Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 17:40:35 (4755)

2003-03-11 17:40:35# 128. lþ. 96.1 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv. 78/2003, ÞBack (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[17:40]

Þuríður Backman (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þessar lagabreytingar ganga út á að hafa skýrari skipti á milli hlutverks ríkisins og sveitarfélaga hvað varðar rekstur og byggingar heilbrigðisstofnana og við styðjum það. En að sama skapi er lagt til að leggja niður núverandi stjórnir þessara sömu heilbrigðisstofnana og við erum því mótfallin. Við leggjum aftur á móti til að hlutverki stjórnanna verði breytt og það verði hlutverk stjórna að hafa eftirlit með rekstri heilsugæslustöðva og vera ráðgefandi varðandi þjónustu stofnananna. Það er mikilvægt að hafa þessa tengingu inn í nærumhverfi og við viljum halda henni. Við teljum hins vegar til bóta að styrkja lagastoð fyrir framkvæmdastjórn og eins það hlutverk sem henni er ætlað með þeim brtt. sem hér koma fram, þ.e. til að auka lýðræðið, auka þátttöku og ábyrgð starfsmanna og þátttöku íbúa þeirra stofnana sem þessar heilbrigðisstofnanir eiga að þjóna. Því styðjum við það.