Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 22:06:48 (4653)

2003-03-10 22:06:48# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, Frsm. meiri hluta ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[22:06]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta hv. allshn. um frv. til laga um breyting á lögum um almannavarnir, lögreglulögum, lögum um Viðlagatryggingu Íslands, lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og lögum um fjarskipti. Þetta lýtur að stjórnsýslu almannavarna.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á stjórnskipulagi almannavarna. Við fengum marga góða gesti á fund nefndarinnar, leituðum umsagna víða og er þeirra getið í þingskjalinu sem þetta nefndarálit er ritað á.

Verkefni sem hafa verið á hendi almannavarnaráðs og Almannavarna ríkisins eru færð til embættis ríkislögreglustjóra. Gert er ráð fyrir að stofnuð verði sérstök deild við embættið í þessu skyni sem annist heildarskipulagningu og samhæfingu almannavarna. Þá er lagt til að sérstök ráðgjafarnefnd verði ríkislögreglustjóra til ráðuneytis um stefnumörkun og skipulag. Ekki eru lagðar til breytingar á stjórnskipulagi almannavarna í héraði nema gert er ráð fyrir að sveitarfélögum verði heimilt að koma á fót sameiginlegum almannavarnanefndum yfir tvö eða fleiri lögsagnarumdæmi. Það er rétt að hnykkja á því að ekki eru lagðar til breytingar á stjórnskipulagi almannavarna heima í héraði nema gert er ráð fyrir því að almannavarnir geti sameinast yfir tvö eða fleiri lögsagnarumdæmi. Slíkt er ekki heimilt nú.

Lögreglustjóri hefur sem sagt fram til þessa stýrt í almannavarnaástandi, eins og við þekkjum svo vel. Því er ekki verið að breyta, alls ekki, en bent hefur verið á að hann hafi stundum vantað stuðning í slíku almannavarna\-ástandi. Almannavarnaráð er fjölskipað stjórnvald og hefur ekki með lögregluvald að gera og getur því ekki yfirtekið starf eða starfssvið lögreglustjórans ef svo ber undir. Bentu sýslumennirnir í Vestmannaeyjum og á Ísafirði m.a. á að þessi breyting væri mjög til bóta og leiddi til einföldunar fyrir lögreglustjóra, sem ég vil enn og aftur minna á að eru yfirmenn almannavarna heima í héraði. Jafnframt geti þessi breyting styrkt embætti lögreglustjóra og þá þætti er lúta að undirbúningi fyrir almannavarnaástand. Þetta eru m.a. þau atriði sem sýslumennirnir í Vestmannaeyjum og á Ísafirði bentu á.

Meginsjónarmiðið að baki þessum breytingum er að ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglunnar í umboði dómsmálaráðherra og samkvæmt gildandi lögum fara lögreglustjórar með stjórn almannavarna hver í sínu umdæmi. Því er talið eðlilegt að ríkislögreglustjóri fari með yfirstjórn þessara mála á landsvísu, sér í lagi með það í huga að almannavarnaástand getur náð yfir fleiri en eitt lögsagnarumdæmi. Gerir ríkislögreglustjóri það þá að höfðu samráði við viðkomandi lögreglustjóra.

Flestir gestir nefndarinnar tóku undir það að ábyrgð á hlutverkaskipan þyrfti að vera skýr. Með þessu muni jafnframt m.a. boðleiðir í almannavarnaástandi styttast, stjórnskipulag verða einfaldara og sparnaður nást í opinberum rekstri vegna samlegðaráhrifa. Er þetta fyrirkomulag, herra forseti, með svipuðum hætti og er í Noregi en þar eru tvær björgunarmiðstöðvar, önnur í Norður-Noregi og hin í Suður-Noregi, og lúta þær yfirstjórn lögreglustjóra. Þetta eru lágmarksbreytingar svo að hægt sé að sameina almannavarnir, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, en ekki síður eru þetta lágmarksbreytingar vegna yfirstjórnar og björgunarmiðstöðvar. Í heimsókn nefndarinnar í Skógarhlíðina, sem var afskaplega góð heimsókn, kom skýrlega fram að breytingin sem getið er um í frv. styður mjög við björgunarmiðstöðina og skýrir ábyrgðardreifingu og hlutverkaskipan. Annað getur beðið. En þeir bentu ítrekað á að þessi breyting væri nauðsynleg til að styðja enn frekar við þessa björgunarmiðstöð sem flestallir eru sammála um að sé afskaplega mikilvæg.

Þá bentu þeir einnig á mikilvægi þess að þrátt fyrir að allir þessir aðilar komi að borði í björgunarmiðstöðinni sé skýrt kveðið á um að það sé einn aðili sem stýri.

Formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar gat þess m.a. að þetta frumvarp væri til að stytta boðleiðir og væri einnig stuðningur við að þeir sem koma að þessum mikilvægu málum tali sama tungumál, eins og hann orðaði það á fundi nefndarinnar.

