Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 21:44:49 (4794)

2003-03-11 21:44:49# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[21:44]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Þegar ég var lítill drengur las ég Grimms-ævintýri sem hét Gullasninn, töfraborðið og kylfan í skjóðunni. Mér dettur í hug þetta ævintýri þegar ég verð vitni að fjárútlátum hæstv. ríkisstjórnar þessa dagana. Gullasninn var þeirrar gerðar að gullið gekk bæði út um aftur- og framendann á honum. Ég ætla svo sem ekki að hafa frekari hugleiðingar um þetta en hann þótti kostagripur, þessi gullasni, og þar sem gullið kom út úr báðum endum ætla ég í samlíkingunni að velta svolitlu fyrir mér. Áðan vorum við að tala um þáltill. hæstv. ráðherra Framsfl. og nú erum við að tala um þáltill. hæstv. ráðherra Sjálfstfl. Þessir flokkar, herra forseti, keppast við það núna að ausa gulli á báðar hendur, og ég vona svo sannarlega að það eigi eftir að koma sér vel. Mér finnst líka ágætt að augu hæstv. ríkisstjórnar séu farin að opnast æ betur fyrir mikilvægi þess að leggja fram fé í rannsóknir hvers konar. Þetta er ágætismál þegar menn fara að taka sig til og láta fjármuni í rannsóknir til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða.

Ég minnist þess einmitt núna, herra forseti, að lögð var fram till. til þál. um eflingu og rannsóknir á þorskeldi í landinu sem hefur nú verið í meðförum þingsins í þrjú ár. Hún er afgreidd núna frá sjútvn. þar sem mælt er með því að henni verði vísað til ríkisstjórnarinnar og er þetta svo sem í góðu samræmi við það sem hæstv. sjútvrh. lagði til málanna í sambandi við að af þessu færi mikið í þorskeldi. Ég tel að það sé mjög þarft og ágætt mál hjá hæstv. sjútvrh. að beina fjármagninu eða benda sjóðstjórninni, hver sem hún verður, á það að nota þessa fjármuni í rannsóknir á þorskeldi.

Það var ánægjulegt að heyra þær fréttir í dag, herra forseti, í útvarpsþættinum Auðlindinni að synir Guðmundar Runólfssonar, útgerðarmanns ágæts sem var í Grundarfirði, eru nú búnir að leggja þorskagildrur í Grundarfjörð til þess að veiða inn fisk og nota hann svo til áframeldis. Þetta er mjög jákvætt og gott frumkvæði sem ég vona að beri góðan árangur. Það hefur samt ekki verið alveg nóg að veita kannski fyrirtækjum heimild til þess að veiða þorsk til áframeldis, það þarf náttúrlega mikinn stuðning og styrk til þess að fóðra fiskinn, til að finna út hvaða kvíar eru bestar eða aðstæður til að ala fiskinn í. Þetta krefst allt fjármagns og ég gleðst yfir því að sett skuli vera fjármagn í þetta.

Hins vegar er svolítið skemmtilegt að lesa í fyrstu málsgrein tillögunnar, að Alþingi álykti að lýsa stuðningi við stofnun sjóðs --- það er búið að stofna sjóðinn --- í staðinn fyrir að Alþingi hlutist til um að sjóðurinn verði stofnaður. Síðan er gert ráð fyrir því í tillögunni að Alþingi lýsi stuðningi við stofnunina og svo leggi Alþingi til að 1,5 milljarðar kr. verði settir í þennan sjóð á næstu árum. Ég vona svo sannarlega að þetta fé muni nýtast vel og verða til þess að auka verðmæti í sjávarútvegi til muna. Það er alveg greinilegt eftir því sem nefndin komst að, nefndin sem fjallaði um það að auka verðmæti í sjávarútvegi, að það er mikið ógert. Er það í raun og veru mjög ánægjulegt þegar við tölum um að það sé um mikil tækifæri að ræða enn í sjávarútvegi þó að við séum búin að stunda hann svona lengi.

Það er náttúrlega hægt að tala um allar setningar og allt svoleiðis, t.d. ,,fulltrúa atvinnulífs og stjórnvalda``. Sér hæstv. sjútvrh. það fyrir sér að einhverjir ákveðnir aðilar úr hópi fiskverkafólks eða fulltrúar þeirra komi að því að fara inn í stjórn þessa sjóðs, eða fulltrúar sjómannafélaga eða einhverra annarra aðila sem vinna við þetta án þess að vera beint með eignaraðild í sjávarútvegsfyrirtækjum? Og ég segi eignaraðild í sjávarútvegsfyrirtækjum en ekki í fiskstofnunum því að ég lít svo á, herra forseti, að þjóðin eigi fiskstofnana en ekki einstök fyrirtæki þótt þeim sé um stund trúað fyrir því að veiða fiskinn eftir þeim reglum sem gilda núna en verða vonandi felldar úr gildi sem fyrst.

Ég ítreka að það er ánægjulegt að sjá að ríkisstjórnin er á síðustu dögum sínum að átta sig á mikilvægi þess að efla og styrkja sjóði til rannsókna og mennta og slíkra starfa. Það er gleðilegt að það skuli gerast enda eru tveir mánuðir þangað til hennar tíma lýkur, og það var ekki seinna vænna. Ég vona sem sagt að þetta eigi eftir að koma til góða og segi bara aftur í lokin að öll þessi mikla útgjaldagleði ríkisstjórnarinnar í dag minnir svolítið á þetta ævintýri sem ég talaði um í upphafi ræðu minnar, um gullasnann, töfraborðið og kylfuna í skjóðunni.