Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 16:17:04 (4744)

2003-03-11 16:17:04# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[16:17]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. Það var ekki ætlan mín að brjóta þá óskráðu reglu við umræður af þessum toga að ráðherra og formaður nefndar ljúki umræðu, heldur var ég bundinn við önnur störf á fundinum og komst því ekki að fyrr en nú. En ég vildi ekki láta hjá líða að fara nokkrum orðum um nokkur lykilatriði, meginatriði, sem að minni hyggju er nauðsynlegt að halda til haga. Nokkur þeirra nefndi ég raunar við 1. umr. máls en sitthvað hefur breyst frá því að við ræddum áætlunina eins og hún var lögð fram af hálfu hæstv. ráðherra. Hér við 2. umr. hefur hún því tekið allnokkrum breytingum, óvanalega miklum breytingum, herra forseti, vissulega að breyttu breytanda því að inn duttu nýir peningar, ef svo mætti segja, öllum að óvörum, af himnum ofan, dregnir upp úr hatti, peningar sem engir borga raunverulega, peningar sem fundust á víðavangi, mætti ætla. En allt að einu, þeir eru hér til staðar og þeim er hér ráðstafað. Á næstu dögum munu þingmenn væntanlega finna þeim tekjum stað sem upp á vantar hér innan fjárlagaársins í fjáraukalögum.

Það er vissulega ánægjulegt ,,vandamál`` fyrir vegagerðarmenn að þurfa að bregðast hratt og ákveðið við þegar nýjum peningum er hellt inn í þennan mikilvæga málaflokk sem samgöngumálin eru. Það voru hins vegar óneitanlega fyrstu viðbrögð yfirstjórnar Vegagerðarinnar að henni brá í brún þegar oddvitar ríkisstjórnarinnar mættu til leiks, raunar án fagráðherra sinna, hæstv. samgrh. og hæstv. menntmrn., sem áttu þarna aðild að málum --- þau atriði sem þar voru tilgreind heyrðu jú undir þá fagráðherra --- og tilkynntu þingi og þjóð að til þess að bregðast við atvinnuástandinu hefði verið tekin ákvörðun um að verja 6,5 milljörðum eða þar um bil til verkefna sem áttu að verða vítamín fyrir atvinnulífið og fjölga störfum. Menn hafa svo sem ekki getað fundið því almennilega stað enn þá þrátt fyrir allítarlega umræðu um hversu mörg störf verða til af þessum sökum á næstu mánuðum. Auðvitað er yfirlýstur tilgangur sá að brúa tiltekið bil, brúa ákveðna lægð sem hefur orðið í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar sem hefur gert það að verkum að við horfum fram á alvarlegt atvinnuleysi. Ég segi tímabundna lægð því að menn reikna með, og vonandi mun það ganga eftir, að þegar stóriðju- og orkuframkvæmdir hefjast muni atvinnulífið og efnahagsástandið taka við sér á nýjan leik. Þá þurfa menn að bregðast við annars konar vandamálum, þensluáhrifum fremur en hinu að spýta þurfi í. Mér finnst ástæða til að halda því til haga þannig að við missum ekki þennan þráð. Mig langaði til þess að hæstv. ráðherra reyndi nú, þegar allt er komið til skila í samgönguáætluninni, að gera sér grein fyrir því og okkur hér hversu mörg störf verða til á næstu tveimur missirum vegna þeirrar innspýtingar sem hér er að finna. Ég beini þráðbeint til hans þeirri fyrirspurn hversu mörg störf að hans mati verði til fyrir atvinnulausa Íslendinga með þeim flýtingum og því nýja fjármagni sem er að finna í áætluninni, og fyrst og síðast er að finna á yfirstandandi ári og því næsta. Um það var rætt að þessum fjármunum yrði varið, ég vil nota það orð langtum fremur heldur en þeim yrði eytt, á næstu 18 mánuðum og ættu að koma með beinum hætti til þess að örva hér atvinnulífið.

Margir bentu raunar á að hvað sem öðru liði væru til ýmsar leiðir aðrar til þess að bregðast við atvinnuleysi í núinu. Ef skaffa ætti fólki ný störf til skemmri eða lengri tíma væru kannski aðrar leiðir ekki óskynsamlegri en vegagerð. Hinu eru menn algerlega sammála að vegagerð og samgöngubætur hér á landi eru mál sem skila bættum lífsgæðum og eru arðsamar, oftast til skemmri tíma litið, eiginlega alltaf til lengri tíma litið. Um það er ekki deilt í þessum sal eða meðal þjóðarinnar allrar að bættar samgöngur eru mál málanna og ég minnist þess ekki á mínum tíma á þingi að menn hafi svo sem haft ólík viðhorf til þessa grundvallaratriðis.

