Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 17:23:50 (4753)

2003-03-11 17:23:50# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[17:23]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan þá finnst mér ákaflega sérkennilegt, í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram hjá þeirri nefnd sem var að skoða flutningsleiðir á landi og sjó, að framleiðendur sjávarafurða um hinar dreifðu byggðir skuli velja landleiðina þrátt fyrir að 70% dýrara sé að flytja 40 feta gám landleiðina en sjóleiðina.

Ég hlýt að taka undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni með að þetta er mjög athyglisvert og nauðsynlegt að skoða og meta að nýju þær flutningsleiðir sem farnar hafa verið og ræða við skipafélögin um hvers vegna þau ástundi ekki strandferðir. Eimskip sinnir strandsiglingum en hvers vegna lagði Samskip þetta af og keypti vöruflutningabíla til að flytja landleiðina? Þetta er mjög áhugavert. Ég tek undir það að full ástæða er til að skoða þetta.