Heilbrigðisþjónusta

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 20:12:28 (4639)

2003-03-10 20:12:28# 128. lþ. 94.33 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv. 78/2003, KLM
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[20:12]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. við frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum. Brtt. mín er á þskj. 1134. Málið er 453. mál þingsins.

Skemmst er frá því að segja, herra forseti, að skömmu fyrir jól mælti hæstv. heilbrrh. fyrir þessu frv. í framhaldi af samkomulagi sem gert var milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að breyta þeirri kostnaðarskiptingu sem átt hefur sér stað undanfarin svo og svo mörg ár, þ.e. með 15% þátttöku eða hlutdeild sveitarfélaga í byggingu eða í stofnkostnaði og meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildarsjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa. Þetta er eins og ég segi, herra forseti, það samkomulag sem þarna var gert og sem hæstv. heilbrrh. mælti fyrir skömmu fyrir jól og meiningin var að keyra í gegnum þingið áður en þingið færi í jólaleyfi. En skemmst er að segja frá því að málið stoppaði þá í hæstv. heilbr.- og trn. þar sem ég átti möguleika á að sitja þann fund í fjarveru hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Kannski má segja að umræðan sem þar átti sér stað hafi, eins og ég sagði áðan, stoppað málið þá. En það er komið hingað inn núna.

Herra forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að þetta samkomulag skuli hafa náðst og að þessi 15% hlutdeild sveitarfélaganna skuli vera tekin til baka og að ríkið taki það að sér alfarið. Það er að sjálfsögðu til bóta þegar mörkin eru skýr og það er ekki um svona deiliverkefni að ræða eins og verið hefur sem oft hefur verið mikið vandamál, að fylgja eftir og ganga frá. Ég fagna því.

En ég fagna ekki, herra forseti, því sem lætt er inn í þetta frv. í leiðinni og sem var ekkert verið að semja um, eins og ég kem að betur á eftir, þ.e. hugmynd heilbrrh. sem kemur fram í þessu frv. um að leggja niður allar stjórnir sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva um allt land nema stjórn Ríkisspítala. Hún starfar áfram.

[20:15]

Herra forseti. Brtt. mín er einmitt um þetta atriði. Hún er um það atriði að ég vil að áfram séu stjórnir heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa. Ég legg því til í þessari brtt., herra forseti, að ráðherra skipi fimm manna stjórnir heilsugæslustöðva. Skal einn tilnefndur af hlutaðeigandi sveitarstjórn, í stað þriggja áður og á það vil ég leggja mikla áherslu að nú þegar kostnaðarþátttaka sveitarfélaga er horfin, þá er auðvitað ekki eðlilegt að sveitarfélög skipi meiri hluta stjórnar, eða þrjá. Þess vegna legg ég til að hlutaðeigandi sveitarstjórn skipi einn aðila í stað þriggja áður. Einn stjórnarmaður verði kosinn af starfsliði viðkomandi stöðvar og þrír án tilnefningar af ráðherra og skal einn þeirra vera formaður. Jafnframt legg ég til að stjórnir heilsugæslustöðva skuli skipaðar í upphafi kjörtímabils ráðherra og skal starfstími þeirra vera fram að næstu alþingiskosningum.

Herra forseti. Ég legg enn fremur til að með reglugerð skuli kveða nánar á um hlutverk viðkomandi stjórnar.

Það sem ég hef lýst hér er um heilsugæslustöðvar og stjórnir þeirra. Nákvæmlega sömu tillögu geri ég um sjúkrahús, eins og segir í brtt. minni, með leyfi forseta:

,,Sjúkrahús þau, sem ríkið á eða starfrækir (ríkisspítalar), skulu vera undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Skal þeim (öðrum en þeim sem um getur í 1. og 4. mgr.) stjórnað af fimm manna stjórnarnefnd. Nefndin skal skipuð þannig að einn er tilnefndur af hlutaðeigandi sveitarstjórn, einn af starfsmannaráði spítalans og þrír án tilnefningar og skal einn þeirra þriggja vera formaður. Stjórnir sjúkrahúsa skulu skipaðar af ráðherra í upphafi kjörtímabils hans og skal starfstími þeirra vera fram að næstu alþingiskosningum. Kveða skal nánar á um hlutverk stjórnar með reglugerð sem ráðherra setur.``

Herra forseti. Þetta er sú brtt. sem ég tala hér fyrir og fylgi fram. Ég tel það til bóta að hafa þetta svona eins og ég er hér að lýsa. Eins og ég sagði áðan er ég líka að gera eðlilega tillögu um að sveitarfélög skipi ekki lengur þrjá heldur bara einn mann í stjórn heilsugæslustöðvar og að ráðherra skipi þá þrjá fulltrúa. Þetta er mjög mikilvægt, herra forseti, að hafa í huga og tel ég mjög eðlilegt að þessi breyting hafi átt sér stað.

En, ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með hæstv. heilbrrh. fyrir jól þegar hann flutti þetta frv. og boðaði þær breytingar sem verið er að fjalla um í þessu frv., þ.e. að leggja niður stjórnir sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva út um allt land. Það má eiginlega segja, herra forseti, að svo bregðist krosstré sem önnur tré. Og þó við gerum okkur grein fyrir því að Framsfl. hefur í mörgum tilfellum algjörlega gleymt landsbyggðinni að sögn hæstv. félmrh. Páls Péturssonar, þá hélt ég að Jón Kristjánsson hæstv. heilbrrh. væri ekki búinn að gleyma henni og mundi ekki gera þá tillögu sem ég er hér að ræða og gera brtt. við, sem er um það að leggja niður stjórnir heima í héraði og draga þetta apparat allt hingað suður til Reykjavíkur, fella það undir heilbr.- og trn. og fella niður stjórnir.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum með að hæstv. heilbrrh. skyldi ganga í þá vinnu.

Fram kom, herra forseti, hjá fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, þeim Þórði Skúlasyni framkvæmdastjóra og Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, á kvöldfundi þeim sem haldinn var í skyndi eftir að frv. var flutt hér rétt fyrir jól, að það hafi aldrei verið talað um það sem lið í þessu samkomulagi að leggja þyrfti niður stjórnir sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, heldur eingöngu að sveitarfélögin mundu afasala sér lögbundnum rétti til tilnefninga í stjórnir hlutaðeigandi stofnana um leið og þátttaka þeirra í stofnkostnaði og viðhaldi stofnana félli niður.

Herra forseti. Þetta er mjög mikilvægt, vegna þess að lengi vel var það látið líta þannig út að þetta væri samkomulag sveitarfélaganna í landinu og heilbrn. að ganga þessa göngu svona. Því vil ég mótmæla, herra forseti. Í því sambandi vil ég lesa upp umsögn sem barst frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og dagsett er 11. desember. Það getur vel verið, herra forseti, að það hafi verið sama dag og málið var flutt og þessi fundur í hv. heilbrn. var haldinn og farið yfir málið, þá minnir mig að þessi umsögn hafi þá þegar komið inn, ég vona að ég sé ekki að fara með rangt mál. En í umsögninni segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta:

,,Í aðdraganda að gerð umrædds samkomulags var aldrei að því vikið einu orði að stjórnir umræddra stofnana yrðu lagðar niður í tengslum við brotthvarf fulltrúa sveitarfélaga í stjórn tilgreindra heilbrigðisstofnana. Þá fyrirhuguðu ákvörðun er ekki með neinum hætti hægt að tengja við umrætt samkomulag. Í samkomulaginu kemur einvörðungu fram að sveitarfélögin afsala sér lögbundnum rétti til tilnefningar í stjórnir hlutaðeigandi stofnana um leið og þátttaka þeirra í stofnkostnaði og viðhaldi stofnananna fellur niður.

Samband íslenskra sveitarfélaga gerir fyrir sitt leyti engar athugasemdir við að áfram verði skipaðar stjórnir fyrir hlutaðeigandi stofnanir þótt sveitarfélögin eigi ekki lögbundinn rétt til tilnefningar fulltrúa sinna í þær stjórnir.``

Þetta er ákaflega mikilvægt að hafa í huga, herra forseti, vegna þess að eins og ég sagði áðan hefur allt of oft verið látið að því liggja að þetta hafi verið liður í því samkomulagi sem hæstv. ríkisstjórn gerði þegar hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. undirrituðu þetta samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga 4. des. 2002. Það er ákaflega mikilvægt að hafa þetta í huga, þannig að það eru ekki rökin fyrir því að hæstv. heilbrrh. kemur fram með þetta frv. og leggur niður allar stjórnir. Enda hafa margir þeir aðilar sem veitt hafa umsögn um þetta mál lýst því yfir að þeir séu á móti þessari breytingu.

Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp umsögn sem barst frá Heilsugæslustöðinni á Akureyri, með leyfi forseta. Það er dagsett á Akureyri 13. febrúar 2003:

,,Framkvæmdastjórn Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri þakkar fyrir að fá tækifæri til að gera athugasemdir við frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.