Hitt liggur þó fyrir að menn hafa gjarnan tekist á um það hvernig bæri að forgangsraða og þannig auðvitað er það og þannig á það að vera í rökræðum á hinu háa Alþingi. Það þekki ég líka mætavel eftir að hafa verið ríkisstjórnarmegin, lengst af þó stjórnarandstöðumegin, að þessar línur eru fyrst og síðast lagðar af stjórnarmeirihlutanum hverju sinni. Við þekkjum auðvitað verklagið í þessum efnum. Samgöngu\-áætlunin kemur tiltölulega fullmótuð, að langstærstum hluta til, frá viðkomandi ráðuneyti, í þessu tilfelli samgrn. Síðan eiga þingnefndir, samgn. og einstakir þingmannahópar, kost á því að fara yfir málið og gera, stundum, nokkrar breytingar en í fæstum tilfellum neinar umtalsverðar breytingar á ríkjandi meginstefnumiðum sem finna má í áætluninni. Ég held að í þessari áætlun sé það með þeim sama hætti og verið hefur þó að óvenjumikið komi þingmenn að þessum málum vegna þeirra 9 milljarða sem ég nefndi í upphafi.

Þess vegna er þessi áætlun auðvitað á ábyrgð ríkisstjórnarmeirihlutans og hann á að njóta þess og einnig gjalda þess þegar til kastanna kemur. Vissulega verður ekki horft fram hjá þeim sannindum í þessari umræðu að þessi áætlun, og þá ekki síst síðasti hluti hennar, hinir 9 milljarðar, ber þess merki og lyktar auðvitað af því langar leiðir að hér er um kosningaloforð að ræða. Eftir 60 daga detta inn kosningar. Það eru raunar 59 dagar í kosningar, herra forseti, hafi það farið fram hjá einhverjum. Og hér erum við að afgreiða áform og loforð sem er sýnilegt að ný ríkisstjórn muni þurfa að efna, hvernig svo sem sú ríkisstjórn verður saman sett. Það ákveða kjósendur í þessu landi og það er ekki síst framkvæmdin sem skiptir máli í þessu. Ég hef stundum rakið það við sambærilegar umræður hér við áætlunargerð, hvort sem það er um hafnamálin, flugmálin eða vegamálin sem eru hvað stærst í sniðum, að verst er þegar hér eru gefin fyrirheit í áætlunum og þær ganga ekki eftir þegar til kastanna kemur. Í allt of mörgum tilfellum hafa menn ekki getað staðið við hin stóru orð, menn hafa ekki getað farið eftir þeim áætlunum sem þeir sjálfir samþykkja og það er afleitt, það er algerlega afleitt.

Það eru margar ástæður fyrir því af hverju það gerist. Stundum eru menn einfaldlega að lofa upp í ermina á sér og geta ekki fundið fé til framkvæmdanna. Stundum kemur það fyrir af einhverjum ástæðum að þrýstingur verður um tiltekin stórverkefni og viðkomandi ríkisstjórn og meiri hluti lætur undan og breytir áherslum. Það þekkjum við frá gamalli tíð sömuleiðis en engu að síður eru áætlanir verri en ekki ef ekki er eftir þeim farið í hvívetna. Auðvitað verða menn að taka mið af gjörbreyttum aðstæðum og vera sveigjanlegir og líta til hagkvæmni hlutanna o.s.frv. Það getur verið að tiltekin verkefni þurfi að færa milli ára ef það telst skynsamlegt að taka áhlaupið í einni lotu en ekki tveimur þannig að það er ýmislegt þannig sem hægt er að skýra. Í allt of mörgum tilfellum hafa menn samt einfaldlega ekki staðið við það sem sagt hefur verið. Þess vegna er það fagnaðarefni að menn skuli í seinni tíð hafa tekið það upp að skila skýrslu um framkvæmd vegáætlunar. Það er til fyrirmyndar og ég vænti þess að menn þrói það og bæti þegar tímar líða fram, skoði jafnvel mál í stærra tímasamhengi en nú er gert, kannski ekki eingöngu innan ársins heldur líka nokkur ár aftur í tímann þannig að menn sjá samhengi hlutanna og þróun þeirra í dálítið stærra mæli.

