Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 18:15:21 (4763)

2003-03-11 18:15:21# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, HBl
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[18:15]

Halldór Blöndal (frh.):

Herra forseti. Ég gerði að umtalsefni hvaða þýðingu það hefur að hægt sé að stytta leiðir, sérstaklega þar sem miklir þungaflutningar fara um, og vék í því sambandi sérstaklega talinu að því að mér þætti rétt og nauðsynlegt að athuga hvort ekki sé rétt að athuga hvort skynsamlegt sé að athuga nýja vegleið milli Reykjavíkur og Akureyrar með því að fara niður Norðurárdal í Skagafjörð fyrir sunnan Mælifell, sunnan við Blöndulón, Stóra-Sand, hjá Réttarvatni til Borgarfjarðar og eftir atvikum um Þingvöll. Með þessum hætti er hægt að stytta vegalengdina um 55 km eða svo, með því að fara niður Borgarfjörð, en um rúmlega 80 km með því að fara Kaldadal og Mosfellssveit. Auðvelt er að sýna fram á að þessi vegagerð er mjög arðsöm og hagkvæm og ef við gerum ráð fyrir því að hin raunverulega viðbót sem þessi vegagerð felur í sér sé leiðin frá Kjalvegi í Borgarfjörð er hér að sjálfsögðu um langsamlega hagkvæmustu framkvæmd að ræða sem völ er á og einnig þótt litið sé til leiðarinnar í heild.

Ég hygg að það sé óhætt að fullyrða að með veggjaldinu sem ekki yrði hærra en það sem nú er greitt til að fara um Hvalfjarðargöng væri hægt að standa undir a.m.k. helmingi kostnaðar við alla leiðina. Auðvelt er að sýna fram á að með því að ráðast í þessa vegagerð væri hægt að draga stórkostlega úr endurbyggingu og viðhaldi á hringveginum sjálfum sem kominn er mjög til ára sinna og orðið mjög brýnt, allra hluta vegna, að ráðast í miklar lagfæringar á nema leitað verði annarra úrræða. Slíkur vegur eins og ég fitja hér upp á yrði að sjálfsögðu sérstaklega byggður fyrir þungaflutninga, hannaður með þá fyrir augum.

Nú hefur það auðvitað verið rætt mjög mikið á þinginu, sérstaklega af Samfylkingunni, hvaða nauðsyn beri til þess að lækka flutningskostnað. Hefur Samfylkingin talað mikið um þungaskatt í því sambandi sem menn verða auðvitað að greiða ef þeir kaupa olíu alveg eins og menn verða að greiða fyrir bensín og greiða bensínskatt ef bíllinn gengur fyrir bensíni. Eina leiðin til þess að lækka flutningskostnað þegar í stað og til frambúðar er að sjálfsögðu að stytta leiðir. Ef leiðir eru styttar mjög mikið fer það strax að hafa afgerandi áhrif á kostnaðinn ef hægt er að aka fram og til baka á þeim tíma sem leyfður er samkvæmt hinum þröngu og afdráttarlausu reglum sem við erum bundin með samningi okkar við hið Evrópska efnahagssvæði. Má kannski segja að það sé ekkert sem hefur jafnmikil áhrif á hækkun flutningskostnaðar á síðustu árum og einmitt þau ákvæði sem lúta að vinnutíma og öryggismálum þeim tengdum hjá bílstjórunum sjálfum, og líka ef við hugsum um það að Samkeppnisstofnun, með stuðningi í Evrópureglum, lagði bann við því að þungaskattur yrði áfram eftir mismunandi reglum eins og gert hafði verið.

Í þriðja lagi eru auðvitað strangar reglur hjá Evrópusambandinu um það hversu langur bíll með flutningavagni megi vera en augljóst er að slík lest mætti vera lengri ef vegurinn sem ekið er eftir er breiður og samkvæmt ýtrustu kröfum.

Við sem oft ökum norður eða suður vitum að ef við erum óheppin mætum við lest af vöruflutningabílum sem er mjög varasamt, ég tala nú ekki um ef hvasst er eins og við þekkjum. Má þakka guði fyrir að ekki hafi fleiri slys hlotist af en orðið hafa. Við tökum líka eftir því að það hefur gengið mjög illa að byggja upp þá vegkafla sem hættulegastir eru. Þá bendi ég á Norðurárdalina báða, þó kannski enn frekar Norðurárdal í Skagafirði. Samkvæmt þeirri langtímaáætlun sem nú er í gildi var gert ráð fyrir því að lokið yrði við þann veg á næstu fjórum árum en með þeirri langtímaáætlun sem hér hefur verið lögð fram er gert ráð fyrir því að sú vegagerð dragist á langinn, um a.m.k. tvö ár. Á þessu sjáum við að það virðist vera viss tregða á því að halda sig við nauðsynlegar vegabætur á helstu þungaflutningaleiðum landsins. Við vitum að ástæðan fyrir þessari sérstöku seinkun er að sérstaklega þingmenn Norðurl. v. hafa lagt meira upp úr vegi um Þverárfjall en að byggja upp veginn til Akureyrar. Afleiðingin er sú að Norðurárdalurinn er nú hættulegasti parturinn af öllum hringveginum sem við þekkjum sem þar höfum farið, ég tala ekki um í hálku eða hríðarveðri.

