Heimakennsla á grunnskólastigi

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 10:53:30 (4707)

2003-03-11 10:53:30# 128. lþ. 95.2 fundur 641. mál: #A heimakennsla á grunnskólastigi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[10:53]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir fyrirspurnina. Í raun er ljóst af ummælum hennar að hún telur að verið sé að stíga skref fram á við með því að opna þennan möguleika. Ég skildi ummæli hennar á þann hátt að hún teldi eðlilegt og jákvætt að gefa kost á þessu. En jafnframt skildi ég hana svo að hún styddi það að þar yrði farið af fullri varfærni og eðlilegt væri að gera ítarlegar kröfur til þess með hvaða hætti þessi möguleiki er opnaður. Ég held því að hv. fyrirspyrjandi sé þeim sem hér stendur sammála um að opna beri þennan möguleika og að standa beri vörð um það að þegar sá möguleiki verður nýttur, ef hann verður nýttur, þá verði gerðar ítarlegar kröfur til þess að námið sem fer fram með slíkum hætti verði sambærilegt við nám í skólunum almennt.