Það þekkja auðvitað þingmenn allir að það er stundum dálítið erfitt að lesa í þessar áætlanir þegar það liggur fyrir að á einum staðnum safnast upp fé en menn keyra yfir á öðrum stað. Það kemur stundum fyrir að í svona samhangandi framkvæmdum, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, er nokkur kúnst að lesa í það hvaða fjármunir eru til staðar í raun og sannleika. Þannig er það t.d. í minni heimabyggð þar sem menn hafa ekki ráðist í framkvæmdir sem voru fyrirhugaðar vegna þess að það tók tíma að fara í gegnum lögformlegt umhverfismat og allan þann undirbúning sem nauðsynlegur er. Að lyktum mátu menn það svo að það væri rétt að fara aðrar leiðir en fyrst í stað var reiknað með þannig að þar að baki voru eðlilegar aðstæður.

Þetta nefni ég almennt, herra forseti, vegna þess að ég held að við verðum að hafa í huga alla þá þætti sem menn þurfa að halda til haga í umræðunni. Hún er ekki mjög einföld. Það er eitt sem ég tel líka mjög brýnt að menn horfist alvarlegar í augu við heldur en verið hefur --- þessi áætlun er enn þá því marki brennd að enn eru menn í bútasaumi, enn þá eru menn að reyna að gera alla ánægða alls staðar og ljúka ekki áföngum sem koma þannig að gagni. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, raunar nýkjörinn formaður Frjálslynda flokksins --- ég vil nota tækifærið og óska honum til hamingju með formannstitilinn og óska honum alls velfarnaðar í þeim störfum af því að hann situr hér og hlýðir á mál mitt, einn af fáum þingmönnum --- hann nefndi þetta varðandi ýmsar framkvæmdir á sínum heimaslóðum, á Vestfjarðakjálkanum.

[16:30]

Ég hef ítrekað fjallað um, og einnig fyrir þessa umræðu, tvöföldun Reykjanesbrautar. Þegar tekin var ákvörðun um að hefja framkvæmdirnar átti um leið að taka ákvörðun um að ljúka þeim á skömmum tíma. Svo varð ekki. Í langtímaáætlun sem liggur fyrir er gert ráð fyrir því að þessari tvöföldun ljúki ekki fyrr en árið 2014. Raunar er ekki tryggt að það geti gengið eftir miðað við þá fjármuni sem frá eru teknir til þeirra 11--12 ára sem eftir lifa þar til langtímaáætlunin rennur út.

Það er auðvitað engin hemja, herra forseti, að menn ætli sér 12 ár í slíka framkvæmd, ekki síst þegar liðsmenn stjórnarinnar í Reykjaneskjördæmi og víðar, ekki síst suður með sjó, hafa talið fólki trú um að þessu sé alveg að ljúka. Þeir segja að nú sé framkvæmdin hafin og bara spurning um að menn líti á klukkuna, eitt, tvö, þrjú ár í mesta lagi þar til þessu verði lokið. Tæknilega væri hægt að ljúka þessari framkvæmd á tveimur til þremur árum en það er ekki gert. Þess í stað fara menn þá leið að dreifa framkvæmdinni yfir langan tíma. Við þekkjum það auðvitað, af því að hér er um að ræða öryggismál í umferðinni, að það skapar mikla erfiðleika, óöryggi og jafnvel áhættu þegar menn gera lagfæringar, þegar skiptist á bundið slitlag og malarvegur. Nákvæmlega það mun gerast á Reykjanesbrautinni á næstu árum að menn verða þar að tvöfalda, síðan verður einföldun, þá tvöföldun og framkvæmdir munu standa þar árum saman.