Undirrituð gera ekki athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins, þar sem allar þessar tillögur fela einvörðungu í sér tvenns konar breytingar: að létta þeirri kvöð af sveitarfélögunum að fjármagna 15% stofnkostnaðar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og í annan stað að leggja niður stjórnir þeirra og svipta þannig notendur þjónustu þessara stofnanan ábyrgð og áhrifum á rekstur og starfsemi þeirra. Um þessi tvö markmið frumvarpsins, sem engan veginn þurfa að vera óaðskilin, viljum við segja þetta:

Þessi gjörningur er dæmi um samþjöppun valds og hættulega tilhneigingu sumra ráðherra og ráðuneytismanna til að safna í sínar hendur öllum hugsanlegum stjórnartaumum, sumum af ómerkilegasta tagi.``

Herra forseti. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að lesa þetta aftur.

,,Þessi gjörningur er dæmi um samþjöppun valds og hættulega tilhneigingu sumra ráðherra og ráðuneytismanna til að safna í sínar hendur öllum hugsanlegum stjórnartaumum, sumum af ómerkilegasta tagi. Þarna er um að ræða virðingarverða viðleitni til að setja rekstri heilbrigðisþjónustunnar skorður, þannig að fjárhagsáætlunum sé fylgt. Staðreyndin er hins vegar sú að þessum aðilum reynist yfirleitt um megn að hafa áhrif á annað en launakostnað og stofnkostnað á meðan eftirspurnin eftir heilbrigðisþjónustu er af skiljanlegum ástæðum utan áhrifavalds þeirra. Sömuleiðis er samþjöppun valds í hendur ráðuneytisfólks ekki til þess fallið að hvetja lækna og aðra þá sem útgjöldum stýra til að beita aðhaldssemi við rannsóknir, meðferð og innkaup sem væri greiðasta og árangursríkasta leiðin til að draga úr sjálfvirkri kostnaðaraukningu heilbrigðiskerfisins.

Hlutverk heilsugæslustöðva í forvörnum og heilsueflingu og þar með framgangi nýlegrar heilbrigðisáætlunar getur verið afar mikilvæg þegar samráð og samvinna tekst við íbúa þjónustusvæðisins fyrir milligöngu kjörinna fulltrúa þeirra. Með sama hætti er heilbrigðisstofnunum fengur að liðveislu metnaðarfullra og baráttufúsra sveitarstjórnarmanna og annarra fulltrúa almennings, sem um áratuga skeið hafa setið í stjórnum þessara stofnana. Það er í fyllsta máta eðlilegt að notendur opinberrar þjónustu fái að hafa áhrif á það hvernig hún mótast og þróast. Ekki síst þegar um starfsemi og þjónustu er að ræða sem skipt getur sköpum varðandi búsetuskilyrði byggðarlagsins.

Með því að leggja niður þessar stjórnir er verið að klippa á mikilvæg tengsl íbúanna við heilbrigðisstofnun sína báðum aðilum til bölvunar.

Með því að losa sveitarsjóði undan 15% kostnaðarhlutdeild er verið að leysa þá undan ábyrgð en líka áhrifum því nú verða mikilvægar ákvarðanir um þróun heilbrigðisþjónustunnar færðar undir vald aðila og einstaklinga sem ekki eru í neinum tengslum við þá sem málin varða og hafa enda sjaldnast neina yfirgripsmikla þekkingu á aðstæðum viðkomandi svæðis eða umdæmis. Hér er ekki um neinn sparnað að ræða fyrir sveitarfélögin því framlag ríkis til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skerðist sem sparnaðinum nemur.

Sú reynsla og þekking sem skapaðist við reynslusveitarfélagsverkefnin á Akureyri hefur sannfært okkur um kosti þess að heilbrigðisstofnanir tengist sveitarfélögum og íbúum viðkomandi þjónustusvæðis sem sterkustum böndum. Umrætt lagafrumvarp gengur gegn þessari sannfæringu okkar og mælum við því eindregið gegn samþykkt þess.``

Undir þetta rita Margrét Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri og Pétur Pétursson yfirlæknir, bróðir hæstv. félmrh.

Herra forseti. Það sem kemur þarna fram er náttúrlega mjög mikilvægt atriði. Ber að þakka þessu fólki fyrir hreinskilni og að setja þetta á blað eins og hér hefur verið gert, vegna þess að hér eru setningar inni sem við vitum að skýra þau sjónarmið sem allt of oft verða þess valdandi, herra forseti, að ráðherrar eða starfsfólk í ráðuneytum eða opinberum stofnunum kemur með svona tillögur eða leggjast gegn góðum tillögum um að færa störf e.t.v. frá höfuðborgarsvæðinu út á land, eða viðhalda þeim eins og stjórnamálin sem við erum hér að ræða um, og á ég þá auðvitað við þá setningu sem ég ætla að lesa hér aftur, herra forseti, með leyfi forseta:

