Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:43:15 (4668)

2003-03-10 23:43:15# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:43]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það frv. sem við erum ræða hér, ásamt brtt. og nál., er um breyting á lögum um almannavarnir. Ég verð að taka fram að ég tek undir það álit minni hlutans að ef frv. verður að lögum muni það ekki leiða til aukins öryggis landsmanna. Ég kem ekki auga á að þær breytingar sem hér eru boðaðar séu beinlínis í þá veru. Það má taka undir, og er ekki hægt að mæla gegn því, að þessi breyting spari fjármuni en að öðru leyti kem ég ekki auga á að frv. bæti stöðuna. Ég sé sem sagt ekki að málið sé í neitt betri farvegi með þeim breytingum sem frv. gerir ráð fyrir.

Mjög margir af þeim sem komu fyrir nefndina höfðu miklar efasemdir um ágæti þess að stíga þetta skref. Ég held að mjög margir hafi bent á að það væri þá rétt að skoða málið alveg heildstætt, gera allsherjarbreytingar, skoða málaflokkinn í heilu lagi, og að þetta skref sem nú væri verið að stíga, að færa Almannavarnir ríkisins undir ríkislögreglustjóra sérstaklega, væri hvorki trúverðugt né væri hægt að halda því fram að það stytti boðleiðir frá því sem nú væri eða að það fyrirkomulag sem verið hefði hafi reynst illa.

[23:45]

Mér virðist eingöngu verið að breyta breytinganna vegna og ekki færð fyrir því sannfærandi rök. Meiri hlutinn hefur vissulega lagt vinnu í að reyna að bæta þetta frv., ég tek undir það sem hv. þm. sem fluttu minnihlutaálitið sögðu um það. Ég tel að formaður allshn. hafi lagt sig fram við að reyna að bæta frv. en þetta er ekki til bóta. Ég teldi betra að láta þetta ógert og menn tækju málið fremur til allsherjarendurskoðunar, skipulag þessara mála í heild yfir landið, og skoðuðu það algjörlega ofan í kjölinn. Ég sé ekki að að þessi eina breyting, að færa þetta undir ríkislögreglustjóra sé til bóta. Ég tek að mörgu leyti undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni og Ögmundi Jónassyni.

Það er ekki hægt að lesa annað úr málinu, miðað við málflutninginn og kynninguna á því í allshn. með þeim gestum sem komu fyrir nefndina, en að eina röksemdin fyrir því að fara af stað með þetta mál sé að með því sparist um 20 millj. kr. Ég dreg reyndar í efa að þegar upp verður staðið og búið að koma þessu fyrir hjá ríkislögreglustjóra og gera það sem þarf í því sambandi þá verði sparnaðurinn eins mikill og af er látið. Það hefur löngum verið þannig að þegar menn stofna til nýrra verkefna hjá nýjum embættum þá vill kostnaðurinn fara ansi mikið úr böndunum. Ég efast því um sparnaðinn svona fyrir fram.

En auðvitað finnst mér aðalmálið vera hvort breytingarnar eru til bóta og auki öryggið. Ég verð að segja eins og er, ég endurtek það, að ég kem ekki auga á það. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til að styðja málið.