Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 14:45:22 (4735)

2003-03-11 14:45:22# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[14:45]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Fyrst aðeins um þau orðaskipti sem urðu hér áðan um stefnu Samfylkingarinnar og útboð á framkvæmdum, einkafjármögnun og annað slíkt sem og þau orð hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar að menn tækju ekki eitt og eitt verk út fyrir. Það er nákvæmlega umræðuefnið. Menn hafa tekið eitt verk út fyrir. Sá sem var samgrh. á þeim tíma er nú formaður flokksins sem hv. þm. tilheyrir. Og við duttum allir í þann pytt að vilja gera þetta, þetta var eina leiðin til þess að fá að gera þetta verkefni á þeim tíma og auðvitað studdum við það. Það verður að segjast eins og er, en við sitjum uppi með það að fólkið sem þarf að nýta sér þetta samgöngumannvirki þarf að borga miklu meira fyrir það að ferðast en aðrir. Og við hljótum að leita leiða til þess að jafnræði verði með fólki til að nýta samgöngumannvirkin í landinu. Og það eru bara tvær leiðir til þess, önnur leiðin er að aflétta gjöldunum sem eru í gegnum þetta mannvirki og hin leiðin er sú að taka upp gjöld gegnum sambærileg mannvirki annars staðar. Og að mínu viti er sú leið miklu verri. Menn hljóta samt sem áður að þurfa að skoða hana ef þeir finna ekki leið til þess að létta gjöldunum af því að fara í gegnum Hvalfjarðargöngin. Þessu vildi ég koma til skila til hv. þingmanns, hæstv. forseti, vegna þess að þetta mál er mjög mikilvægt fyrir nokkuð stóran hóp fólks á því atvinnusvæði sem nýtir sér þetta vegamannvirki.

Það er auðvitað hægt að fara mörgum orðum um Spöl og það vegamannvirki sem þar er um að ræða. Ég held samt að ég ætli ekki að eyða meiri tíma í það núna. Samfylkingin hefur auðvitað fyrst og fremst þá stefnu í þessum málum að fara sem hagkvæmastar leiðir, leiðir sem öllum koma til góða og að gæta þess að ekki sé verið að gera upp á milli þegnanna í landinu. En okkur hefur sem sagt skotist í því hvað þetta mannvirki varðar sem hér var til umræðu.

En mig langar fyrst að taka undir hinar löngu og miklu hólræður sem hafa verið haldnar hér um fyrirliggjandi samgönguáætlanir. Það er allt gott um áætlanirnar að segja. Það er til fyrirmyndar að reyna að gera sér grein fyrir þörfunum og stefnunni inn í framtíðina, og það er gert hérna. Ég held að það sé gert á faglegan og mjög eðlilegan hátt og hef ekki í sjálfu sér út á heildarstefnuna í þessum þál. sem hér eru lagðar til að setja. Ég hef hins vegar skoðanir á hinum ýmsu smærri atriðum þessara áætlana og þá alveg sérstaklega á því svæði sem ég þekki best til, á Vesturlandi.

Ég ætla ekki að fara mjög nákvæmlega yfir það í þessari ræðu minni. Ég ætla hins vegar að segja það að ég er búinn að fylgjast með hér á Alþingi bærilega vel í nokkurn tíma og alveg frá því að hv. þm. Halldór Blöndal tók við, fyrir margt löngu, sem ráðherra samgöngumála og fram á þennan dag í dag, 12 árum seinna --- sjálfstæðismenn hafa allan þennan tíma haft með þetta ráðuneyti að gera og þeir hafa allan þennan tíma átt aðild að ríkisstjórn, á öllum þessum tíma hafa menn fleygt áætlunum af þessu tagi út í horn þegar þeim hefur dottið það í hug. Núna síðast um daginn var það gert með því að komið er inn með einhver átök í vegamálum og enginn getur auðvitað mótmælt því með neinu móti því allir vilja auðvitað að farið sé í framkvæmdir í vegamálum. Það eru jú framkvæmdir sem skipta gífurlega miklu máli fyrir landsbyggðina og þjóðina alla. En ég voga mér að nefna þetta vegna þess að ríkisstjórnin á ekki að sleppa í gegnum umræðu hér á hv. Alþingi öðruvísi en að farið sé yfir þetta mál. Við stöndum hér frammi fyrir því að vera að fara yfir báðar samgönguáætlanirnar hér, bæði þessa áætlun fyrir árin 2003--2006 og síðan samgönguáætlun 2003--2014. Á sama tíma og þær voru orðnar til og var dreift hér á Alþingi kom ríkisstjórnin enn einu sinni með átak í vegamálum, og það var ekki farið eftir áætlunum. Þá var allt í einu hægt að fara allt öðruvísi að en gert var ráð fyrir í áætlununum. Það var ekki bara verið að bæta peningum í áætlanirnar þannig að hægt væri að flýta þeim í sjálfu sér, eins og þær lágu fyrir. Nei, það komu ný verkefni inn. Og það er ekki í fyrsta skipti. Og það er ekki í annað skipti og það er ekki einu sinni í þriðja skipti. Það er búið að hafa slík átök í vegamálum uppi allan þennan 12 ára tíma, hvað eftir annað, og enginn mótmælir því í sjálfu sér.