,,Þessi gjörningur er dæmi um samþjöppun valds og hættulega tilhneigingu sumra ráðherra og ráðuneytismanna til að safna í sínar hendur öllum hugsanlegum stjórnartaumum, sumum af ómerkilegasta tagi.``

Það er hérna, herra forseti, sem ég vil aðeins staldra við og ítreka það sem ég hef áður sagt. Hvað ætli þetta hafi nú gerst oft á þessu kjörtímabili í umræðum um hin ýmsu mál, sama hvort verið er að tala um að flytja e.t.v. hálft starf, eða kvart starf, eða heilt starf, eða breyta eitthvað um kúrs og annað slíkt, hvað skyldi þetta oft hafa gert það að verkum að viðkomandi ráðherrar hafa farið í bakkgírinn ef svo má að orði komast, hætt við eða ekki treyst sér til að gera hlutina?

[20:30]

Og að hæstv. heilbrrh. skuli fara þá leið eins og ég hef hér lýst veldur auðvitað mjög miklum vonbrigðum, að hæstv. ráðherra, sem kosinn er í Austurlandskjördæmi og að mér finnst hefur nú oft verið töluvert drjúgur við það að reyna að sporna gegn ýmsu sem hefur verið að flytjast hingað suður, skuli í þessu frv. koma fram með þá tillögu að leggja niður stjórnir allra sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á landsbyggðinni og flytja þær suður til Reykjavíkur. (ÁRJ: Ekki bara af landsbyggðinni ...) Já, allar stjórnir reyndar og af höfuðborgarsvæðinu að sjálfsögðu líka, nema stjórn Ríkisspítala, enda kem ég að því hér á eftir, t.d. athugasemdum frá heilsugæslustöðinni í Hafnarfirði og fleiri aðilum.

Herra forseti. Þó að ég sé ekki mjög mikið fyrir það að vitna í ályktanir eða samþykktir sjálfstæðismanna, þá sé ég að til heilbr.- og trn. hefur komið bréf sem ritað er af Guðrúnu Jónsdóttur, fulltrúa Sjálfstfl. í stjórn heilsugæslunnar í Hafnarfirði, og það er rétt að lesa upp það litla bréf sem þangað hefur borist, vegna þess að það sýnir að sú skoðun er töluvert útbreidd að verið sé að fara vitlausa leið með því að leggja niður þessar stjórnir. Bréfið er til heilbr.- og trn. Alþingis og varðar það frv. sem við erum hér að ræða, þ.e. lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum. Bréfið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna í Hafnarfirði að við teljum það óæskilegt að missa á þennan hátt tengsl bæjarins inn í stjórn heilsugæslunnar og að hafa áhrif á málefni hennar.

Teljum við því óheillavænlegt að leggja stjórn heilsugæslunnar niður.``

Undir þetta ritar Guðrún Jónsdóttir, fulltrúi Sjálfstfl. í stjórn heilsugæslunnar í Hafnarfirði.

Enda er það svo, herra forseti, að í umsögn sem kemur frá heilsugæslustöðinni Sólvangi í Hafnarfirði, sem Gunnsteinn Stefánsson undirritar fyrir hönd læknaráðs heilsugæslustöðvarinnar Sólvangi Hafnarfirði, er líka fjallað um þetta líkt og ég var að lesa hér áðan. Og ég held að ástæða sé til, herra forseti, máli mínu til stuðnings að vitna í umsögn læknaráðs heilsugæslustöðvarinnar Sólvangi í Hafnarfirði um það lagafrv. sem við erum hér að ræða. Umsögnin er svohljóðandi, með leyfi forseta.

,,Læknaráð Heilsugæslustöðvarinnar Sólvangi varar við frekari miðstýringu heilsugæslunnar í landinu. Læknaráð telur að ofangreint lagafrumvarp muni stuðla að frekari miðstýringu og er því efnislega mótfallið þeim tillögum að leggja niður stjórnir heilsugæslustöðva.``

Hér er, herra forseti, varað við þeirri miðstýringaráráttu sem hæstv. heilbrrh. er að beita eins og áður hefur komið fram.

Í greinargerð kemur fram m.a., með leyfi forseta:

,,Eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarp þetta er það samið af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í framhaldi af samkomulagi ríkisins við Samband íslenskra sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkisins og sveitarfélaga frá 4. des. 2002.

