Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 18:47:25 (4772)

2003-03-11 18:47:25# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[18:47]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er athyglisverð umræða. Ég get ekki annað en komið að henni vegna þess að hér er verið að tala um að stytta leiðir til að spara flutningskostnað. Í nýrri skýrslu nefndar um flutningskostnað koma fram alvarlegar upplýsingar sem ég held að þingmenn dreifbýlis ættu að skoða mjög náið. Í skýrslunni segir svo, með leyfi forseta.

,,Samþjöppun aðila í landflutningum og þátttaka skipafélaga gerir það að verkum að tveir flutningsaðilar eru með nær alla landflutninga á Íslandi --- fákeppni er því ráðandi í þessum flutningum. Samfara þessu hafa gjaldskrár flutningsaðila hækkað verulega umfram þróun neysluvöruvísitölu.``

Mér þykir þetta vera mjög alvarlegt mál. Þegar við líka stöndum frammi fyrir því eins og kom fram fyrr í dag í umræðunni um flutningskostnað utan af landi. Í þessari sömu skýrslu sem gefin er út núna í janúar segir, með leyfi forseta:

,,Almennt er álitið að nota beri strandflutningana þegar því verður við komið en framleiðandinn nefnir um leið að strandflutningaskipin séu vondur kostur. Tíðni og ferðatími skipti þar miklu máli. Fyrir 40 feta gám er þó bíllinn 70% dýrari.``

Maður veltir þess vegna vöngum yfir því hvað það þýði að stytta leiðir með þessa fákeppni í vöruflutningum. Við þurfum auðvitað að horfa á það. Og ég tala nú ekki um líka þegar við stöndum frammi fyrir því að olíujöfnunarverð eða jöfnunarkostnaður olíuflutninga hefur verið með þeim hætti að þó olíu hafi verið landað á Akureyri og henni ekið þaðan í næstu birgðastöðvar, þá hefur samt sem áður verið greitt jöfnunargjald fyrir olíu eins og hún hefði verið flutt frá Reykjavík. Þannig að hér er alvarlegt mál á ferðinni sem ég og þingmenn hinnar dreifðu byggðar hljóta að þurfa að fara að skoða alvarlega.