Rannsókn sjóslysa

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 20:50:21 (4785)

2003-03-11 20:50:21# 128. lþ. 96.19 fundur 552. mál: #A rannsókn sjóslysa# (starfshættir rannsóknarnefndar, aðsetur o.fl.) frv. 57/2003, Frsm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[20:50]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá samgn. á þskj. 1153, um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000.

Nefndin fjallaði um málið og fékk fjölmarga aðila á sinn fund. Enn fremur bárust margar umsagnir.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar og lagfæringar á lögunum. Veigamesta breytingin felst í því að ráðherra eru veittar heimildir til að fela rannsóknarnefndinni að taka upp mál þar sem rannsókn er þegar lokið ef aðstæður krefjast þess.

Nefndin leggur til eina efnisbreytingu á frumvarpinu. Lagt er til að 6. gr. um skyldu rannsóknarnefndarinnar til að skila skýrslu innan þriggja mánaða falli brott. Með hliðsjón af því að umfang rannsókna og skýrslugerðar er mjög mismunandi þykir nefndinni rétt að miða áfram við þá meginreglu að skila beri skýrslu svo fljótt sem verða má í hverju tilviki fyrir sig. Jafnframt er lagt til að 2. efnismgr. 1. gr., um aðsetur nefndarinnar, falli brott. Breytingin er ekki efnisleg þar sem ákvörðunarvald um aðsetur nefndarinnar verður eftir sem áður hjá ráðherra.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hjálmar Árnason og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nál. rita framsögumaður Guðmundur Hallvarðsson og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Magnús Stefánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir, Jón Bjarnason og Kristján L. Möller.