Áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fanga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:08:26 (4711)

2003-03-11 11:08:26# 128. lþ. 95.3 fundur 583. mál: #A áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fanga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:08]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans og ég tek undir orð hans og síðasta ræðumanns einnig og mikilvægi þessa máls. Marga sem sitja í fangelsum á Íslandi má kalla sjúklinga. Þeir eru í viðjum eiturlyfjavanda og það skilar sér auðvitað í því að reynt er að smygla slíkum efnum inn í fangelsin og viðheldur það vandanum. Þess vegna skiptir svo miklu máli að menn skoði í alvöru hvort hægt sé að snúa þessu við þannig að meðferðin eigi sér stað í upphafi vistunar en ekki undir lokin, sömuleiðis að eftirmeðferð fyrir þetta fólk --- en aðallega eru þetta ungir karlmenn --- standi til boða. Það hefur sýnt sig í rannsóknum, einkum á Bretlandi og Írlandi, að það skilar sér ef þannig er að málum staðið. Það er mikil hreyfing í þessu í löndum Evrópu. Ég er ekki viss um að í neinu einu landi sé svo komið að meðferð sé veitt í upphafi afplánunar en í vaxandi mæli sýnst mér dómstólar fela það í úrskurðum sínum að meðferð hefjist sem fyrst og þeim dæmda gert skylt að undirgangast slíka meðferð, enda sýnir það sig að það skilar gjarnan árangri ef vel er að staðið og eftirmeðferð er fyrir hendi.

Mér finnst skipta máli að við horfum á þetta líka sem heilbrigðismál og að fangar eru margir ólánsmenn og hafa lent í þessum vítahring í lífi sínu. Þeir þurfa betra líf þegar út úr fangelsunum er komið og heilbrigðisþjónustan getur lagt sitt af mörkum til þess að þeir komi heilli út í samfélagið en þegar þeir fóru í fangelsi.