Framhald þingfundar

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:50:11 (4672)

2003-03-10 23:50:11# 128. lþ. 94.93 fundur 483#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), LB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:50]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram hefur verið fundað nánast samfellt, ef undan eru skilin matarhlé, frá því klukkan 10.30 í morgun. Eins og dagskráin er uppbyggð eru nokkur mál sem nú á að fara að ræða, samkvæmt þeirri áætlun sem liggur fyrir, sem eru að koma hér til 1. umr. Ég get vel skilið að sumir hæstv. ráðherrar sem vilja fá að mæla fyrir málum sínum séu örvæntingarfullir um að fá að mæla fyrir þeim því dögum þeirra í embætti fer náttúrlega ört fækkandi. En það eitt að þeir séu áhugasamir um að koma málum til nefnda ætti ekki að duga til að þingfundir séu haldnir hér langt inn í nóttina. Eiginlega finnst mér ekki vera nokkur bragur á þessu. Þetta dregur að minni hyggju upp slæma mynd af störfum þingsins.

Ég vil leggja til, virðulegi forseti, að þrátt fyrir að hæstv. ráðherrar hafi margir hverjir mikinn áhuga á því að koma málum til nefnda, þá verði það ekki látið draga upp vægast sagt undarlega mynd af þinginu. Ég hvet því hæstv. forseta til að endurskoða þá áætlun sem birtist í orðum hans þegar hann svaraði hv. þm. Ögmundi Jónassyni.

Ég tel svo sem eðlilegt að menn klári þau mál sem samkomulag er um að fari hér í gegn en það má ekki leiða til þess að sérstakur áhugi tiltekinna ráðherra um að koma málum til nefndar áður en dögum þeirra í ráðherraembætti lýkur verði til að hér verði fundað langt fram undir morgunn í algjöru tilgangsleysi, virðulegi forseti.