Ef við hugsum t.d. um þau fyrirtæki sem starfa á Akureyri eða við Eyjafjörð, við getum líka talað um fyrirtæki allt austur til Egilsstaða, sem aka norður um hefur þessi stytting að sjálfsögðu gífurlega mikið að segja. Þetta mál bar örlítið á góma í stuttu spjalli sem ég og hv. 3. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, áttum fyrir norðan og þar vakti hann athygli á að meðal annars hefði valdið mikilli hækkun á flutningskostnaði að skipafélögin hættu að flytja gáma áfram til næstu hafnar og má kannski segja að það hafi verið sjálfgert eftir að Samskip hætti strandsiglingum og líka vegna þess að á strandsiglingunum var mikill halli. Eftir sem áður er ljóst að mörg fyrirtæki úti á landi standa nú frammi fyrir meiri flutningskostnaði en áður og ef við meinum eitthvað með því að við teljum æskilegt og nauðsynlegt að hægt sé að efla iðnað á Akureyri og við Eyjafjörð eða fyrir norðan er jafnljóst að nauðsynlegt er að stytta leiðir og gera þær öruggari. Þetta á við hvort tveggja aðdrætti til iðnaðar og framleiðslunnar og sjálfsögðu líka um hina fullunnu framleiðslu.

Nú þurfa menn ekki að óttast að ég sé að leggja til að ráðist verði í þessa vegagerð á næstu tveim eða þrem árum því að aðdragandi svo mikillar framkvæmdar er miklu lengri. Ég hygg að ef vel yrði á málum haldið, ef Vegagerðin ynni hratt að undirbúningi þessa máls, athugaði vegstæði, fylgdist með veðráttu, umhverfismat og annað því líkt þarf að gera, yrði í fyrsta lagi hægt að búast við að framkvæmdir gætu hafist kannski eftir 5, kannski eftir 7, ár svo að ég er ekki að tala um neitt sem er að skella á. Það sem ég er að tala um er að það er skylda okkar að vekja athygli á þeim möguleikum sem eru til þess að draga úr framleiðslukostnaði innan lands sem er til þess að draga úr loftmengun eins og það hefur auðvitað í för með sér ef vegalengdin styttist og þetta er líka brýnt til þess að draga úr slysahættu. Þessi framkvæmd er arðsöm.

Ég vil í þessu sambandi aðeins minnast á aðra framkvæmd, á Austurlandi. Þegar ég varð samgrh. fyrir nær 12 árum og kom til Egilsstaða man ég eftir því á mínum fyrstu árum að ég fór að ræða um nauðsyn þess að byggja upp veginn um Öxi. Menn voru andvígir því þá og sögðu að fyrst ætti að hugsa um veginn um firðina eða veginn norður, þetta væri ekki mál sem ætti að hafa efst á blaði. Ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar nú að flestir séu sammála mér um að nauðsynlegt og rétt hefði verið að hefja þá þegar athugun á nýju vegarstæði og setja það í umhverfismat. Hið sama á raunar við um Hofsárdal í Vopnafirði. Menn gera sér ekki alveg ljóst nú hvort, og þá hvar, rétt sé að leggja veg frá hringveginum niður í Vopnafjörð um Hofsárdalinn vegna þess að vegarstæði hefur ekki verið ákveðið, hvað þá að farið sé í umhverfismat.

Enn get ég bent á að vegurinn niður Norðurárdal í Skagafirði hefur ekki farið í umhverfismat og þess vegna er ekki hægt að ráðast í hann nú þó svo að menn vildu. Ég vek athygli á þessu öllu til þess að menn geri sér grein fyrir að þó að sú ákvörðun yrði tekin nú að athuga um það hvort skynsamlegt sé að stytta leiðina norður með þeim vegi sem ég hef gert grein fyrir erum við ekki að tala um neitt sem skellur á eða muni valda útgjöldum hjá ríkissjóði á næstu 4--6 árum, ekki neinum útgjöldum sem máli skipta. Þetta er mikilsvert og það er skylda alþingismanna og Vegagerðar að horfa fram í tímann og reyna að gera sér grein fyrir því hvaða leiðir sé skynsamlegast að fara.