Nefndin ræddi málið ítarlega á fundum sínum, eins og ég gat um áðan. Helstu athugasemdir sem fram komu hjá gestum lutu að nauðsyn heildarendurskoðunar á lögunum en jafnframt var á það bent að hlutverk hinnar svokölluðu samstarfsnefndar um almannavarnir væri ekki nógu skýrt.

Meiri hlutinn leggur til breytingar sem lúta að verksviði ríkislögreglustjóra annars vegar og svokallaðrar samstarfsnefndar um almannavarnir hins vegar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Meiri hlutinn leggur til að í stað samstarfsnefndarinnar verði áfram starfandi almannavarnaráð, skipað lykilmönnum frá nánar tilgreindum stofnunum og aðilum á sviði almannavarna. Er með þessu ætlað m.a. að skerpa á hlutverki almannavarnaráðs enda lutu flestar athugasemdir þeirra sem leitað var til að hlutverki almannavarnaráðs. Fór meiri hluti nefndarinnar gaumgæfilega yfir þessar athugasemdir og eru breytingarnar m.a. gerðar í samræmi við þær athugasemdir sem komu fram í þessum umsögnum. Talið er nauðsynlegt að í almannavarnaástandi liggi skýrt fyrir hverjir eigi sæti í því og sé upptalningin því til þess fallin að spara tíma og vangaveltur við slíkar aðstæður. Meiri hlutinn leggur jafnframt til það nýmæli að dómsmálaráðherra skipi óháðan formann ráðsins án tilnefningar í þeim tilgangi að tryggja jafnræði aðila innan þess. Þá leggur meiri hlutinn til að dómsmálaráðherra hafi heimild til þess að kalla fleiri aðila til starfa í almannavarnaráði ef nauðsyn ber til. Lagt er til að almannavarnaráð verði ríkisstjórninni til ráðgjafar um almannavarnir. Auk þess verði það hlutverk ráðsins að stuðla að samhæfingu í almannavarnaaðgerðum og fjalla um áhersluatriði í almannavörnum á hverjum tíma og vera auk þess ríkislögreglustjóra til ráðgjafar þegar almannavarna\-ástand kemur upp.

Ég vil rétt geta þess, herra forseti, vegna þeirrar tillögu meiri hlutans að dómsmálaráðherra hafi einnig heimild til að kalla fleiri aðila til starfa í almannavarnir ef nauðsyn ber til að hér er meiri hlutinn með það í huga að ef málefni lúta m.a. að lögsögu yfirdýralæknis sem tengjast sóttvörnum o.s.frv. sé einmitt hægt í slíkum tilfellum að kalla yfirdýralækni inn í almannavarnaráð.

Meiri hlutinn leggur til að ríkislögreglustjóri hafi mun nánara samstarf við almannavarnaráð en frumvarpið gerði ráð fyrir og beri öll helstu atriði tengd almannavörnum undir það. Þetta leggjum við mikla áherslu á. Í breyttu stjórnskipulagi ber ríkislögreglustjóri hins vegar stjórnsýslulega ábyrgð á málaflokknum gagnvart dómsmálaráðherra enda er töluverður munur á stjórnsýslunni nú og stjórnsýslunni 1962 þegar almannavarnalögin voru samþykkt. Þá, eins og ég gat um áðan, var yfirstjórn almannavarna í héraði sett undir lögreglustjóra eins og það er nú.

[22:15]

Ríkislögreglustjóri ber stjórnsýslulega ábyrgð á málaflokknum gagnvart dómsmálaráðherra. Með því að lagt er til að meðal verkefna ríkislögreglustjóra sé vöktun og mat á hættu, viðbúnaður og upplýsingaöflun í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir, auk annarra verkefna sem tekin eru fram í 2. gr. frumvarpsins, er ekki gert ráð fyrir að hann annist mælingar, spár eða nokkra vísindalega vinnu heldur sé embættið upplýst um stöðu mála hverju sinni í þessum mikilvægu málaflokkum sem geta snúið að Veðurstofunni, Geislavörnum o.s.frv.

Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að tímabært er að endurskoða lögin í heild og gera úttekt á stöðu almannavarna í landinu, ekki síst með hliðsjón af aukinni samvinnu við leit og björgun og samhæfingu viðbragða gegn vá.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær helstu eru eftirfarandi:

1. Meiri hlutinn leggur til að ríkislögreglustjóri hafi mjög náið samstarf við almannavarnaráð og beri öll helstu atriði tengd almannavörnum undir ráðið, sbr. breytingartillögur við 1., 2., 5., 9., 11., 12. og 13. gr. frumvarpsins. Ríkislögreglustjóri ber hins vegar stjórnsýslulega ábyrgð á málaflokknum gagnvart dómsmálaráðherra.

