Skógrækt 2004--2008

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 20:55:05 (4787)

2003-03-11 20:55:05# 128. lþ. 96.24 fundur 689. mál: #A skógrækt 2004--2008# þál. 39/128, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[20:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 1121 er 689. mál þingsins sem er þáltill. um skógrækt á Íslandi og fjárveitingar þar að lútandi til næstu fimm ára, með öðrum orðum árin 2004--2008.

Þáltill. skiptist í tvo meginþætti, annars vegar er lýtur að landshlutabundnu skógræktarverkefnunum og hins vegar að Skógrækt ríkisins. Vil ég fyrst fjalla um landshlutabundnu skógræktarverkefnin.

Með lögum nr. 32/1991 samþykkti Alþingi stofnun Héraðsskóga á Austurlandi. Mikill áhugi var þegar á verkefninu og árangur gróðursetningar framar öllum vonum. Í stuttu máli hafa síðan Héraðsskógar vaxið og dafnað og teljast nú veigamikill þáttur í atvinnu- og búsetumálum á Héraði. Í framhaldi af velgengni Héraðsskóga og ánægju þátttakenda var kallað eftir skógræktarverkefni með svipuðu sniði á Suðurlandi og með samþykkt laga frá Alþingi nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga, voru Suðurlandsskógar stofnaðir. Þá þegar var kominn mikill þrýstingur frá öðrum landshlutum um sams konar skógræktarverkefni og í stað þess að setja ný lög fyrir hvern og einn landshluta samþykkti Alþingi lög um landshlutabundin skógræktarverkefni, nr. 56/1999, sem eru því sem næst samhljóða suðurlandsskógalögunum. Á grundvelli þeirra laga setti landbúnaðarráðherra árið 2000 af stað verkefnin Norðurlandsskóga, Skjólskóga á Vestfjörðum og Vesturlandsskóga. Árið 2001 var síðasta verkefnið, Austurlandsskógar, sett á laggirnar og þar með voru landshlutabundin skógræktarverkefni í öllum landshlutum orðin staðreynd.

Fyrir þessi verkefni voru gerðar áætlanir og þeim sett markmið. Um það segir í 3. gr. laga um Héraðsskóga, með leyfi forseta:

,,Gera skal sérstaka áætlun, Héraðsskógaáætlun, um nýtingu þess lands á Fljótsdalshéraði sem er vel fallið til skógræktar. Áætlunin skal nú ná yfir 40 ár, skipt í 10 ára tímabil, og taka til allt að 15.000 ha lands.``

Í 3. gr. laga um Suðurlandsskóga segir: ,,Gera skal sérstaka áætlun, Suðurlandsskógaáætlun, um nýtingu þess lands sem er fallið til skógræktar. Áætlunin skal vera til 40 ára og skiptast í fjögur tíu ára tímabil og taka til a.m.k. 15.000 ha lands til timburskógræktar, 10.000 km af skjólbeltum, miðað við einfalda plönturöð, og 20.000 ha lands til landbótaskógræktar.``

Í 4. gr. laga um landshlutabundin skógræktarverkefni segir: ,,Fyrir hvert landshlutaverkefni skal gera sérstaka landshlutaáætlun. Áætlunin skal vera til a.m.k. 40 ára og skiptast í tíu ára tímabil. Í hverju landshlutaverkefni skal stefnt að ræktun skóga á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis.``

Í samræmi við þessar lagagreinar voru gerðar áætlanir fyrir hvert og eitt skógræktarverkefni. Þar sem Héraðsskógaverkefnið er um áratug eldra en önnur hefur það verkefni verið haft að leiðarljósi. Alþingi hefur staðið myndarlega að fjárveitingum til þess verkefnis og eru þær nú að nálgast þá hámarksupphæð, 110 millj. kr., sem þörf verður árlega á í framtíðinni. Þær áætlanir sem gerðar voru um hin verkefnin eru mjög samhljóða enda markmiðin nánast ein og hin sömu. Þeim fylgdi skýr áætlun um fjárþörf sem tók mið af því að ná þeim ræktunarmarkmiðum sem lögin kveða á um. Áætlanirnar voru lagðar fyrir ráðherra og síðan ríkisstjórn.

