Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:23:16 (4662)

2003-03-10 23:23:16# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:23]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór nú eins og ég óttaðist, að málið yrði ekki skýrt í þessu andsvari. Ég vil halda til haga þessu litla atriði sem ég fór vandlega yfir í ræðu minni. Ég fór yfir þær röksemdir og tíndi fram það sem ég teldi ekki til góða. En kjarni málsins, til að reyna að einfalda og kristalla, er að samhæfingaraðili við almannavarnaástand, Almannavarnir ríkisins, er lagður niður. Fjárframlög til starfsins eru lækkuð um helming samkvæmt áætlun. Þau eru lækkuð um helming og rúmlega það, 51%. Sérhæfðum starfsmönnum fækkar.

Ef þetta er leiðin til að bæta almannavarnir í landinu verð ég að segja, virðulegi forseti, að hún hefur ekki verið studd rökum við þessa umræðu frekar en að hún hafi verið rökstudd í umræðunni í allshn. Þetta er það sem við sitjum uppi með. Þetta er niðurstaðan. Hins vegar tókst okkur aldrei að draga fram hvað raunverulega bjó að baki þessari kjánalegu breytingu.