Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 12:04:11 (4727)

2003-03-11 12:04:11# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, Frsm. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[12:04]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta samgn. um till. til þál. um samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014. Fyrir þinginu í þessari umræðu liggja fyrir tvær þáltill., annars vegar um samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014 og hins vegar fyrir árin 2003--2006. Þær eru teknar saman í umræðunni. Verkefnin eru í sjálfu sér hin sömu og því er flutt eitt nál. fyrir báðar þessar þáltill. sem taka til þeirra beggja.

Í upphafi er vísað til þáltill. og einnig framsögu hv. formanns samgn. um vinnulag, hverjir hafi komið fyrir samgn. og annað er lýtur að því hvernig samgn. hefur höndlað þetta mál. Eins og kunnugt er er samgönguáætlunin lögð fram með ákveðnum meginlínum en skipting fjár og röðun áherslna í stofn- og þjóðvegakerfinu í einstökum kjördæmum er unnin sameiginlega með þingmönnum viðkomandi kjördæmis og starfsmönnum Vegagerðarinnar.

Virðulegi forseti. Minni hlutinn er fylgjandi þeirri stefnu að samgöngumál séu skipulögð sem samstæð heild í stað þeirrar tilhögunar sem áður var að líta á hvern hinna þriggja þátta samgangna sem afmarkaðar stærðir, skipulagslega og hagrænt. Þarna er átt við að samgöngur, bæði á sjó og í lofti og landi, eru nú skiplagðar sem ein heild í samræmdri samgönguáætlun þótt hver þessara vettvanga fái sinn eigin sess og sérsess í tillögunni. Þá er og fagnaðarefni að auknu fjármagni sé varið til þessa málaflokks á næstu 18 mánuðum eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir í þinginu. Sérstaklega er því fagnað að vegaframkvæmdir á Vestfjörðum og Norðausturlandi skuli fá að njóta þess að vera hraðað verulega umfram það sem áætlanir annars gerðu ráð fyrir. Það ætti að vera forgangsverkefni af hálfu Alþingis og hálfu þjóðarinnar að beita sér fyrir því að góður vegur með bundnu slitlagi komi um allar byggðir landsins. Ég vil hér undirstrika það sjónarmið mitt að vegir í byggð og vegir sem liggja um byggðirnar eigi að njóta forgangs í uppbyggingu og áherslum. Það er jú gott og blessað að berjast fyrir styttingu vega á milli landshluta sem slíkra en að slíku verður þó að fara mjög varlega þannig að hagsmunir byggðarinnar vítt og breitt um landið, kringum landið, bíði ekki tjón af slíkum ótímabærum áherslum. Þarna er ég að vísa til hugmynda sem hafa hér verið reifaðar á Alþingi að leggja mikla áherslu á styttingu vega milli Reykjavíkur og Akureyrar, bara sem einn og afmarkaðan áherslupunkt. Ég legg áherslu á það að vegir um byggðir landsins sem tengja saman byggðir og innan byggðar njóti forgangs í uppbyggingu vegakerfisins áður en lagt verður út í einhverjar aðrar stórframkvæmdir sem menn geta annars haft hug á.

Minni hlutinn tekur undir flestar áherslur og breytingartillögur meiri hlutans sem hér eru fluttar og vísar til nefndarálits meiri hlutans hvað varðar tölur og sundurgreiningu fjármagns á einstök verk og verkþætti. Hins vegar skal það hér tekið fram að frumvinna beggja þáltill. er unnin af meiri hlutanum, af ríkisstjórninni og meiri hluta hennar þannig að meiri hlutinn ber í sjálfu sér ábyrgð á þeirri forgangsröðun í höfuðdráttum sem hér er lögð fram.

Í þingsályktunartillögunum fyrir fjögurra ára og 12 ára samgönguáætlun er fjallað um ,,markmið um hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna``, og að ,,meðal aðgerða til að ná þessu markmiði verði:

a. Leitað leiða til þess að nýta kosti markaðsaflanna við uppbyggingu og rekstur samgöngukerfisins.

b. Rekstur samgangna í lofti, á sjó og á landi, sem ríkið kemur að, boðinn út til að tryggja eðlilegt samkeppnisumhverfi.

c. Stefnt að sanngjarnri og skilvirkri gjaldtöku fyrir afnot af samgöngukerfinu.``