Á grundvelli þessara áætlana hafa verkefnin starfað, gengið frá samningum við skógræktendur, útbúið skógræktaráætlanir fyrir hvert skógarbýli og staðið að jarðvinnslu og plöntukaupum. Þá hefur Alþingi staðið að fjárveitingum í samræmi við framangreindar áætlanir, að undanskildu árinu 2002, en þá var um litla sem enga hækkun að ræða frá árinu áður. Þá kom betur í ljós en áður hve nauðsynlegt það er fyrir verkefnin að fjárveitingar fram í tímann liggi fyrir. Því er þessi þingsályktunartillaga um fjárveitingar til næstu fimm ára lögð fram, en hún gerir ráð fyrir að fjárveitingar verði ákveðnar til ársins 2008. Þetta eru lægri fjárveitingar en fyrstu áætlanir verkefnanna gera ráð fyrir, sem e.t.v. voru ívið of háar. Þetta þýðir að framgangur verkefnanna verður ekki eins hraður í upphafi og gert var ráð fyrir í fyrstu en samt sem áður að verkefnin geti náð settum markmiðum laganna.

Ég vil ítreka að eðli verkefnanna og framkvæmdir í skógrækt kalla á langtímaáætlanir um fjárveitingar. Þær tryggja trúverðugleika og markvissara og skilvirkara starf. Við gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlana þarf að nota aðrar vinnuaðferðir en við áætlanagerð fyrir mörg önnur verkefni/stofnanir á vegum ríkisins. Ferlið frá því að landeigandi sækir um þátttöku í skógræktarverkefni þangað til að gróðursetning hefst getur verið allt að tvö ár.

[21:00]

Sem dæmi má nefna að landeigandi sendir inn umsókn haustið 2003. Skógfræðingur heimsækir landeiganda og metur skógræktarskilyrði á fyrirhuguðu skógræktarsvæði vorið 2004. Umsögn skógfræðings er jákvæð og landið er flokkað og kortlagt sumarið 2004. Veturinn 2004--2005 er á grundvelli upplýsinga unnin nákvæm skógræktaráætlun fyrir svæðið. Vorið 2005 er skógræktaráætlunin tilbúin og landeigandi getur hafið framkvæmdir tveimur árum eftir að umsókn var send inn.

Einn af undirstöðuþáttum í skógræktarstarfinu er fræöflun og framleiðsla skógarplantna. Þessi ferill getur tekið allt að fjögur ár eftir því hvaða tegund plantna er verið að rækta. Á vegum verkefnanna eru aðallega notaðar eins til tveggja ára gamlar skógarplöntur. Þetta þýðir að plantan hefur verið í ræktun í gróðrarstöð í eitt til tvö ár. Verkefnin bjóða út framleiðslu skógarplantna og það verður að gera með góðum fyrirvara þannig að gróðrarstöðin hafi öll aðföng til reiðu þegar að sáningu kemur.

Annað dæmi skal tekið sem sýnir ferli frá útboði skógarplantna þar til plönturnar verða gróðursettar. Skógarbóndi ætlar að gróðursetja lerki (eins árs framleiðsla) árið 2006 og sitkagreni (tveggja ára framleiðsla) árið 2007. Haustið 2003 er ákveðið hvað þarf að bjóða út mikið af skógarplöntum. Í janúar 2004 eru skógarplöntur boðnar út. Í mars er ákveðið hvaða gróðrarstöð fær útboðið. Gróðrarstöðin aflar sér aðfanga, svo sem fræs, moldar og fjölpottabakka. Í mars 2005 fer sáning fræs til skógarplantna fram sem verða tilbúnar til afhendingar í maí 2006. Ári seinna eða 2007 er tveggja ára ræktunin tilbúin til afhendingar.

Á þessu má sjá að haustið 2003 þarf að vera ljóst hvaða fjármagn er til ráðstöfunar í þessi verkefni árið 2007, sem er fjögur ár fram í tímann.

Margsinnis hefur komið fram af hálfu forsvarsmanna verkefnanna, þátttakenda og annarra sem til þekkja, hve starf þeirra hefur haft mikil áhrif. Þótt aðalmarkmið verkefnanna sé að rækta skóg hafa þau einnig önnur markmið, svo sem eflingu byggða og atvinnulífs, auðlindasköpun og bindingu kolefnis. Þá hefur í kjölfar verkefnanna gefist færi á störfum á landsbyggðinni fyrir háskólamenntað fólk, vísindamenn og skógfræðinga.