Þetta er ekki gott. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir þessu á eftir þar sem hann hefur vikið sér í hliðarsal. Ég mun inna hann eftir því á eftir en ætla í staðinn að fara yfir nokkuð sem oft kemur til umræðu í þessum sal, þ.e. þéttbýlisvegabætur annars vegar og dreifbýlisvegabætur hins vegar. Nú bregður svo við að hæstv. ráðherra er aftur kominn í salinn og vil ég spyrja hann þráðbeint hvort honum finnist mjög skynsamleg stefnumörkun að fara svona í verk eins og ég lýsti hér áðan varðandi Reykjanesbraut. Það liggur fyrir að það er vilji til að ráðast í þessa framkvæmd. Framkvæmdir eru hafnar við fyrsta áfanga. Er skynsamlegt að hans mati, út frá hagkvæmnissjónarmiði og öðrum að dreifa þeirri framkvæmd á næstu 12 ár? Ég spyr einnig hvað hafi ráðið ákvörðuninni um að gera þetta með þessum hætti. Ég vænti þess að hann geti svarað mér því.

En af því að menn í þessum sal hafa gjarnan rætt um togstreitu þéttbýlis og dreifbýlis þá hef ég ævinlega nálgast þetta mál með þeim hætti að við ættum að forðast slíka togstreitu. Samgöngubætur eru vissulega jafngóðar í þéttbýli og dreifbýli þó að menn nálgist þessi viðfangsefni með eðlisólíkum aðferðum. Annars vegar erum við, eins og hér hefur margsinnis komið fram, að tala um að greiða fyrir umferð, bæta umferðaröryggi í þéttbýlinu fyrst og síðast. Í dreifbýli erum við að tala um það að menn komist öruggir leiðar sinnar. Ég vil því frábiðja mér að vera dreginn í þá dilka sem menn gjarnan gera þegar þeir staldra við heimabyggð sína, eðli máls samkvæmt. Þar þekkja þeir best til og af því að ég kem úr kjördæmi sem er allt kringum höfuðborgina og teygir sig suður með sjó þá ætla ég aðeins að staldra við þau mál.

Mér fannst til að mynda ekki sérstaklega stórmannlegt, þegar ákveðnir hv. þm. Reykjavíkur leyfðu sér að benda á að þeirra hlutur í hinum 9 milljörðum væri afskaplega rýr, að hæstv. ráðherra skyldi bregðast við með því að fara enn og aftur í ódulbúnar og dulbúnar árásir á Reykjavíkurborg og R-listann. Það er auðvitað ekki rétta leiðin til að hefja hér málefnalegar umræður um forgangsröðun verkefna í vegagerð. En einatt þegar þau mál ber á góma og Reykjavík er nefnd til sögunnar er eins og rauðri dulu sé veifað framan í hæstv. ráðherra og raunar hv. þingmenn Reykjavíkurborgar úr röðum Sjálfstfl. Það er eins og þeir missi hreinlega áttir og leggist í víking gegn meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur sem á ekki sæti hér eins og kunnugt er, herra forseti, og hefur öðrum hnöppum að hneppa.

Auðvitað er ljóst að þörf er á að ráðast í fjölmörg verkefni í Reykjavík. Það hefði verið óeðlilegt ef þingmenn borgarinnar hefðu ekki farið fram með þeim hætti að óska eftir auknu fjármagni til borgarinnar þegar það liggur fyrir í fyrsta lagi að verkefni bíða. Í öðru lagi er atvinnuleysi hvað mest hér, a.m.k. þegar þessir 9 milljarðar koma til skiptanna til að bregðast við því ástandi. Nei, þess í stað eru þingmennirnir skammaðir, í fyrsta lagi fyrir að vera andstæðingar landsbyggðar og í öðru lagi, flokkssystkin mín í Reykjavík, að ganga erinda R-listans. Svona eigum við auðvitað ekki að nálgast þessi viðfangsefni. Mér fannst ástæða til þess undir lok þessarar umræðu að lýsa viðhorfum mínum til orðræðu umliðinna daga og vikna frá því að tíðindin um milljarðana 9 af himnum ofan urðu lýðum ljós.

Í þéttbýlinu eru viðfangsefni og vandamál sem eru óleyst og þarf að ráða bót á. Þau eiga mörg hver ekki heima á borði hæstv. samgrh. fremur en á borði hæstv. umhvrh. Þá er ég að tala um hljóðvist, hljóðmanir, hljóðvarnir meðfram stofnbrautum hér á höfuðborgarsvæðinu. Nú er stefnan sú af hálfu ráðherra og Vegagerðarinnar að viðkomandi sveitarfélög greiði þær að fullu. Það er alveg ljóst að af hálfu íbúa verður í auknum mæli krafist að vel sé búið að þeim málum og íbúar séu á heimilum sínum í skjóli frá hávaðamengun af bifreiðaumferð. Vegirnir eru breikkaðir en húsin eru kyrr á sínum stað í flestum tilfellum. Ég hef svo sem ekki gert mér grein fyrir því um hversu háar upphæðir er hér að tefla og hvort hægt sé að slá einhverri tölu á það. til hvaða ráðstafana er þörf að grípa á vegum sem þegar eru til staðar sem verið er að stækka og endurbæta og kalla á nýjar fjárfestingar í hljóðmönum og hljóðvörnum af ýmsum toga. Mér er skapi næst að halda að þær séu allháar þegar saman er dregið.