Virðulegi forseti. Ég tek undir það markmið í sjálfu sér að leitað sé fyllstu hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgöngumannvirkja. Allir geta tekið undir það af heilum hug. Hins vegar get ég ekki tekið undir það að leiðin til þess sé að nýta fyrst og fremst kosti markaðsaflanna eða útboða af hálfu ríkisins eða með gjaldtöku á notendur samgöngukerfisins, með vegtollum eða öðru. Í einstaka tilvikum þar sem við getur átt er sjálfsagt að skoða þessa liði og þessar leiðir, alveg sjálfsagt. En að setja þetta upp sem eitthvert meginmarkmið eða eitt af aðalmarkmiðum við að byggja upp og reka samgöngur í landinu --- samgöngur sem eru og eiga að mínu mati vera að eign þjóðarinnar og hluti af þeirri grunnþjónustu sem skapar eitt samfélag, eina þjóð. Þetta á að vera bæði í eign og á ábyrgð þjóðarinnar. Ég vil taka þetta hérna fram enda er hægt að vitna í umsögn Byggðastofnunar um þessi atriði. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Byggðastofnun leggur áherslu á að umrædd gjaldtaka vinni ekki gegn áðurnefndum byggðamarkmiðum,`` --- en Byggðastofnun hefur áður í áliti sínu lagt áherslu á byggðasjónarmiðin varðandi samgöngurnar --- ,,en stuðli að jafnræði óháðu búsetu. Þótt stefnt sé að markaðslausnum er ekki þar með sagt að beinar fjárhagslegar forsendur eigi þar að vera eini mælikvarðinn. Þar getur bæði þurft að taka til greina það sem á hagfræðimáli er nefnt almannahagsmunir (public interest)`` --- ég vek athygli á þessu orði, virðulegi forseti, almannahagsmunir, sem verða aldrei of oft nefndir innan sala hv. Alþingis --- ,,og ómælanlegir hagsmunir (intangibles), en báðir þessir þættir liggja til grundvallar áðurnefndum byggðamarkmiðum og byggjast á góðu og notendavænu samgöngukerfi. Þessa þætti er erfitt að verðleggja eða reikna ávinning af þeim í peningum, og það er einungis á færi hins opinbera að gæta þessara hagsmuna. Mikilvægt er því að huga að þeim við hagkvæmnimat og gjaldtöku samgöngukerfisins.``

Virðulegi forseti. Hér er tekið heils hugar undir þessi varnaðarorð Byggðastofnunar um að leggja verði til grundvallar almannahagsmuni og ýmsa þá þætti sem ekki er hægt að verðleggja en eru engu að síður grundvallaratriði í uppbyggingu í þjónustu samgöngukerfisins.

Grunnnet samgöngukerfisins skal ná til allra byggðakjarna, stendur í tillögunni, með u.þ.b. 100 íbúa eða fleiri og til þeirra staða sem eru mikilvægastir fyrir fiskveiðar, ferðamennsku og flutninga til og frá landinu. Nokkur byggðahverfi eru þó ekki tengd grunnneti samgangna, svo sem flugvellirnir á Gjögri og Vopnafirði en þangað er reglubundið áætlunarflug. Enn fremur má nefna að vegurinn norður Strandir í Árneshrepp, inn í byggðarlagið þar, er ekki hluti af grunnneti þjóðvegakerfis landsins. Það þýðir þó ekki að samgöngur til þessara staða séu ekki samt áfram fastur hluti samgöngukerfisins. Engu að síður lítur maður á skilgreiningu grunnnets samgöngukerfisins. Ég las hér áðan þessa skilgreiningu, þ.e. að það sé net sem tengir saman og nær til byggðakjarna og íbúa, til staða sem eru mikilvægir fyrir fiskveiðar, ferðamennsku og flutninga til og frá landinu og til íbúa þessa lands. Það er mikilvægt að þessir staðir séu tengdir með skipulegum hætti í hinu skilgreinda grunnneti. Það er mitt mat að svo eigi að vera.

[12:15]

Því verður lögð fram brtt. við samgönguáætlunina þar sem lagt er til að auk þeirra flugvalla sem taldir eru upp í grunnneti, sem eru flugvöllurinn í Reykjavík, Bíldudal, Þingeyri, Sauðárkróki, Akureyri, Þórshöfn, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjum, Bakki, Keflavík og Grímsey, verði einnig teknir inn flugvöllurinn á Gjögri og Vopnafirði.