2. Lögð er til nauðsynleg breyting á 5. gr. laganna í samræmi við ákvæði sóttvarnalaga, nr. 19/1997, og annarrar löggjafar á þessu sviði.

3. Lagðar eru til breytingar á 2. gr. frumvarpsins, er verður 3. gr., til samræmis við það sem nefnt er hér að framan og skýrar kveðið á um samráðsskyldu ríkislögreglustjóra við ýmsa aðila. Lögð er til orðalagsbreyting á b-lið um vöktun og mat á hættu til að skýrt sé hvað átt er við og að hér sé um að ræða samvinnu ríkislögreglustjóra við hlutaðeigandi stofnanir en ekki einungis við vísindastofnanir. Þá er lögð til breyting á c-lið ákvæðisins um geislavarnir. Viðmið í geislunarviðbúnaði hafa breyst mikið á undanförnum árum og reynslan hefur sýnt að jafnvel grunur um smávægilega aukningu geislunar getur haft veruleg efnahagsleg og félagsleg áhrif. Þannig miða nú flest lönd geislunarviðbúnað sinn við að geta brugðist við minnstu breytingu frá venjulegu ástandi og sama gildir um Geislavarnir ríkisins. Nauðsynlegt þykir að skipulag viðbúnaðar sé það sveigjanlegt að það geti tekið á smávægilegum frávikum jafnt sem alvarlegum slysum og atvikum. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til mun ríkislögreglustjóri hafa skýra lagaheimild til víðtækari samvinnu við Geislavarnir ríkisins um viðbúnað vegna geisla- og kjarnorkuvár með svipuðum hætti og tíðkast í grannlöndum okkar. Þá er lagt til að við bætist tveir nýir stafliðir þar sem kveðið er á um samráðsskyldu ríkislögreglustjóra við Umhverfisstofnun, landlæknisembættið og yfirdýralækni við nánar tilgreindar aðstæður. Loks er lagt til að áfram verði stuðst við nákvæma upptalningu í lögum á því hverjir eigi sæti í almannavarnaráði. Talið er nauðsynlegt að slíkt liggi skýrt fyrir í almannavarnaástandi. Upptalningin er til þess fallin að spara tíma og vangaveltur við slíkar aðstæður. Meiri hlutinn leggur þó til að ráðherra hafi heimild til þess að kalla fleiri aðila til starfa í almannavarnaráði ef nauðsyn ber til, samanber yfirdýralækni sem ég gat um áðan. Meiri hlutinn leggur til að nokkrir aðilar bætist í grunnhóp ráðsins. Nauðsynlegt þykir að veðurstofustjóri eigi þar sæti þar sem Veðurstofa Íslands er orðin helsta vöktunarstofnun landsins og fylgist með nánast allri náttúruvá, annaðhvort ein eða í samstarfi við aðrar stofnanir.

Í núgildandi lögum um almannavarnir er gert ráð fyrir að póst- og símamálastjóri sitji í almannavarnaráði. Með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa í löggjöf leggur meiri hlutinn til að þess í stað eigi þar sæti forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar ásamt forstjóra Landssíma Íslands til þess að tryggja eðlileg fjarskipti og síma- og netsamband frá landinu í almannavarnaástandi. Þá þykir jafnframt nauðsynlegt að hafa æðstu yfirmenn frá Rauða krossinum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga í ráðinu ásamt flugmálastjóra þar sem þessir aðilar þurfa í ljósi reynslunnar að koma að málum ef almannavarnaástand skapast.

Þá er lögð er til orðalagsbreyting í 6. gr. frv.

Einnig er lögð til nauðsynleg breyting á gildistöku frumvarpsins.

Herra forseti. Undir þetta nál. rita ásamt þeirri sem hér stendur hv. þm. Katrín Fjeldsted, Jónína Bjartmarz, Ásta Möller og Kjartan Ólafsson en hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Við leggjum til þær breytingar sem getið er um í þskj. 464 sem þegar hefur verið lagt fyrir þingið. Við teljum um afskaplega brýnt mál að ræða sem eykur öryggi landsmanna í almannavarnaástandi, sem hugsanlega getur komið upp. Eins og ég gat um áðan, herra forseti, er málið þess eðlis að af þeim 21 sem sendi inn umsagnir eru 16 fylgjandi frv. en tveir eru á móti því, er annar framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins og hinn frá Vegagerðinni. Þrjá má skilgreina sem nokkurn veginn hlutlausa þar sem þeir leggja áherslu á endurskoðun á almannavarnaráði sem slíku. En við leggjum einmitt til að þar verði gerðar breytingar.

Herra forseti. Að öðru leyti hef ég ekki fleiri orð um þetta að sinni en meiri hluti nefndarinnar mælist til að frv. verði samþykkt.