Heilbrigðisþjónusta

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 21:00:49 (4642)

2003-03-10 21:00:49# 128. lþ. 94.33 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv. 78/2003, Frsm. JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[21:00]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fá að lýsa þeirri skoðun minni að ég held að meira máli skipti að ljóst sé í lögum eins og þeim sem við erum að ræða hvaða hlutverk stjórnirnar eigi að hafa, heldur en bara það að stjórnir séu til. Menn hljóta að spyrja til hvers og hvaða verk, hvaða valdsvið og hvaða ábyrgð ætlum við þeim?

En af því að hv. þm. Kristján L. Möller hafði orð á því áðan að það væri skömminni skrárra að hafa fyrirkomulagið eins og við leggjum til í heilbr.- og trn. miðað við það fyrirkomulag sem við erum að leggja niður og hann hafði líka orð á því að hann hefði ekki verið hér í dag þegar ég mælti fyrir þessu nál., þá ætla ég að ítreka það að nefndin leggur til að við allar heilsugæslustöðvar og sjúkrahús skuli vera framkvæmdastjórn skipuð minnst þremur mönnum og heimilt að fjölga þeim eftir því sem skipurit stofnunarinnar kveður á um. Þær skuli vera framkvæmdastjóra til ráðgjafar um rekstur heilsugæslustöðvar og hann skal hafa samráð við þessar stjórnir um allar mikilvægar ákvarðanir varðandi þjónustu og rekstur stöðvarinnar. En hv. heilbr.- og trn. gengur lengra, hún leggur líka til að framkvæmdastjórn skuli boða til upplýsinga- og samráðsfunda með starfsmannaráði stofnunar a.m.k. fjórum sinnum á ári. Og af því að hv. þm., að mig minnir, nefndi líka íbúalýðræði, þá leggjum við auk þess til að framkvæmdastjórn skuli boða til upplýsinga- og samráðsfunda með sveitarstjórn eða sveitarstjórnum á starfssvæði stöðvarinnar a.m.k. tvisvar á ári.

Þetta held ég að sé nú gott betur en skömminni skárra, því við erum kannski að koma á einhverju sem má kalla, ég segi ekki fyrirmyndarfyrirkomulagi, en svona ,,ideal`` fyrirkomulagi á þetta.