Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 14:36:58 (4731)

2003-03-11 14:36:58# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[14:36]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína í ræðu hv. þm., hans góðu yfirferð yfir vegakerfið í hinu nýja Norðvesturkjördæmi, að hann vék að Hvalfjarðargöngum og skattlagningu þar. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, og minn flokkur, að ríkið ætti að byggja vegamannvirki eins og göng og þau ætti ekki að skattleggja. En það kemur mér á óvart miðað við málflutning þingmannsins, og ég vil fá nánari skýringu á því, að þingmaðurinn talar um einkafjármögnun víða og ekki bara á göngum, heldur á vegum. Er það hugsun hv. þingmanns að innheimtir verði vegtollar af slíkum mannvirkjum? Og er það stefna Samfylkingarinnar að fara út í einkafjármögnun á vegakerfi landsins? Ég hef verið andvígur því. Það liggur alveg í augum uppi að ríkið fær hagstæðari lán og í mínum huga og míns flokks hefur það ævinlega verið stefnan að við ættum að gera þetta á félagslegum grunni. Það kemur mér líka svolítið á óvart með vegtollana í göngin því ég veit ekki betur en ég hafi lesið það sem stefnu samfylkingarmanna á Norðurlandi eystra að þeir væru hlynntir veggöngum undir Vaðlaheiði sem einkafjármögnun og með tolli.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort stefna Samfylkingarinnar sé að einkafjármagna göng og taka vegtolla og hvort Hvalfjarðargöng séu þá sér á báti hjá þingmanninum, en ekki síður það sem kom fram í ræðunni um einkafjármögnun á vegum sem allir eru sammála um að er miklu dýrari kostur til lengri tíma litið?