Benda má á verkefni á Austurlandi þar sem menn hafa sérhæft sig í smíði gagnagrunns sem heldur utan um framkvæmdir í skógrækt. Að því hafa unnið kerfisfræðingar og forritarar og fleiri tölvufræðingar. Skógræktin hefur styrkt ferðaþjónustuaðila, jafnt gistihús sem veitingarekstur. Í þessari upptalningu er tæpt á ýmsum störfum sem liggja utan hefðbundins landbúnaðar en að sjálfsögðu hafa bændur svo verulega afkomu af vinnu við framkvæmdina sjálfa og skólakrakkar af sumarvinnu.

Vart eða ekki verður bent á önnur sambærileg verkefni sem treysta frekar búsetu á landsbyggðinni, sem stendur um þessar mundir of víða höllum fæti. Skógræktarverkefnin styrkja ekki aðeins bændur á bújörðum, heldur kalla þau á nýja ábúendur, ekki hvað síst úr þéttbýlinu sem finna sér þar samastað, flytja lögheimili sín og gerast skattgreiðendur í nýju umhverfi. Með þeim koma nýir straumar, ný viðhorf, aukin þjónusta og mannlífið allt verður fjölbreyttara.

Það er nú svo að allt mannlíf á landsbyggðinni er auðvitað landbúnaður.

Með eflingu skógræktar er verið að skapa nýja auðlind á Íslandi. Skógurinn er auðlind Finna og Svía, Norðmanna og annarra nágranna. Meðal annarra þjóða er ekki litið á þá auðlind sem eign einhvers einstaklings heldur auðlind viðkomandi lands. Þannig verður það einnig hér á landi þegar fram líða stundir.

Hér skal ekki tíundað frekar gildi verkefnanna enda Alþingi vel kunnugt um mikilvægi þeirra. Hefur skilningur og áhugi alþingismanna margoft komið fram á fundum, í heimsóknum til verkefnanna og í umræðum og afgreiðslu Alþingis á fjármagni til þeirra.

Þá vík ég að Skógrækt ríkisins.

Uppbygging landshlutabundnu skógræktarverkefnanna kallar á aðlögun innan þess hluta skógræktargeirans sem fyrir var, einkum hjá Skógrækt ríkisins. Þar kemur fyrst og fremst til að rannsóknir og miðlun rannsóknaniðurstaðna og annarrar þekkingar er algjör forsenda fyrir því að árangur landshlutaverkefnanna verði sem skyldi og að fjármunir sem til þeirra renna nýtist sem best. Þá eru kröfur um eftirlit, upplýsingaöflun og upplýsingamiðlun sífellt að aukast bæði innan lands og á alþjóðavettvangi, ekki síst í tengslum við loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Sumir kynnu að ætla að með uppbyggingu landshlutabundnu skógræktarverkefnanna mætti draga úr starfsemi Skógræktar ríkisins þar sem nýskógrækt félli nú niður sem eitt af hlutverkum hennar. Staðreyndin er hins vegar sú að fjárveiting til verkefnisins ,,Nytjaskógrækt á bújörðum``, sem var undanfari landshlutabundnu skógræktarverkefnanna og heyrði undir Skógrækt ríkisins, nam aldrei hærri upphæð en 15 millj. kr. á ári. Sú upphæð og meira til fer nú í að fjármagna þjónustu skógræktarráðunauta Skógræktar ríkisins í hverjum landsfjórðungi er gegna lykilhlutverki í þjónustu við skógarbændur.

Nú eru 14 ár liðin síðan gróðursetning af hálfu Skógræktar ríkisins var síðast verulegur hluti af nýskógrækt í landinu. Síðastliðinn áratug hefur gróðursetning Skógræktar ríkisins að stórum hluta tengst rekstri gróðrarstöðva, þ.e. afgangsplöntur úr gróðrarstöðvum voru gróðursettar í lönd stofnunarinnar. Með lokun gróðrarstöðvanna er sú gróðursetning að mestu úr sögunni auk þess sem möguleikar til sértekjuöflunar minnka. Sú vinna sem áður tengdist nýskógrækt hjá Skógrækt ríkisins hefur æ meira flust yfir í að sinna grisjun og umhirðu í þjóðskógunum og móttöku ferðafólks, ,,að opna skógana`` sem svo hefur verið nefnt, sem var fyrirmyndarframkvæmd fyrir nokkrum árum og viðgengst á hverju ári þannig að Íslendingar eiga nú aðgang að skógum sínum og njóta þess.