Mikilvægur þáttur, virðulegi forseti, í öllum samgöngum er umferðaröryggismál. Varðandi fjármagn til einstakra framkvæmdaþátta telur minni hlutinn að verja hefði átt hærri hlut til öryggismála, svo sem til breikkunar einbreiðra brúa og til að lagfæra sérstaka slysastaði eða svokallaða svarta bletti í vegakerfinu. Í því sambandi skal bent á að Alþingi hefur samþykkt sérstaka umferðaröryggisáætlun og gert þar ráð fyrir að sérstakur fjárlagaliður verði merktur henni. Þeirri umferðaröryggisáætlun er hvergi gerð skil í fjármögnun samgönguáætlunarinnar. Þetta tel ég vera miður, virðulegi forseti.

Þá skal vakin athygli á því að Íslendingar hafa skuldbundið sig til að fylgja sjálfbærri þróun í samgöngum og hafa gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar í þeim efnum og takmörkun á mengun t.d. frá samgöngum. Að mati minni hlutans skortir mikið á að þeim markmiðum sé fylgt við framkvæmdaáætlun þessarar þáltill. Má þar benda á áherslur sem settar eru í Staðardagskrá 21, þ.e. opinber markmið í umhverfsmálum sem við Íslendingar erum aðilar að, en þar er einmitt kveðið á um forgangsröðun og áherslur í samgöngumálum sem ég hefði viljað sjá fá hærri sess í samgönguáætluninni. Þó eru þar ákveðin atriði sem að sjálfsögðu eru dregin fram.

Ég vil benda fyrst og fremst á þær áherslur að bæta almenningssamgöngur í landinu, bæði í þéttbýli og dreifbýli og einnig vil ég benda á að að mínu mati hefði átt að vera merkt inn bæði fjármagn og hvatning til að bæta umferð fyrir hjólreiðafólk og gangandi fólk en þessa sést hvergi stað í samgönguáætluninni. Það er kyndugt, herra forseti, að við göngum frá samgönguáætlun þar sem ekki er gerð skil eða nefnd umferð gangandi fólks, sem hefur þó verið postularnir tveir svo lengi og verið aðalsamgöngutæki Íslendinga að komast um landið og milli staða. Það er hvergi minnst á hvernig megi tryggja eða bæta samgönguleiðir gangandi fólks og þeirra sem nota reiðhjól. (LB: Þeir eru ekkert umhverfisvænir.) Það má vel vera að þeir séu ekki umhverfisvænir en að mínu mati er þetta einmitt áhersla sem á að koma inn og þeir eru umhverfsvænir eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er reyndar að ýja að, þeir eru einmitt umhverfisvænir, (Gripið fram í.) já, en það er alveg fráleitt að við merkjum ekki þessa þætti inn í umhverfisáætlun með ákveðnum hætti. Ég vil benda á þetta, herra forseti, að hér finnst mér vera mjög veikur hlekkur í samgönguáætluninni og vil draga það fram.

Þá vil ég nefna safn- og tengivegina, svokallaða sveitavegi, en framlög til safn- og tengiveganna svo og styrkvega og ferðamannaleiða njóta ekki þess átaks sem annars er gert í vegamálum. Er það miður því að þörfin fyrir vegabætur á slíkum vegum er afar brýn fyrir atvinnulíf og búsetu um hinar dreifðu byggðir.

Í byggðaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt er einmitt lögð þung áhersla á að samgöngur innan héraðs um hinar dreifðu byggðir séu einna mikilvægastar til þess að styrkja atvinnulíf og búsetu út um sveitir landsins. Þessi vegaflokkur fær ekki það átak sem annars er hér verið að leggja upp í í stórverkum í samgöngumálum en mér hefði fundist að þarna ætti að koma áhersla á.

Hlutur almenningssamgangna í þessum þáltill. frá meiri hluta samgn. er að mínu mati afar rýr. Ekki er gerð grein fyrir hvernig á að ná því markmiði að reglubundnar almenningssamgöngur skuli ná til allra þéttbýlisstaða með 200 íbúa eða fleiri. Í markmiðunum er tekið fram að ferðatími skuli ekki vera meiri en þrjár og hálf klukkustund með bíl eða flugi til höfuðborgarsvæðisins. En það er ekkert kveðið á um tíðni ferða sem hlýtur þó að skipta öllu máli fyrir þjónustustigið. Það skiptir miklu máli hvort við erum þrjá og hálfan tíma með almenningssamgöngum og svo er kannski bara ein ferð í mánuði (Gripið fram í: Góður.) þannig að þarna er nokkur gloppa í til að úr verði heil hugsun. (Gripið fram í: Heldur betur.)

