Heimakennsla á grunnskólastigi

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 10:44:54 (4704)

2003-03-11 10:44:54# 128. lþ. 95.2 fundur 641. mál: #A heimakennsla á grunnskólastigi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[10:44]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Fyrir nokkru varð ég þess vör að menntmrn. hafði mótað og birt vinnureglur við mat á umsóknum vegna heimakennslu í tilraunaskyni á grunnskólastigi. Þetta vakti forvitni mína og fleiri og vakti jafnframt upp vangaveltur um það hvort hér væri verið að stíga skrefið aftur á bak eða áfram. Ég minnist þess að við kennarar sem vildum breyttan skóla í breyttu samfélagi ræddum það mjög á árum áður hvort möguleiki til heimakennslu gæti verið liður í þeim breytingum sem við vildum sjá, hvort nokkur ástæða væri fyrir foreldra að treysta þeirri íhaldssömu stofnun samfélagsins, skólanum, fyrir uppeldi og mótun barna sinna. Þessar pælingar fengu byr undir báða vængi þegar áhrifahugsuður á þessu sviði, John Holt, kom til Íslands og hélt fyrirlestur um heimakennslu, líklega í lok 8. áratugarins.

Í Bandaríkjunum er talið að um 1% nemenda, eða hátt í milljón, sé í heimakennslu og hefur fjöldi þeirra aukist mjög á síðari árum. Það hafa aðallega verið sértrúarsöfnuðir og hópar eins og Amish-fólkið, sem hefur viljað vernda börn sín fyrir óæskilegum áhrifum heimsins, sem hafa nýtt sér heimild til heimakennslu. Nokkur hreyfing virðist á þessum hópi og algengt að börn séu sum ár í heimakennslu en önnur í almennum skólum. Þessi börn virðast eiga það sameiginlegt að eiga meðvitaðri foreldra en gengur og gerist.

Þá er það staðan hér og nú. Ég sé það af gögnum ráðuneytisins hver skilyrði eru sett fyrir heimakennslu. En spurningin er þessi:

Hefur einhver sveitarstjórn sótt um heimild til að leyfa heimakennslu á grunnskólastigi? Áhugafólk um þróun skólamála hlýtur líka að vilja átta sig á ástæðum slíkrar beiðni. Er t.d. um að ræða foreldra sem búa svo fjarri skóla að verið sé að vernda ung börn fyrir óhóflegum ferðalögum? Við heyrum talað um ferðatíma allt á annan klukktíma til sumra skóla og frá nú þegar heimavistir eru aflagðar, eða er viljinn að vernda börnin fyrir utanaðkomandi óæskilegum áhrifum? Að lokum væri áhugavert, herra forseti, að vita hvaða ástæður gætu helst réttlætt slíka beiðni og þá að henni yrði goldið jáyrði að mati hæstv. ráðherra.