Áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fanga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:00:16 (4708)

2003-03-11 11:00:16# 128. lþ. 95.3 fundur 583. mál: #A áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fanga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:00]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Fyrir réttu ári beindi ég fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um meðferð við vímuvanda fanga. Samkvæmt upplýsingum frá trúnaðarráði fanga á Litla-Hrauni sem bárust fyrir um það bil ári síðan eru yfir 90% fanga þar vegna beinna eða óbeinna tengsla við fíkniefni og vísindalegar rannsóknir sem gerðar hafa verið af mönnum eins og Jóni Friðriki Sigurðssyni Gísla H. Guðjónssyni og fleirum sýna að vandinn er mikill í íslenskum fangelsum.

Í yfirliti yfir áfengis- og vímuefnanotkun í fangelsum í ESB-löndum koma fram þó nokkru lægri hlutfallstölur. Hazelden-stofnunin segir að 80% þeirra tveggja milljóna manna og kvenna sem sátu í fangelsum í Bandaríkjunum fyrir um ári síðan hafi átt við alvarlegan áfengis- og eiturlyfjavanda að stríða.

Herra forseti. Læknisþjónusta á Litla-Hrauni er veitt frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og er geðlæknir í hlutastarfi við fangelsið. Þar er einnig sálfræðingur í fullu starfi og ágæt þjónusta hjúkrunarfræðinga. Hins vegar virðist ljóst að talsvert er um áfengis- og fíkniefnaneyslu innan fangelsisveggjanna. Þess vegna veltir maður því fyrir sér hvort ekki sé hægt að stemma á að ósi og takast á við fíkniefnavandann í upphafi afplánunar. Ef víman er undanfari flestra brota hljótum við að þurfa að endurskoða hvernig meðferð er boðið upp á og hvenær.

Í svari hæstv. dómsmrh. við fyrirspurn minni kom fram að allt frá árinu 1990 hafi Fangelsismálastofnun í samstarfi við SÁÁ gefið föngum kost á að ljúka afplánun í meðferð og að öllu jöfnu sé hún veitt á síðustu sex vikum afplánunar. Það er því ljóst að aðkoma heilbrigðisþjónustunnar er mikilvæg svo og samstarf hennar við dómsmrh. og fangelsisyfirvöld.

Einnig veltir maður því fyrir sér af hverju dómstólar innifela ekki í ríkara mæli í úrskurðum sínum að hluti af afplánun sé meðferð við þessum vanda.

Ég kom nýlega í heimsókn að Sogni til að kynna mér starfsemina þar. Þar eru sjö pláss sem margir telja að sé of fámenn stofnun. Ég tel að auka þurfi geðmeðferð við fangelsin og efla Sogn og jafnvel byggja við Sogn og að auka geðþjónustu við allt svæðið. En ég vil beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. heilbrrh.:

1. Telur ráðherra að bæta þurfi áfengis- og vímuefnameðferð þá sem afplánunarföngum stendur til boða?

2. Hvernig er samstarfi háttað milli heilbrigðisþjónustu og fangelsisyfirvalda hvað slíka meðferð áhrærir?

3. Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða aðkomu heilbrigðisþjónustunnar að þessum málaflokki, og þá hvernig?