Megininnihald frumvarpsins er að leggja niður núverandi fyrirkomulag með 5 manna stjórnum heilbrigðisstofnana (sjúkrahús/heilsugæsla), sem skipaðar hafa verið af ráðherra en með tilnefningum frá sveitarstjórnum (3) og starfsmannaráði viðkomandi stofnana (1) en formaður hefur verið tilnefndur af ráðherra. Í stað þessara stjórna verður framkvæmdastjóri sem skipaður er af ráðherra.`` --- Svo er hér getið um ástæðu, og síðan segir, með leyfi forseta:

,,Málið getur haft víðtæk áhrif á heilsugæsluna í landinu. Það þarfnast því gaumgæfilegrar lýðræðislegrar umræðu áður en það verður afgreitt. Nokkur atriði er rétt að skoða í þessu samhengi.``

Fjallað er um miðstýringuna og læknaráðið setur fram eftirfarandi máli sínu til stuðnings, með leyfi forseta:

,,Með þessu lagafrumvarpi er verið að boða enn meiri miðstýringu í heilbrigðiskerfinu og var þó miðstýringin orðin allt of mikil fyrir. Hvað varðar heilsugæsluna hefur hún verið rekin af ríkinu og það verður að segjast eins og er að það hefur gefist illa. Ríkið fylgir ekki þeirri lagaskyldu sem á því hvílir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Stór hluti íbúa er án heimilislæknis og bið eftir tímum allt of löng. Þrátt fyrir loforð um uppbyggingu og að hlúa eigi að þessari grunnþjónustu gerast hlutirnir afar hægt og það brennur mest á heimamönnum. Gott dæmi um afleiðingar of mikillar miðstýringar þar sem ákvarðanataka er langt frá vandamálunum er ástandið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem er algjörlega á ábyrgð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Slík staða kæmi seint upp ef heimamenn hefðu meira um þessi mál að segja.

Það er því ólíklegt að þessi lagabreyting hafi í för með sér betra heilbrigðiskerfi.``

Þeir sem rita þetta fjalla m.a. um atvinnulýðræði og má að sjálfsögðu segja að þetta sé auðvitað liður í atvinnulýðræði eða við getum líka sagt íbúalýðræði eins og það hefur verið þar sem íbúar viðkomandi svæða hafa átt aðild í gegnum sveitarstjórnir.

Enn vil ég fara yfir fleiri umsagnir og kem nú að heilsugæslustöðinni í Hveragerði sem veitir umsögn um þetta mál. Segir svo í þeirra umsögn, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið í heild sinni er mjög gott og margt þar sem er til þess fallið að efla heilbrigðisþjónustuna. Það að ríkið yfirtaki hlut sveitarfélaganna er mjög jákvætt og mun eflaust skila sér í öflugri og harðvirkari uppbyggingu þar sem ekki er lengur þörf að taka mið af getu og vilja tveggja aðila til uppbyggingarstarfs og eðlilegri þróun í heilbrigðisþjónustu. Framkvæmdin og ákvarðanatakan er þá komin á eina hendi. Við þessa breytingu er eðlilegt að fulltrúar sveitarfélaga fari úr stjórnum heilbrigðisstofnana.

En ég vil benda á að sú ákvörðun að fella niður stjórnir stofnana þurfi umhugsunar við.

Eðli málsins samkvæmt eru margar og afdrifaríkar ákvarðanir sem framkvæmdastjórar á umræddum stofnunum þurfa að taka. Á minni stöðum hefur eina baklandið fyrir framkvæmdastjórana til að ræða málin út frá hinum ýmsu sjónarmiðum verið stjórnir stofnana. Þar hafa komið fram breið sjónarmið á málunum og ákvarðanatakan tekið mið af því. Ég tel að við það að fella niður þetta bakland gæti framkvæmdin orðið frekar einlit.

Vissulega má segja að ráðuneytið ætti að taka við þar sem stjórnirnar voru en nálægðin við málefnið verðu aldrei sú sama og betur sjá augu en auga.

Hver þessara stofnana er með á fjárlögum tugi til hundruð milljóna og því alls ekki óeðlilegt að stjórnun þess fjármagns sé á fleiri en einni hendi, þó vissulega megi segja að ábyrgðin sé okkar.

Það sem ég vildi sjá með þessu frumvarpi er að stjórnirnar verði áfram og verði skipaðar með þeim hætti að:

Ráðherra skipi tvo menn í stjórn og einn fulltrúi komi frá starfsfólki.``

Að öðru leyti gerir viðkomandi ekki athugasemd við frv. Og undir þetta skrifar Herdís Þórðardóttir, framkvæmdastjóri heilsugæslustöðvar Hveragerðis.

