Framhald þingfundar

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:54:34 (4675)

2003-03-10 23:54:34# 128. lþ. 94.93 fundur 483#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), GAK
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:54]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það hefur verið sæmilega afkastamikill dagur í þinginu í dag, a.m.k. miðað við það sem oft gerist. Ég held að við höfum afgreitt yfir 30 lög. Ein þeirra voru m.a. um vinnutíma sjómanna, stéttar sem hefur oft langan vinnutíma. Menn voru að setja þar ákveðin takmörk. Við erum búin að vera hér að í hátt í 14 klukkutíma frá því í morgun. Mér fyndist því allt í lagi, herra forseti, að við hugleiddum að við vorum að setja hér lög um vinnutíma annarra stétta. Ég tel rétt að við veltum fyrir okkur hvort ekki sé allt í lagi hér og í hvaða fari við erum.

Svo má náttúrlega velta því fyrir sér, herra forseti, að hæstv. landbrh. fer núna fram á að keyra á síðustu dögum þingsins í gegn ein þrjú mál af þeim 15 sem hann hefur komið í verk og lagt fyrir þingið í vetur. Það sýnir náttúrlega að hafa mætti vinnulagið öðruvísi. Alla vega finnst mér að hv. landbrh. þurfi ekki endilega að taka sér til fyrirmyndar gamlan mann norðan úr Grunnavík sem rak alltaf gömlu merina á undan sér í staðinn fyrir að ríða henni. Venjulega notuðu menn hestana til að komast hraðar yfir og ná meiri árangri. En þessi aðferð lýsir því vinnulagi sem verið hefur hjá hæstv. landbrh.

Ég mælist til þess, herra forseti, að við látum staðar numið nú þegar klukkuna vantar rúmlega tvær mínútur í tólf. Þetta er ágætisdagsverk sem við höfum klárað í dag og einn af afkastameiri dögum þingsins.