Sú verkaskipting að landshlutabundnu skógræktarverkefnin hafi umsjón með mestum hluta nýskógræktar og Skógrækt ríkisins sinni flestöllum öðrum verkefnum er tengjast skógrækt hefur verið að þróast undanfarin 13 ár og er nú orðin nokkuð fastmótuð. Fjárframlög verða því ekki flutt frá Skógrækt ríkisins til landshlutaverkefnanna án þess að það komi niður á annarri starfsemi, svo sem rannsóknum, ráðgjöf eða umsjón með þjóðskógunum. Þvert á móti kallar aukin nýskógrækt á auknar rannsóknir, aukna ráðgjöf og aukið eftirlit. Þjóðskógarnir eru auk þess nauðsynlegar fyrirmyndir, en þar er að finna sýnishorn af því sem stefna ber að, því sem vænta má og ,,víti til varnaðar``. Þá eru þjóðskógarnir mjög mikilvægur vettvangur rannsókna og þjálfunar skógareigenda, t.d. í grisjun, og mikilvægasta erfðalind fyrir íslenska skógrækt, en stór hluti þess trjáfræs sem notað er kemur nú úr þjóðskógunum.

Í þáltill. er að finna töflu um fjárveitingar til Skógræktar ríkisins. Er starfseminni skipt upp í fjóra flokka, yfirstjórn, stjórnsýslu, rannsóknir og þjóðskóga. Þessi skipting endurspeglar verkefni stofnunarinnar að hluta til eins og þau eru nú en einkum eins og ætla má að þau verði eftir 5--10 ár. Gert er ráð fyrir áframhaldandi þróun á starfsemi stofnunarinnar þar sem áhersla er lögð á stjórnsýslu, þar með talda upplýsingaöflun, eftirlit, árangursmat og fræðslu, svo og rannsóknir sem aukast hlutfallslega samanborið við yfirstjórn og rekstur þjóðskóganna.

Ég vil þá gera grein fyrir þeim liðum sem taldir eru fram í þáltill. og heyra undir Skógrækt ríkisins.

Í málaflokknum Yfirstjórn er fastur kostnaður við rekstur Skógræktar ríkisins, svo sem laun skógræktarstjóra og kostnaður við fjármál, bókhald, tölvuþjónustu og þess háttar. Ekki er gert ráð fyrir raunaukningu á þessum rekstrarþætti og lækkar hann úr 16% niður í 14% af ríkisframlaginu til stofnunarinnar á tímabilinu.

Stjórnsýsla mun taka mestum breytingum á næstu 5--10 árum og er heitið ,,stjórnsýsla`` til marks um væntanlegar breytingar. Eðlilegra nafn málaflokksins núna væri ,,fræðsla, ráðgjöf og áætlanagerð`` eða það sem nefnt hefur verið ,,skógarþjónusta``. Landshlutaverkefnin kalla nú þegar á aukið faglegt eftirlit með framkvæmdum sínum, einkum svo að þau geti metið árangur sinn í því skyni að bæta hann, en einnig til að þau geti staðið skil á upplýsingum til yfirvalda og almennings. Eðlilegt þykir að slíkt eftirlit eða árangursmat sé unnið af fjárhagslega óháðum aðila og er Skógrækt ríkisins eina stofnunin með faglega færni til að sinna því. Með þessu fyrirkomulagi fæst einnig aðskilnaður milli stjórnsýslu og stærsta hluta framkvæmda í skógrækt.

Síðan vil ég, virðulegur forseti, í lokin þar sem ég kemst nú ekki yfir allt sem ég vildi segja við þessa mikilvægu umræðu, minna á Kyoto-bókun loftslagssamningsins, hversu mikilvæg skógrækt er og að halda utan um þá auðlind o.s.frv.

Síðan er hér áætlun þar sem gert er ráð fyrir framlögum til stjórnsýslumálaflokksins á þessu árabili.

Þetta er mikið mál og stórt, hæstv. forseti, sem ég mæli hér fyrir, mikilvægt fyrir landsbyggðina, mál sem mun skipta miklu og gera landið byggilegra, hækka gildi þess að búa í sveit á Íslandi og gera það eftirsóknarverðara en verið hefur. Eins og allir þekkja gefur skógræktin hamingju og lífsgleði sem henni hefur fylgt og hef ég notið þess í ríkum mæli sem landbúnaðarráðherra að vera með þessu lífsglaða fólki sem hefur hafið af miklum krafti þetta verk á Íslandi.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. landbn.