Í umsögn Læknafélagsins er líka fjallað um þetta og þar er talað um að hlutverk stjórna hafi orðið eitthvað óskýrt við breytingar sem gerðar voru 1996 og það má að sjálfsögðu taka undir það að vissu leyti. En þar segir m.a.:

,,Læknafélagi Íslands sýnist í ljósi þess að annaðhvort beri að finna stjórnum þessum nýtt hlutverk eða leggja þær niður til að gera stjórn stofnana gleggri og spara ríkissjóði fé.``

Ég held reyndar, herra forseti, að stjórnir heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa hafi nú ekki verið að taka svo mikið fé úr ríkissjóði en ég tek undir það sem þarna er sagt að það megi finna þeim nýtt hlutverk, og þess er getið í breytingartillögu minni, sem ég hef hér mælt fyrir, þar sem fjallað er um það að með reglugerð skuli ákveða um nánara hlutverk stjórnar og þá yrði ráðherra að gera það. Og auðvitað er tilgangurinn sá að ráðherra skipi meiri hluta stjórnar. Í stjórnum heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa eru trúnaðarfólk viðkomandi heilbrigðisráðherra, það á að vera í nærumhverfi, reka heilsugæslustöðvar og sjúkrahús í byggðarlögum sínum og vera trúnaðarmenn viðkomandi ráðherra við reksturinn. Þess vegna er það eins og ég sagði í upphafi máls míns mjög eðlilegt að ráðherra skipi þrjá og þar af formann. (JB: Hvar er ráðherra?) Ráðherra heilbrigðismála? (JB: Já.) Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að maður er nú eiginlega ...

(Forseti (GuðjG): Ekki samtal.)

... hættur að fara þess á leit að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir, manni hefur stundum fundist að það væri svona svipað og skvetta vatni á gæs og ég hef ekki óskað eftir því að ráðherra væri hér viðstaddur, en er ánægður með það að hv. þm. Jónína Bjartmarz, formaður heilbr.- og trn., er hér í salnum og fylgist með umræðunni, eins og henni ber að sjálfsögðu skylda til, og að annað fólk sem er í heilbrn. tekur þátt í henni og er hér í salnum. En ég hef ekki gert kröfu um að hæstv. heilbrrh. verði hér í salnum.

Ég ræddi þetta þegar hæstv. ráðherra flutti málið í desember, benti þá strax á þetta atriði og lýsti andstöðu minni við það og átti smáorðræðu við hæstv. heilbrrh. þá. Ég hélt, herra forseti, og vonaði þá að ráðherra mundi snúast hugur og hverfa til baka frá þessu, en því miður, það hefur ekki gerst og hafa verið mikil vonbrigði með það að hæstv. ráðherra skyldi ætla að ganga þá leið að leggja niður stjórnirnar eins og við erum hér að ræða um.

En það eru fleiri, herra forseti, sem hafa lagst gegn því að leggja niður stjórnirnar. Þannig er það með Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Herdís Sveinsdóttir formaður sendi inn umsögn, og hún kom reyndar á fund heilbr.- og trn. þetta umrædda kvöld þegar málið var tekið fyrir, þegar málið stoppaði rétt fyrir jól. Í umsögninni segir, herra forseti, með leyfi forseta:

,,Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga leggst eindregið gegn því að við heilsugæslustöðvar og sjúkrastofnanir séu engar formlegar stjórnir.

Að mati stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga tryggir frumvarpið ekki að fagleg sjónarmið hafi vægi. Stjórnir stofnana hafa verið ráðgefandi afl og hafa endurspeglað vilja og skoðanir starfsmanna og íbúa svæðisins sem njóta þjónustunnar. Telur stjórnin það ekki samræmast nútímalýðræði að einn aðili fari með öll völd og hafi úrslitaákvörðunarrétt sem getur haft bæði faglega og fjárhagslega þýðingu innan stofnunarinnar.

Stjórn félagsins vill einnig benda á það misræmi sem verður á milli stofnana þegar Landspítali -- háskólasjúkrahús hefur 7 manna stjórnarnefnd en aðrar stofnanir ekki. Stjórnin er einnig efins að ráðuneytið hafi það bolmagn að veita bæði fjárhagslegt eftirlit og faglegan stuðning til eins aðila. Enn fremur að hvort tryggt sé að öll sjónarmið stofnunarinnar jafnt fagleg, byggðarleg og fjárhagsleg komi fram til ráðuneytis þegar formleg samskipti verða á einni hendi, þ.e. framkvæmdastjórans. Slíkt styrkir ekki nútímalýðræði.``

Svo segir m.a. í umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ég vil sérstaklega taka undir það sjónarmið sem hér kemur fram að við erum jú að leggja allan stjórnunarþáttinn úti um allt land og í þeim heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu sem ég hef m.a. vitnað hér í fyrir utan sjálfan Landspítalann í Reykjavík, alla þessa ábyrgð á viðkomandi framkvæmdastjóra sem hefur ekkert bakland á bak við sig heima fyrir og heyrir beint undir hið mikla ráðuneyti og eins og hér kemur fram þar sem dregið er í efa að ráðuneytið hafi það bolmagn að veita bæði fjárhagslegt eftirlit og faglegan stuðning til eins aðila.

Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að ég tel að það sé ekki, eins og ég hef verið að reyna að fylgja hér eftir með rökum, til styrktar að fela þetta einum aðila.

Þess ber auðvitað að geta þegar hér er komið að ég hef eingöngu verið að tala um nokkrar af þeim umsögnum sem komu inn vegna málsins, þeirra aðila sem hafa lagst gegn því að leggja niður stjórnirnar.

[20:45]

Mér er bæði ljúft og skylt að geta m.a. um það að framkvæmdastjóri sjúkrahússins á Akranesi hefur mælt með því --- hann kom á fund nefndarinnar þetta umrædda desemberkvöld --- og var hlynntur því að stjórnir yrðu lagðar niður. Þetta gerði líka framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Skagafjarðar, sá ágæti maður Birgir Gunnarsson, sem í umsögn sinni leggst ekki gegn því að stjórnirnar verði lagðar af. Og vafalaust er það svo með fleiri aðila. Þótt ég sé ekki að taka tíma hér til að lesa þau mál og þær umsagnir og ætla mér ekki að gera það --- ég gat hér um sjúkrahúsið á Akranesi, þeim ágæta stað --- vekur það samt athygli mína að Guðni R. Tryggvason, formaður stjórnar Sjúkrahúss og Heilsugæslustöðvar Akraness, sem mig minnir að sé bæjarfulltrúi eða varabæjarfulltrúi og væntanlega framsóknarmaður eins og aðrir stjórnarmenn sjúkrahússtofnana úti um allt land um þessar mundir leggst gegn þessu. Stjórnin leggst gegn þessari breytingu. Ég ætla að lesa þá umsögn sem gengur þvert á það sem framkvæmdastjórinn sagði, frá stjórn Sjúkrahúss og Heilsugæslustöðvar Akraness en þar kemur m.a. fram í bréfi sem ritað er 26. janúar, með leyfi forseta:

,,Ágæta þingnefnd. Athygli mín beinist fyrst og fremst að 6. gr. þar sem fjallað er um stjórnskipulag sjúkrastofnana í landinu. Ég tel að með því að setja af allar stjórnir heilbrigðisstofnana í landinu rýri hæstvirt Alþingi möguleika sína á því að hafa áhrif á uppbyggingu heilbrigðisstofnananna í landinu.``

Síðan er fjallað hér um aðra tillögu sem þessi ágæti maður leggur fram, um að skipta landinu upp í ákveðin svæði sem er ágætisframtíðarlógík.

Það er athyglisvert, herra forseti, að frá Akranesi berast þessar tvær umsagnir.

Þetta eru nokkrar af þeim umsögnum sem hafa komið fram og ég hef, herra forseti, farið aðeins yfir þær máli mínu til stuðnings. Ég ætla því að koma örlítið meira að þeirri tillögu sem ég hef hér mælt fyrir og sem ég hefði viljað sjá hv. Alþingi samþykkja, tillögu sem stoppar hæstv. heilbrrh. við það að leggja af allar stjórnirnar eins og ég hef gert að umræðuefni. Ég tek það skýrt fram, herra forseti, að ég tel mjög eðlilegt að það hvernig skipað er í stjórnirnar breytist eins og ég sagði í upphafi máls míns. Ég tel það mjög eðlilegt að ráðherra skipi þrjá af fimm, jafnframt formann. Ég tel mjög eðlilegt að starfstími viðkomandi stjórnar sé sá sami og starfstími ráðherra, það sé kjörtímabilið og skipað í upphafi þess, og að þetta séu sérstakir trúnaðarvinir, ef svo má að orði komast, trúnaðarmenn viðkomandi ráðherra til rekstrar á þessum heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum þar sem miklu fé er útdeilt. Það er mikilvægt að farið sé vel með það og þessar stjórnir eiga að hafa hlutverk í þessari stjórnskipun.

Þetta er eins og ég sagði líka áðan, herra forseti, spurning um ákveðið íbúalýðræði, atvinnulýðræði, og þess vegna tel ég það líka vera til bóta.

