Endurhæfing krabbameinssjúklinga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:22:07 (4718)

2003-03-11 11:22:07# 128. lþ. 95.5 fundur 643. mál: #A endurhæfing krabbameinssjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:22]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þuríður Backman hefur beint til mín þremur spurningum um endurhæfingu krabbameinssjúklinga. Fyrsta spurningin er svohljóðandi: ,,Mun ráðherra beita sér fyrir eflingu endurhæfingardeildar krabbameinssjúklinga í Kópavogi?``

Á undanförnum árum hafa menn í vaxandi mæli beint sjónum að þörfum þeirra, sem greinst hafa með krabbamein, til endurhæfingar. Bætt meðferð og auknar lífslíkur hafa ráðið þar miklu og jafnframt hafa kröfur sjúklinga, aðstandenda þeirra og samfélagsins um bætta eftirmeðferð, sérstaklega endurhæfingu, orðið meira áberandi. Starfsmenn Landspítala hafa fylgst með þessari þróun og tekið undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að bjóða upp á endurhæfingu fyrir sjúklinga sem greinst hafa með krabbamein á sama hátt og aðra þá sem verða fyrir alvarlegum veikindum eða fötlun.

Á Íslandi greinast um 1.100 einstaklingar á ári hverju með krabbamein. Sá hópur er mjög sundurleitur hvað snertir aldursdreifingu, tegund krabbameins og afleiðingar fyrir einstaklinginn. Á landinu öllu eru á hverjum tíma um 7 þús. einstaklingar á lífi sem greinst hafa með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni. Þörfin fyrir endurhæfingu í þessum hópi hefur verið til staðar. Hins vegar hefur ekki verið ljóst hve stór hluti hópsins væri í þörf fyrir slíka þjónustu en stuðst hefur verið við reynslu og áætlun fagfólks sem starfar við meðferð krabbameinssjúkra við mat á þörfinni.

Landspítali -- háskólasjúkrahús hefur unnið að áætlunum um endurhæfingarþjónustu við sjúklinga með krabbamein um nokkurt skeið. Fyrirhugað var að koma slíkri starfsemi í fastan farveg með opnun dagdeildar í húsnæði LSH í Kópavogi haustið 2001. Á þeim tíma var talsverð umræða um málefnið sem m.a. kom fram í ríflegu framlagi landsmanna í söfnun Krabbameinsfélags Íslands þar sem meginþema landssöfnunarinnar var þörf fyrir endurhæfingu krabbameinssjúkra. Krabbameinsfélagið hefur ekki lagt fé til verksins enn sem komið er. Legudeildin hefur ekki verið opnuð enn, en sinnt er göngudeildarþjónustu, þar með talið iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun ásamt einhverri sálfræðiþjónustu. Undirtektir sjúklinga hafa verið mjög góðar og styrkt starfsmenn spítalans í þeirri trú að farið hafi verið inn á réttar brautir með því að taka upp endurhæfingarþjónustu við þennan sjúklingahóp.

Þá er spurt: ,,Mun ráðherra beita sér fyrir rekstri dagdeildar fyrir krabbameinssjúklinga á sama stað og ef svo er, hvenær má búast við að rekstur slíkrar deildar geti hafist?``

Húsnæði Landspítala í Kópavogi hefur komið að góðum notum sl. ár fyrir framangreinda göngudeildarstarfsemi en hins vegar hefur óvissa um framtíð húsnæðisins leitt af sér aðrar hugmyndir um staðsetningu starfseminnar. Stjórnendur endurhæfingarsviðs telja farsælast að sameina starfsemi á vegum sviðsins eins og kostur er, bæði til hagræðingar og eins til faglegrar styrkingar endurhæfingarstarfs á Landspítala. Þess vegna hefur verið unnið að því að endurhæfing krabbameinssjúkra verði flutt úr Kópavogi á Grensás í nánari tengslum við það endurhæfingarstarf sem þar fer fram. Tengist sú ráðstöfun nauðsynlegum endurbótum á húsnæði Landspítalans á Grensási en útfærslu á þeim hugmyndum er ekki lokið.

Að lokum spyr þingmaðurinn: ,,Mun ráðherra beita sér fyrir því að sálfræðiþjónusta, sjúkraþjálfun og endurhæfing verði ávallt samþætt læknisfræðilegri meðferð og hjúkrun krabbameinssjúklinga?``

Samkvæmt upplýsingum frá LSH er mikilvægt að endurhæfingu þessa hóps sjúklinga sé sinnt með þverfaglegum hætti, og fleira fagfólk þarf að koma til en nú er. Þá er talið nauðsynlegt að bjóða upp á margvíslega þjónustu, svo sem göngudeildarþjónustu, dagdeildarþjónustu og fleiri rekstrarform. Jafnframt er ljóst að renna þarf fleiri stoðum undir starfsemina til að hún geti talist fullburða, bæði með aðkomu fleira fagfólks og meiri breidd í úrræðum, svo sem dagdeildarþjónustu.

Herra forseti. Endurhæfing krabbameinssjúkra hefur notið vaxandi athygli á undanförnum árum og er nauðsynlegt að skipuleggja þann þátt heilbrigðisþjónustunnar sem best þannig að samfella náist í þjónustunni, að hagsmunum sjúklinga sé sem best mætt og fyllstu hagkvæmni verði gætt í rekstri. Mun ég fylgjast vel með þróun þeirra hugmynda er kynntar hafa verið hér að framan og styðja við þennan málaflokk eins og kostur gefst.