Ég vil í þessu sambandi undirstrika að ég hef, eins og nú standa sakir, að sjálfsögðu fyrst og fremst í huga hagsmuni þeirra fyrirtækja sem rekin eru fyrir norðan og hér í Reykjavík en auðvitað lýtur þetta einnig að almennu verðlagi úti á landi. Þó svo að við höfum Bónusverslanir, Samkaup og aðrar slíkar verslanir hringinn í kringum landið sem selja vörur sínar við sama verði hvort sem búðin er í Reykjavík, Egilsstöðum, Akureyri eða Ísafirði hefur þetta eftir sem áður áhrif á hverjum stað hvernig samgöngurnar eru, þó svo að þessir stóru hringir selji vörurnar við sama verði og 90% landsmanna eigi kost á því að fara í þær án mikillar fyrirhafnar.

Það er rétt að taka fram að þegar verið er að tala um verðlag almennt úti á landi og segja að það sé helmingi hærra en í Reykjavík, eins og hér hefur verið gert, er það auðvitað villandi að þessu leyti að þessar miklu lágvöruverslanir eru miklu víðar en í Reykajvík.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að fagna sérstaklega þeim flýtiframkvæmdum sem nú hafa verið ákveðnar. Ég tel að þar hafi verið staðið mjög skynsamlega að verki. Þegar Alþingi samþykkti langtímaáætlun sína fyrir 5 árum var gengið út frá því að hægt yrði að leggja veg bundnu slitlagi á næstu 12 árum til allra þéttbýlisstaða á landinu þar sem byggju 200 íbúar eða fleiri. Síðan hefur komið í ljós að þær fjárveitingar sem þar var gert ráð fyrir reyndust ekki nægar. Skýringin var annars vegar sú að meira hefur verið lagt í vegina en þá hafði verið gert ráð fyrir vegna þess að undirbúningur var ekki nógu langt kominn og oft um ágiskanir að ræða og í sumum tilvikum vissu menn ekki hvaða leið þeir vildu fara. En ástæðan er líka sú að nú hefur verið tekin ákvörðun um að hækka burðarvegi um einn staðal sem auðvitað gerir þá einum metra breiðari en áður. Nú verða þeir 7,5 metrar sem auðvitað veldur því að vegagerðin er dýrari en ella.

Ég vil sérstaklega nefna í þessu sambandi fjögur byggðarlög. Það er í fyrsta lagi Patreksfjörður, í öðru lagi Ísafjörður, í þriðja lagi Norður-Þingeyjarsýsla, Raufarhöfn og Þórshöfn, og í fjórða lagi Vopnafjörður. Eins og langtímaáætlun lítur nú út má búast við því að bundið slitlag verði komið á alla þessa staði á næstu 8 árum. Það er auðvitað mikill áfangi og mikið gleðiefni fyrir okkur sem erum þingmenn á einhverjum þessara staða. Auðvitað er þetta mikill léttir fyrir fólkið og auðvitað hefur það í för með sér að nauðsynjar muni lækka í verði á þessum stöðum, þær sem ekki hafa þegar gert það í gegnum lágvöruverslanirnar. Þetta hefur líka í för með sér að aðdrættir fyrirtækja og fullunna varan sem þaðan fer eða fiskflutningar eða hvað við tölum um verða ódýrari en nú er. Þarna munar virkilega fjárhæðum á öllum þessum stöðum þegar við erum að tala um flutningskostnaðinn. Þess vegna eru þessar flýtiframkvæmdir nú líka til þess að jafna stöðu fyrirtækjanna innbyrðis þannig að þau standa jafnari á eftir en áður var. Svo megum við heldur ekki gleyma því að þessar framkvæmdir skapa nýjan grundvöll fyrir ferðaþjónustu með því að færa þessa fjarlægu staði nær hringveginum og aðalumferðinni. Ég hygg að á öllum þessum stöðum séu menn í ferðaþjónustu nú þegar farnir að velta fyrir sér hvernig þeir eigi að nýta sér þessi nýju sóknarfæri og hvernig þau koma.

Ég legg áherslu á þetta, herra forseti. Ég álít að oft sé hægt að gera betur. Auðvitað vitum við sem höfum lengi barist í samgöngumálum að þar er oft við ramman reip að draga en ég vildi leggja áherslu á það sem ég hef hér sagt við þessa umræðu.