Tekið er undir umsögn Reykjavíkurborgar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Mörkuð er stefna um að ríkið styðji frekar við almenningssamgöngur í þéttbýli en nú er og lagt til að teknar verði upp viðræður ríkis og sveitarfélaga í þessu sambandi. Þessari stefnumörkun er fagnað og er Reykjavíkurborg reiðubúin að hefja þegar viðræður um þessa hluti. Í umfjöllun um almenningssamgöngur er þó ekki fjallað um annað en ferjur og flóabáta, áætlunarflug og sérleyfi á landi. Er löngu tímabært að ríkisvaldið komi myndarlega að uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að stórauka hlut þeirra og ráðstafi jafnframt fjármagni til þeirra í stað þess að beina því nær undantekningarlaust að hefðbundnum gatnagerðarframkvæmdum.``

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að engin stefnumörkun eða framkvæmdaáætlun liggur fyrir í almenningssamgöngum innan einstakra bæjarfélaga og byggðahverfa í landinu. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um réttlæti í úthlutun fjár til einstakra bæjarfélaga og landshluta og verður þar seint við öllu brugðið. Ég vek athygli á athugasemd frá Akureyrarbæ um að ekki sé gert ráð fyrir neinum fjármunum í lagningu eða endurbætur umferðarmannvirkja, þ.e. þjóðvegi og tengd mannvirki, á Akureyri næstu 12 ár. Til samanburðar er gert ráð fyrir í fyrirliggjandi áætlun að 21 milljarður kr. fari til sambærilegra verkefna á höfuðborgarsvæðinu.

Þannig má einnig nefna fleiri landshluta og svæði sem telja sig afskipt, bæði í því sérstaka átaki sem ákveðið var að gera í samgöngumálum á næstu 18 mánuðum og einnig í samgönguáætluninni í heild. Ég tek, virðulegi forseti, undir þau orð sem hv. formaður samgn. hafði hér áðan um að auka þyrfti hlut safn- og tengivega og endurskoða réttarstöðu þeirra í þjóðvegakerfinu því eins og nú er þá er það svo að fari bær úr byggð eða einhver slík búseta breytist geta langir vegarkaflar hrokkið úr tölu þjóðveganna án þess að það sé í raun ætlunin. Ég bendi líka á að vegur að flugvelli er hluti af þjóðvegakerfinu, hinu formlega samgöngukerfi meðan áætlunarflug er á flugvellinum en falli hann niður sem áætlunarflugvöllur þó að hann sé áfram mikilvægur fyrir samgöngur bæði til öryggis og annarra hluta þá fellur sá vegur niður sem hluti þjóðvegakerfis landsins. Þarna eru þættir sem verður að skoða fyrir gerð næstu samgöngu\-áætlunar, endurskoðun hennar, og tek ég undir orð hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar í þeim efnum.

Hvað varðar samgöngur á sjó, virðulegi forseti, þá er þar fyrst um fjármagn til hafnanna að ræða en hvað varðar hlut þeirra í samgönguáætluninni er gert ráð fyrir lækkun á framlagi ríkisins til hafnamála á síðari hluta tímabilsins. Hafnasamband sveitarfélaga bendir á að sú mikla lækkun sem gert er ráð fyrir milli fyrsta fjögurra ára tímabilsins í áætluninni annars vegar og þriðja tímabilsins hins vegar sé órökstudd og muni hafa afar alvarlegar afleiðingar fyrir fjölmargar hafnir og byggðarlög vítt og breitt um landið.

Ég tel þetta mjög alvarlegan hlut, herra forseti. Á þessu máli var ekki tekið í samgn. Ég tel þessa aðvörun frá hafnasambandinu, varðandi fjárveitingar og fjármögnun til hafnanna í umræddri samgönguáætlun, mjög alvarlega og að endurskoða þurfi samgönguáætlunina með tilliti til fjárhagsstöðu hafnanna eins og þarna er rækilega minnt á.

Þá er og vert að geta þess að siglingar meðfram ströndum landsins verða alveg út undan í samgönguáætluninni samanber umsögn Félags skipstjórnarmanna sem fylgir hér með. Þar er bent á að samgöngur á sjó meðfram ströndum landsins eru að leggjast af skipulagslaust eða án þess að það sé í nokkru samræmi við opinbera stefnu í samgöngumálum.