Í Garðabæ hafa bæjaryfirvöld gengið býsna hart fram og a.m.k. krafið okkur þingmenn svara um hvernig þeim málum verði háttað í kringum Reykjanesbrautina, þ.e. innan bæjarmarka Garðabæjar frá Arnarnesi og suður um. Þau mál eru enn óútkljáð og valda óneitanlega ákveðnum erfiðleikum. Svipuð vandamál eru uppi í mínum heimabæ, Hafnarfirði. Það er auðvitað mikilvægt að menn fái botn í þetta og átti sig á því hver á að borga brúsann. Það er ekki alltaf mjög þægilegt að finna hinn meinta sökudólg í þessum efnum. Það þarf ekki endilega að vera bæjarfélagið. Það hefur gengið frá skipulagi fyrir löngu og síðan eru það almannahagsmunir, Vegagerðin, og oftast auðvitað og eðlilega í samráði við bæjaryfirvöld hverju sinni, sem óska eftir því að gerðar séu betrumbætur á stofnvegum, þeir séu breikkaðir og bættir. Umferð þyngist, hávaði eykst og þörfin fyrir hljóðmön hefur skapast. Það er ekki endilega gefið að sá sem á að borga brúsann sé auðfinnanlegur. Mér finnst því ekkert gefið að heimamenn standi skil á þessum kostnaði 100%. Það hefur verið meginskoðun Vegagerðarinnar og hæstv. ráðherra fram að þessu. Þetta eru auðvitað mál sem við þurfum að leiða til lykta fyrr en síðar.

Í þessum ræðustól hafa menn einnig talað um þjóðvegi í þéttbýli. Hv. þm. Norðlendinga, Árni Steinar Jóhannsson, hefur staldrað við þetta og hefur einkum og sér í lagi nefnt Akureyrarbæ til sögunnar. Ég þekki það auðvitað býsna vel frá árum áður að sveitarstjórnarmönnum í ýmsum sveitarfélögum hafa fundist þær ákvarðanir dálítið með höppum og glöppum hvaða vegir eru skilgreindir sem þjóðvegir í þéttbýli og hverjir ekki. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar er að vísu notast við almenn viðmið. Það skiptir hins vegar miklu máli um hina fjárhagslegu hlið hver borgar brúsann, hvort það er viðkomandi sveitarfélag að öllu leyti eða hvort ríkissjóður komi þar inn með einum eða öðrum hætti. Ég minnist þess frá árum mínum í Hafnarfirði að maður þurfti a.m.k. að vera á vaktinni til þess að tryggja að stofnbrautir, gegnumstreymisbrautir í gegnum bæinn, væru skilgreindar með þeim hætti.

Herra forseti. Við erum hér að horfa til lengri framtíðar. Ég sakna þess mjög í þessari áætlun sem ég hef fært í tal oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, þ.e. hins svokallaða ofanbyggðarvegar sem lægi ofan byggðar í Hafnarfirði og norður um, ofanvert við Garðabæ og raunar alla leið að Elliðavatni en tengist síðan aftur niður í byggðirnar á viðeigandi stöðum. Ég met það svo að það sé ekki mjög langt í að brýn þörf verði fyrir þennan veg. Við þekkjum það frá stórborgum víða erlendis að gjarnan kvíslast þjóðvegir um þessar stórborgir, innan borgar og utan. Ég sé það fyrir mér að innan skamms þurfum við að gefa kost á slíkri umferð ofan byggðar, ekki ævinlega í gegnum byggð.

