Úrræði fyrir fullorðna sem eiga við læsisvanda að etja

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 10:39:19 (4701)

2003-03-11 10:39:19# 128. lþ. 95.1 fundur 603. mál: #A úrræði fyrir fullorðna sem eiga við læsisvanda að etja# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[10:39]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Læsi er forsenda þátttöku í nútímasamfélagi, nú sem aldrei fyrr. Það er því afskaplega miður að hæstv. menntmrh. skyldi kjósa að koma sér undan þeirri samþykkt Alþingis að kanna bæri læsi fullorðinna Íslendinga vegna þess að með þær niðurstöður í höndunum hefði hann og þeir sem vilja takast á við vanda hinna fullorðnu verið betur staddir en að þurfa sífellt að vitna til þess hvernig þetta er erlendis, eða fram hafi komið í skýrslu að þeir væru of margir eða nokkuð margir sem ættu við þennan vanda að etja.

Herra forseti. Þeir eru allt of margir. Þeir kostir sem mönnum bjóðast á Íslandi eru því miður fáir og dýrir. Ég vil benda á það í þessari umræðu að Danir bjóða illa læsum og ólæsum fullorðnum ókeypis þjónustu því þar er litið svo á að skólakerfið hafi brugðist þessu fólki. Þannig mundum við vilja sjá það hér á Íslandi, herra forseti, og ég skora á hæstv. menntmrh. að horfa á málin með þeim hætti.