Hefði ekki verið eðlilegra að auka bara fjármagn til vegagerðar almennt þannig að hægt væri að standa betur að áætlununum og hafa þá heildarstefnu í huga sem þar er á ferðinni? Nei, það er ekki hægt vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir þurfa að skreyta sig með því að koma með nýja peninga, almannapeninga, inn í þetta. Það þarf að líta út eins og jólagjafir. Og viðbótarpeningarnir í vegamál á þessum vetri eru þannig til komnir þó að öllum sé ljóst að ef ákveðið hefði verið að setja þessa fjármuni í vegagerð og önnur verkefni sem gert er ráð fyrir núna að setja þá í, ef þessir peningar hefðu verið til reiðu hér og verið fjallað um þá með fjárlögunum í vetur, hefði verið hægt að gera miklu meira fyrir þessa peninga af því tagi sem hefði skapað meiri atvinnu, það hefði verið hægt að vanda sig miklu meira hvað varðar þau verkefni sem um var að ræða. Ég læt mér ekki detta í hug eitt augnablik að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki fyrir löngu verið búnir að láta sér detta í hug að bæta þessum peningum inn. Þeir vildu bara koma með þá sem sérstakt átak til þess að geta skreytt sig með jólagjöfinni, að þeir kæmu með nýja peninga inn í þetta, bjarga atvinnulífinu og auka peninga til vegamála. Pólitísk markmið eru því tekin fram fyrir þá möguleika sem hægt er að skapa með þeim fjármunum sem búið var að ákveða að setja í þetta. Þetta vil ég gagnrýna og þetta hafa menn stundað öll þessi 12 ár, hvert átakið í vegamálum eftir annað. Í staðinn fyrir að taka með almennum hætti á því að auka fjármuni til vegagerðar hafa menn stundað þennan loddaraleik og í hvert einasta skipti hafa einhver hjartans mál ríkisstjórnarinnar, samgrh. eða annarra ráðherra úr ríkisstjórninni, allt í einu dúkkað upp sem voru ekki á áætlunum. Þau voru ekki á samgönguáætlunum en skjóta upp kollinum þegar menn gera enn eitt nýtt átakið í samgöngumálum.

Ég vil gagnrýna þetta og þori alveg að gera það. Svona á ekki að standa að málum. Ég tel að það sé líka alveg augljóst að með þessum hætti nýta menn fjármunina ekki eins vel og skyldi fyrir utan að verið er að senda því fólki langt nef sem hefur lagt ýmislegt á sig, t.d. hefur á Vesturlandi í mörg ár verið til nokkuð sem heitir samgöngunefnd Vesturlands, og þótt menn þar hafi barið sig saman um eina stefnu og eina tillögu um í hvaða röð þeir vildu hafa framkvæmdir á Vesturlandi hefur nefndin mátt láta sig hafa það að brosa og þakka fyrir þegar hæstv. samgrh. hefur dottið í hug að kippa einhverri framkvæmd fram fyrir. Þannig er nú það og mér finnst það ekki til fyrirmyndar. En í hvert einasta skipti eru menn múlbundnir vegna þess að enginn getur verið á móti framkvæmdunum, allar eru þær góðs maklegar. Í því skjóli skákar ríkisstjórnin og kemur sífellt með ný og ný átök í vegamálum.

Nú læt ég þessum lestri lokið en ætla að nefna sitthvað sem er í áætlununum. Ég tel að það vanti núna, og vil nefna það til umhugsunar, að það þurfi í raun og veru að fara yfir reglur um framlög til vega almennt í landinu. Ég held að það sé ýmislegt sem menn þurfi að endurskoða hvað þetta varðar. Þær reglur að vegir skuli hafa tiltekna áherslu vegna þess að búið er á tveimur bæjum í einhverjum dal ræður úrslitum um það hvort látnir séu peningar í veginn eða ekki. Það ræður ekki úrslitum hve margir þurfa að nýta veginn. Miklar sumarbústaðabyggðir hafa risið á nokkuð mörgum stöðum, mjög þéttar sumarbústaðabyggðir hafa risið á suðvestur- og Suðurlandi og reyndar víðar og á þessum stöðum vantar sárlega betri vegi. En menn hafa ekki enn þá tekið ákvörðun um að breyta áherslum á þessa vegi með það í huga að koma til móts við þessar þarfir, sem eru þó sannanlegar því að á þessum stöðum býr fólk langtímum saman og ferðast mjög oft og mikið til þeirra.

Þetta er eitt sem þarf að fara yfir og skoða, og reyndar ýmislegt annað í áherslunum, en allt er þetta samt smálegt. Í heildina er ég ekki óánægður með hvernig málin birtast í þessum áætlunum.