Ég hef lagt fram tillögu á Alþingi um að skipuð yrði sérstök nefnd til þess að gera úttekt á stöðu strandsiglinga og gera tillögur um hver skuli vera framtíð þeirra. Sú tillaga er til umfjöllunar í þinginu í hv. samgn., og hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd, strandsiglinganefnd, er hafi það hlutverk að kanna þróun, stöðu og æskilega framtíðarhlutdeild strandsiglinga í vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Nefndin láti gera úttekt á þjóðhagslegu gildi þess að hér við land séu öflugar strandsiglingar með sérstakri hliðsjón af umhverfis- og byggðaáhrifum, umferðaröryggi og öðru sem máli skiptir.``

[12:30]

Ég tel afar mikilvægt, herra forseti, að gengið verði skipulega í þessa vinnu en að lögmál hendingarinnar eða óskipuleg þróun verði ekki látin ráða því að strandsiglingar leggist af. Í þessari samgönguáætlun og þáltill. um samgöngumál er ekki að finna neitt sem tekur á siglingum meðfram ströndum landsins.

Þá er og vert að geta þess líka, herra forseti, að í þeirri samgönguáætlun sem við fjöllum um, till. til þál. um samgönguáætlun, bæði næstu fjögur árin og 12 árin, er ekkert fjallað um samgöngur til og frá landinu, hvorki í lofti né á legi. Ég leyfi mér að vitna til umsagnar frá Vélstjórafélagi Íslands um samgönguáætlunina sem kemur einmitt inn á þetta, með leyfi forseta:

,,Það sem vekur nokkra furðu við lestur þessara áætlana er að samgöngur að og frá landinu virðast ekki falla innan þess sem hér er gefið nafnið samgönguáætlun allt til ársins 2014. Það er miður vegna þess að ef einhver þáttur samgangnanna er í ólestri og þarf á haldgóðri áætlun að halda, þ.e. ef við eigum að teljast með fullvalda ríkjum í næstu framtíð, þá eru það sjóflutningarnir að og frá landinu en enn sem komið er þá fer megnið af okkar inn- og útflutningi þá leiðina.

Sé litið á nokkrar staðreyndir þessa máls þá voru í nóvember sl. rekin 19 skip á vegum íslenskra útgerða. Þar af voru aðeins 4 undir íslenskum fána. Öll skipin sem voru á þessum tíma í siglingum að og frá landinu sigldu undir erlendum fána mönnuð að stórum hluta útlendingum.

Að mati Vélstjórafélags Íslands er hér um afar hættulega þróun að ræða sem felst í því að ef eyþjóð sem á allt sitt undir samgöngum til og frá landinu hefur ekki burði til þess að sinna þessum þýðingarmikla þætti í samgöngum þjóðarinnar með skipum sem lúta íslenskum lögum og eru mönnuð íslenskum sjómönnum er sjálfstæði þjóðarinnar í hættu.``

Þetta segir í umsögn Vélstjórafélags Íslands og ég tek heils hugar undir það. Samgönguáætlun sem minnist ekki á samgöngur til og frá landinu, til eyþjóðar sem við erum, stendur að litlu undir því merki að heita samgönguáætlun.

Það er því, herra forseti, að mörgu að hyggja þegar kemur að endurskoðun þessarar samgönguáætlunar strax í haust. Þau atriði sem ég hef hér nefnt, afar mikilvæg atriði, standa út af í þeirri samgönguáætlun sem verið er að leggja fram.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum geta þess að að mínu mati gafst afar lítill tími til þess innan samgn. sjálfrar að fjalla um tillögurnar, stefnumörkun þeirra og áherslur, forgangsröðun og fjárveitingar til einstakra þátta samgangnanna. Góðar samgöngur eru forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs og búsetu vítt og breitt um landið.

Minni hlutinn getur stutt í sjálfu sér flest verkefni áætlunarinnar og þær fjárveitingar sem lagðar eru til þeirra en hefði viljað sjá aðrar áherslur í samræmi við það sem rakið hefur verið hér að framan í nál.

Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir áliti minni hluta samgn. Ég vil þó í lokin koma inn á atriði sem hv. formaður samgn. nefndi aðeins um breytt vinnulag við gerð þessarar áætlunar, t.d. varðandi gerð hafnaáætlana. Áður hafði verið unnið mjög náið með hafnasamlögum, hafnarstjórnum og sveitarfélögum vítt og breitt um landið við gerð þeirra áætlana en það samstarf virðist að einhverju leyti hafa rofnað eða fengið á sig annan brag með því að samgönguáætlun í heild var sett undir vel skipaða karlanefnd í Reykjavík. Ég tel að það þurfi að huga aftur að því vinnulagi sem hér er til þess að tryggja að samgönguáætlunin verði unnin í nánu samráði við íbúa landsins allt í kringum landið og einnig þau sjónarmið sem varða almenningssamgöngur, umferðaröryggi og umhverfismál svo nokkuð sé nefnt.

Virðulegi forseti. Ég læt lokið máli mínu.