Það eru ekki mjög mörg ár síðan, það var sennilega rétt í kringum árið 1990, að menn réðust fyrir alvöru í að gera Reykjanesbrautina frá Mjódd og suður úr í Kaplakrika að raunverulegum akfærum vegi. Mörgum fannst það bratt í ráðist, töldu að engin umferð færi á þann veg og Hafnarfjarðarvegur hinn gamli mundi halda áfram að taka þá umferð milli höfuðborgarinnar og bæjarfélaganna sunnan hennar. En það liðu ekki mörg ár þar til sá vegur var gjörsamlega sprunginn eins og raun ber vitni. Nákvæmlega það sama mun að minni hyggju gerast innan ekki allt of margra ára, að menn munu gera kröfu um að umferðin verði færð upp fyrir byggðina. Þegar eru uppi hugmyndir í Hafnarfirði, og hafa raunar verið um alllangan tíma, að þessari stórauknu umferð, sem gerir ekki annað en að aukast, verði mætt með því að gera ofanbyggðarveg. Ofan Hafnarfjarðar kæmi til greina að hann færi um göng þar sem hæst fer. Það er þó ekki frágangssök en mundi auðvitað gera veginn betur úr garði og tryggari yfirferðar.

Á þetta er ekki minnst í þessari áætlun. Það er auðvitað slæmt. Ég veit hins vegar að Vegagerðin og bæjaryfirvöld í Hafnarfirði gerðu athugun á þessu árið 1990. Þá var ég bæjarstjóri þar og mér er kunnugt um að menn eru að skoða tæknilegar úrlausnir á þessu enn þann dag í dag og hafa tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið á þeim tíma.

Þetta vildi ég nefna til sögunnar. Eins og ég segi verður það væntanlega verkefni nýrrar ríkisstjórnar að fylgja þessari áætlun eftir. Eðli málsins samkvæmt tökum við þessa áætlun til endurskoðunar eins og lög gera ráð fyrir eftir nokkur ár. Auðvitað mun gefast ráðrúm til að gera þær lagfæringar og endurbætur á þessari áætlun sem mér sýnist full þörf á þó hér sé auðvitað margt gott að finna.

Á hinn bóginn árétta ég að okkur er dálítið þröngur stakkur skorinn í þessu. Ég lít svo á að við séum, hver svo sem stjórnar hverju sinni, talsvert bundin þeim megináformum sem í þessu finnast. Við megum ekki skrökva að fólki, eins og allt of oft hefur gerst. Það er oft ýjað að framkvæmdum sem síðan ganga ekki eftir. Ný ríkisstjórn verður í meginatriðum bundin af því sem við erum hér að ákveða þó að núverandi minni hluti hafi því miður allt of lítið komið að þessum ákvörðunum. Við getum þó auðvitað lagt gott til þar möguleikar gefast.

Herra forseti. Ég hef rætt almennt um viðhorf mín til ýmissa hliða þessarar umræðu. Ég hef svo sem hvorki minnst á hafnarmál né flugmál, sem vissulega væri ástæða til þó ekki væri nema til annars af því að hér situr formaður samgn., hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson. Við höfum átt orðastað um þau mál fyrr á árum. Oft höfum við verið sammála en stundum tekist á. En þau mál eru veigamikil í þessu samhengi þótt raunar sé óhjákvæmilegt annað en að lýsa yfir áhyggjum sínum með framtíð hafnanna, ekki vegna þessarar áætlunar heldur vegna annarra ákvarðana sem hér hafa þegar verið teknar og varðar gjaldskrá þeirra. Ég ætla að vona hið besta hvað það varðar en vera viðbúinn hinu versta. Ég sé fyrir mér að vinir mínir víða um land sem stýra og stjórna hafnamálum geti átt í miklum erfiðleikum vegna þessa.

Ég ætla að skamma hér hæstv. ráðherra. Hann á alveg fyrir því enda stóð hann fyrir þessum breytingum á gjaldskrám hafna. Ég ætla ekki að skamma hann vegna þessarar áætlunar í því samhengi en það er engu að síður áhyggjuefni og gæti gert mörgum höfnum víða um land mjög erfitt fyrir, hugsanlega innan skamms tíma. En það kemur nú á daginn hvernig þau mál þróast.

Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti, og hef fengið í hendur miða þess efnis að ég hafi verið heldur fljótur á mér þegar ég hélt því fram að 59 dagar væru til kosninga. Forseti, sem ég trúi auðvitað í einu og öllu, segir mér að 61 dagur sé til kosninga. Ég tek ofan hattinn fyrir forseta í því sambandi.