Staða óhefðbundinna lækninga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:15:29 (4714)

2003-03-11 11:15:29# 128. lþ. 95.4 fundur 592. mál: #A staða óhefðbundinna lækninga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:15]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir hefur spurst fyrir um stöðu nefndar sem Alþingi fól heilbrrh. að skipa til að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi. Mér er ljúft að greina frá því að nefnd þessi hefur þegar tekið til starfa. Hún var skipuð seint á síðasta ári og er skipunarbréf hennar í samræmi við ályktun Alþingis. Nefndina skipa læknir, mannfræðingur, nuddari, hómópati, hjúkrunarfræðingur, lögfræðingur og lyfjafræðingur. Sér til aðstoðar hefur nefndin einn af starfsmönnum heilbrrn. Eins og fram kom er nefndinni ætlað að skila skýrslu til Alþingis um framvindu mála 1. apríl 2003 og endanlegum niðurstöðum 1. október 2003.

Herra forseti. Staða óhefðbundinna lækninga hefur verið mikið til umræðu undanfarin missiri og ár. Ég vænti því mikils af vinnu þessarar nefndar og tel áríðandi að hún standi við þær dagsetningar sem henni eru settar.