Úrræði fyrir fullorðna sem eiga við læsisvanda að etja

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 10:30:45 (4699)

2003-03-11 10:30:45# 128. lþ. 95.1 fundur 603. mál: #A úrræði fyrir fullorðna sem eiga við læsisvanda að etja# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[10:30]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Mikið hefur verið fjallað um ýmiss konar lestrarvanda í fjölmiðlum upp á síðkastið og er ljóst að vandi þeirra sem eiga við slíkt að etja er mikill, og fá úrræði virðast vera til staðar í kerfinu. Áberandi er að fjöldi kennara sem lætur sér annt um hag þeirra nemenda sem eiga við slíkan vanda að etja hefur komið fram í fjölmiðlum og lýst ástandinu. Kristín Jónsdóttir, íslenskukennari við Menntaskólann í Reykjavík, skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu um helgina en þar gerir hún að umtalsefni mikilvægi þess að uppgötva lesblindu sem fyrst og telur hún með öllu óskiljanlegt hversu erfitt er að fá greiningu fyrir nemendur. Hún telur skólakerfið illa í stakk búið til að sinna þessum nemendum og þótt flestir kennarar séu allir af vilja gerðir til að taka tillit til slíkra nemenda megi það sín lítils ef stjórnvöld skapa skólastarfinu ekki nauðsynleg skilyrði. Í niðurlagi greinarinnar segir Kristín, með leyfi forseta:

,,Þá verður lítið úr þeirri háleitu hugsjón að allir fái menntun við sitt hæfi.``

Í þessu sama Morgunblaði frá 9. mars er að finna grein eftir Sigríði Soffíu Sandholt og Þóreyju Kolbeins sem báðar eru kennarar við skóla Ísaks Jónssonar. Þær taka í sama streng og leggja áherslu á nauðsyn þess að börn fái greiningu snemma, helst ekki seinna en 9 ára.

En hver staðreyndin í þessum málum, herra forseti? Hana má m.a. finna í ummælum Knúts Hafsteinssonar, íslenskukennara við Menntaskólann í Reykjavík, sem sagði í viðtali við fréttamann Stöðvar 2 fyrir skemmstu það vera óskiljanlegt að ungt fólk haldið miklum lestrarerfiðleikum, jafnvel lesblindu, skuli vera að uppgötvast þegar það kemur í menntaskóla 16 ára gamalt eftir tíu ára grunnskólanám. Og Knútur heldur áfram að lýsa vaxandi erfiðleikum á þessu sviði sem tengjast því að Lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands var lögð niður því meðan hún starfaði vissu kennarar þó hvert var hægt að senda börn til frekari greiningar en eftir að henni var lokað er enginn staður í kerfinu sem tekur á vanda þessara barna. Þetta er sannarlega áhyggjuefni, herra forseti, og ber að skoða í samhengi við þær umræður sem hafa átt sér stað í þessum sal. Er skemmst að minnast umræðu sem átti sér stað í fyrirspurnatíma þegar hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir lagði fyrirspurn fyrir hæstv. menntmrh. 20. nóvember sl. Spurningin var hvað liði könnun á læsi fullorðinna Íslendinga sem Alþingi samþykkti vorið 2000 að fela menntmrh. að láta gera. Í svörum ráðherrans við fyrirspurn þingmannsins kom fram að menntmrn. hafi skipað starfshóp þann 8. mars 2002 sem hafi skilað tillögum til ráðuneytisins í október sl. Síðan hefur lítið frést af þessum tillögum eða framkvæmdum til úrbóta. Einungis hefur bæst í þær fréttir af dapurlegu ástandi mála sem við höfum mátt lesa í fjölmiðlum allt of lengi. Af þessum ástæðum, herra forseti, tel ég tímabært að spyrja hæstv. menntmrh.:

Hverjar voru niðurstöður starfshóps sem skipaður var 8. mars 2002 og falið var að gera tillögur um úrræði fyrir fullorðna sem eiga við læsisvanda að etja og hvernig er ráðgert að fara að tillögum hópsins?