Herra forseti. Ég gat þess áðan að ég átti þess kost að fara á fund heilbr.- og trn. í fjarveru hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur þennan umrædda dag þar sem frv. var fyrst rætt og ræða þetta mál þar. Eins og ég sagði áðan var niðurstaðan þar að annaðhvort yrði allt frv. samþykkt þá fyrir jól eða ekkert, þ.e. frestað. Ég tel að það hafi verið mjög skynsamlegt að stoppa þetta þá og keyra það ekki í gegnum þingið eins og þá var ætlað, 20 mínútum fyrir jólafrí eða svo. Ég verð að segja alveg eins og er að nál. og brtt. sem hv. heilbr.- og trn. hefur gert, ég vil ég taka það skýrt fram, er skömminni skárra, ef svo má að orði komast, heldur en frv. sjálft. Vissulega er þar komið til móts við ákveðin atriði en ég er enn þeirrar skoðunar eftir að hafa skoðað þessar brtt. og nál. sem öll nefndin stendur að, að vísu með fyrirvara tveggja hv. þm., að það sé skárra en lagt var af stað með í upphafi.

Ég er samt sem áður þeirrar skoðunar enn þá, herra forseti, að best sé að hafa stjórnir fyrir viðkomandi stofnanir eins og ég hef hér mælt fyrir, þrátt fyrir að þessar tillögur hafi komið fram. Heilbr.- og trn. hefur væntanlega unnið vinnu sína í samræmi við það sem kom fram í tillögum ráðherrans sem vill leggja stjórnirnar alfarið niður en hún hefur með vinnu sinni nú í janúar og febrúar gert þetta örlítið skárra en það leit út fyrir í byrjun. Það vil ég að komi skýrt fram.

Ég ætla svo sem ekki að fara að lesa það upp. Hv. þm. Jónína Bjartmarz, formaður heilbr.- og trn., hefur vafalaust fylgt því úr hlaði áðan þó að ég hafi því miður ekki getað hlustað á alla þá ræðu. Ég vil taka það skýrt fram að það er spor í rétta átt.

Herra forseti. Ég hef flutt brtt. á þskj. 1134 við þetta mál sem hér er verið að ræða. Ég tel mig hafa fært fram rök máli mínu til stuðnings og vil enda á því að segja: Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum mínum með hæstv. heilbr.- og trmrh., þingmann sem kosinn er af landsbyggðinni, að hann skuli í framhaldi af því samkomulagi sem gert var milli ríkis og sveitarfélaga ætla að draga líka úr þessum stjórnunarþætti viðkomandi stjórna sem hafa verið í ótal mörg ár, ég kann ekki einu sinni að segja hvað þær hafa verið lengi. Ég þekki það sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður og íbúi í litlu bæjarfélagi úti á landi og ég tel að það hafi hiklaust verið til góðs að heimamenn hafi setið í stjórnum viðkomandi stofnana og það hafi styrkt þær stofnanir á undanförnum árum og verið viðkomandi byggðarlögum til góðs. Þess vegna er ég andvígur þessu frv. og segi það enn og aftur: Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með hæstv. ráðherra, fyrir það fyrsta að hann skyldi koma fram með frv. og í öðru lagi að hann skyldi ekki breyta því vegna þess að það var töluverð andstaða gegn því þótt hún hafi vafalaust minnkað núna með brtt. heilbr.- og trn. Engu að síður kemur sá kostur næstur á eftir því að halda stjórnunum áfram, eins og ég sagði áðan.

Herra forseti. Ég hef oft á hinu háa Alþingi á þessu kjörtímabili andmælt þeirri miðstýringaráráttu sem felst hér í stjórnkerfinu, ráðuneytum og annars staðar í Reykjavík, þeirri miðstýringu að draga allt hingað suður til Reykjavíkur af landsbyggðinni. Þessi aðgerð er enn einn þáttur í því eins og kemur fram í umsögn heilsugæslunnar í Hafnarfirði og því hlýt ég að vera andvígur.

Ég segi það rétt í lokin, eins og ég kannski hóf mál mitt á, að hæstv. ráðherra hefði átt að kippa þessu til baka og láta það eiga sig. Það hefði mátt skilgreina betur starfsemi stjórnanna og það hefði mátt gera það þannig að stjórnirnar ynnu meira sem samverkamenn ráðherra við það að virða fjárlögin betur og halda sig innan fjárhagsramma þeirra, gæta aðhalds í rekstri, passa upp á að allt sé eðlilegt í þessum ,,stóru fyrirtækjum``, heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, sem eru vítt og breitt. Ég er ekki sammála því sjónarmiði sem þarna kemur fram að þetta sé best gert með því að viðkomandi framkvæmdastjóri geti leitað til heilbr.- og trmrn. í Reykjavík með mál sem þarf að bera upp.

Ég held, herra forseti, að ég hafi látið það flest koma fram sem ég vildi sagt hafa við þessa umræðu en mun koma aftur ef annað kemur á daginn.