Mig langar að tala svolítið um markmiðin um umhverfislega sjálfbærar samgöngur og taka undir það sem þar er sagt. Þar eru háleit markmið höfð í huga og ég fagna því að í markmiðssetningunni sjái maður m.a. að hæstv. ríkisstjórn stefnir að því að stuðla að nýtingu umhverfisvænna orkugjafa og að staðið verði fast við það markmið að 20% af bifreiða- og fiskiskipaflota landsmanna noti vetni árið 2020 í stað jarðefnaeldsneytis. Þarna er fiskiskipaflotinn nefndur, og vissulega er magnað markmið að ætla að fara með hann yfir í vetni, en ég hef áður hér á Alþingi og oftar en einu sinni nefnt það að fyrr hefðu menn mátt taka á gagnvart fiskiskipaflotanum. Það hefur sárlega vantað markmið hvað varðar nýtingu auðlindarinnar í hafinu þar sem eitthvað væri horft til þess, bæði hvað varðar mengun, umgang um fiskimiðin og hafsbotninn og aðra slíka hætti sem á auðvitað að hafa í huga þegar verið er að nýta þá auðlind alla. Þegar það er líka haft í huga að fiskiskipaflotinn var uppspretta að u.þ.b. þriðjungi allrar mengunar sem við höfðum hér fyrir stuttu síðan kárnar enn gamanið. Að vísu mun stóriðjan bráðlega taka þar forustuna, og það allmyndarlega á næstunni miðað við uppbyggingaráformin sem fram undan eru.

Hér er líka nefnd skattlagning eignarhalds og notkunar bíla með þeim hætti að léttari bílar og bílar sem nota olíu sem eldsneyti verði fýsilegri kostur en nú er. Því fagna ég sérstaklega. Þarna hafa stjórnvöld verið á rangri leið mjög lengi og ekki lyft hendi til þess að hvetja menn hér á landi til þess að nýta frekar dísilbíla og minnka þannig eldsneytisnotkun í landinu, ekki lyft hendi til þess. Til þess væri full ástæða því það er verulega mikill eldsneytissparnaður sem þannig næst en það hefur ekki verið fýsilegt fyrir almenna bifreiðakaupendur, notendur, í landinu að kaupa þessa bíla. Ég flutti þáltill. í fyrra og aftur í vetur þar sem einmitt var hvatt til þess að breyta sköttum með það í huga að gera fýsilegra að kaupa dísilbíla en líka bíla sem eru fjórhjóladrifnir. Þar hafði ég fyrst og fremst í huga vegslitið, mengun frá því og að minnka þann kostnað sem verður vegna vegslits, en líka öryggisatriðið. Það er ekkert vafamál að bifreiðar með fjórhjóladrifi eru miklu öruggari í akstri á Íslandi en bílar sem hafa ekki fjórhjóladrif. Ég tel að það hefði fyrir löngu átt að koma til móts við bifreiðaeigendur hvað það varðar í tollum að það væri a.m.k. lágmark að ekki væri verið að tolla hærra þá bíla sem þannig eru útbúnir vegna þess hærra verðs sem er á þeim. Reyndar finnst mér að ganga ætti jafnvel lengra en það að fella niður tolla af virðisauka bílsins vegna þessa búnaðar.

Ég er sannfærður um að t.d. þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu og í þéttbýli almennt eru betur settir á fjórhjóladrifsbílum á góðum vetrardekkjum án nagla en á eindrifsbílum þótt þeir séu með neglt á öllum hjólum. Með því væri verið að spara verulega vegslit og þar af leiðandi framlög til vegagerðar og minnka mengun í leiðinni, en jafnframt væri öryggið ekki minna. Þvert á móti held ég því fram að það yrði meira. Ég vona sannarlega að þessi markmið skili sér. Það er engin ástæða til þess að draga í efa að hér fylgi hugur máli og að fylgt verði eftir því sem er í þessari áætlun hvað þessi atriði varðar. Ég vil taka það fram að ég ber þá von í brjósti að í framtíðinni hugsi menn til lengri tíma hvað varðar vegamálin og áætlanirnar og láti þær standa, menn hlaupi ekki til með ný og ný átök í vegamálum heldur séu með þannig áætlanir inn í framtíðina að þær séu í samræmi við viljann, en ekki sé sífellt komið inn með einhverjar breytingar sem valda því að ráðherrar á hverjum tíma fái tækifæri til að þjóna lund sinni hvað varðar verkefnin eins og við höfum séð.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan var það ekki hugmynd mín að fara yfir einstök verkefni.

(Forseti (GÁS): Forseti vill inna hv. þm. eftir því hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni því hugmyndin er að ganga nú til atkvæðagreiðslu um afbrigði.)

Hæstv. forseti. Ég held að það sé bara ágætishugmynd hjá hæstv. forseta að ég ljúki hér ræðu minni.

(Forseti (GÁS): Hefur hv. þm. þá lokið ræðu sinni? Það var ekki hugmynd forseta að reka hann úr ræðustól.)