar. Engu að síður er ljóst að það gerir líka ráð fyrir því að aðalhafnirnar á höfuðborgarsvæðinu verði Reykjavík og Hafnarfjörður, enda er augljóst mál að hafnarsvæði Reykjavíkur og hafnarsvæði Hafnarfjarðar eru mun stærri en hafnarsvæðið í Kópavogi og því ekki líku saman að jafna.

Undir þetta nál. meiri hluta efh.- og viðskn. rita hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður og frsm., Kristinn H. Gunnarsson, Gunnar Birgisson, Árni Ragnar Árnason, Adolf Berndsen og Jóhanna Sigurðardóttir, en þeir v. þm. Hjálmar Árnason og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.