Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 14:39:10 (4732)

2003-03-11 14:39:10# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, 6. þm. Norðurl. e., fyrir athugasemdina og fyrirspurnina og ég tek eftir því að hann hefur hlýtt á mál mitt.

Ég hef haldið því fram að allir landsmenn eigi að sitja við sama borð varðandi samgöngur og samgöngumál eins og það getur hljóðað best. En í upphafi vega skulum við muna eftir því hvernig stendur á því að vegurinn undir Hvalfjörð er í eigu Spalar ehf. Það var vegna þess að ríkisstjórnin eða Vegagerðin lagði ekki í undirbúning, rannsóknir og ákvarðanatöku um að gera þessi göng. Þess vegna fékkst leyfi einkaaðila, og það var torsótt, til þess að gera þetta. Og þetta einkahlutafélag átti auðvitað ekki annars kost en að leggja veggjald á til þess að innheimta fyrir kostnaði. Þetta var að sjálfsögðu barn síns tíma. En þegar ég bendi á að unnt sé að lækka kostnaðinn um 34% er það vegna þess að Spölur skuldar ríkinu einn milljarð króna sem hægt væri að fella niður, það gera 20%, plús 14% sem er virðisaukaskatturinn. Þannig væri hægt að lækka þetta gjald.

Ég tel að það komi til greina, hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, að leyfa einkaframkvæmd á vegi eins og um Arnkötludal en til þess að svo verði þarf að fara mjög náið í gegnum það mál. Þá þurfa menn auðvitað að eiga eins og um Hvalfjörðinn möguleika á annarri leið. Um þetta snýst málið að hluta til.