Tollalög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 20:03:59 (4637)

2003-03-10 20:03:59# 128. lþ. 94.35 fundur 611. mál: #A tollalög# (aðaltollhöfn í Kópavogi) frv. 32/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[20:03]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er kannski heldur orðum aukið hjá hv. formanni efh.- og viðskn. að segja að málið hafi talsvert mikið verið rætt í efh.- og viðskn. Staðreyndin er sú að talsverð fljótaskrift er á þessu máli. Það kom upphaflega inn sem þingmannamál og var orðið að stjórnarfrv. þegar upp var staðið. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að það var álitamál hvort þetta stangaðist á við svæðisskipulag og var kallað eftir upplýsingum um það efni. Sannast sagna þá er ástæðan fyrir því að ég er ekki á þessu nál. ekki sú að ég sé andvígur frv. Ég kem til með að styðja það og hef síður en svo nokkuð á móti því að höfnin í Kópavogi verði gerð að tollhöfn, síður en svo. Hins vegar tel ég mjög mikilvægt að það sé unnið faglega að þessum málum og að fyrir nefndir þingsins sem eiga að fjalla um mál af þessu tagi komi hlutaðeigandi aðilar og mönnum gefist ráðrúm til þess að fara í saumana á málinu. Það fannst mér ekki gerast í þessu máli og það er ástæðan fyrir því að ég er ekki á þessu nál. Hins vegar mun ég styðja frv. eins og ég gat um.

Í Kópavogi hefur verið að byggjast upp höfn á undanförnum árum og ef fyrir því er vilji að gera höfnina að tollhöfn þá mun ég síður en svo standa í vegi fyrir því og styðja frv. En ég vildi gera grein fyrir því hvers vegna nafn mitt er ekki að finna á nál.