Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 21:56:46 (4796)

2003-03-11 21:56:46# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[21:56]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er skammt stórra högga á milli nú á hv. Alþingi í ákvörðunum þeirra sem ráða ríkjum, í ríkisstjórn og á Alþingi. Nú sjáum við hér birtast tvö þingmál sem fylgjast að í þinginu, annað um fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða og hitt er till. til þál. um skógrækt þar sem greinilega er verulega aukið fjármagn til skógræktarverkefna. Í fljótu bragði sýnist mér við vera að tala um sambærilegar upphæðir, líkast til eina 3 milljarða í þessum tveimur verkefnum.

Það hefur svo sem kvisast hér um ganga Alþingis að það væri samhengi milli þessara mála. Annað málið hefði það í för með sér að hitt málið yrði líka afgreitt í þinginu, þ.e. ef hæstv. landbrh. fær ekki sitt mál í gegn fær hæstv. sjútvrh. ekki heldur sitt.

En þetta er nú ekki aðalatriði málsins að mínu viti, hér er verið að ræða um hin bestu verkefni að mörgu leyti. Ég tel að hugmyndin á bak við þennan sjóð sem hér er verið að ræða um sé góð og það sé full ástæða til þess að taka á þeim verkefnum sem hér er verið að tala um. Ég er hins vegar afar ósáttur við aðferðir hæstv. sjútvrh. í þessu máli og það virðingarleysi sem er svo æpandi í því hvernig það kemur fyrir hv. Alþingi. Hér segir, eins og hv. þm. hafa vitnað til á undan mér:

,,Alþingi ályktar að lýsa stuðningi við stofnun sjóðs sem sjávarútvegsráðherra hefur komið á fót og hefur það hlutverk að styrkja verkefni`` o.s.frv.

Hæstv. sjútvrh. er búinn að stofna þennan sjóð og hv. Alþingi fær náðarsamlegast að skaffa peningana í hann. Um annað á ekki að fjalla hér á hv. Alþingi hvað varðar þennan sjóð, nákvæmlega ekki neitt annað en bara hversu mikla peninga Alþingi eigi að skaffa til þessara verkefna.

Mér finnst að það eigi ekki að fara svona að og ég tel að það sé full ástæða fyrir hæstv. sjútvrh. að velta því fyrir sér hvort menn eigi yfirleitt að fara svona að í stjórnsýslunni.

Svo er hitt: Hvers vegna þarf að taka ákvörðun um þetta núna? Nú liggur það fyrir sem yfirlýsing frá hæstv. sjútvrh. að hann hafi nóga peninga fyrir þessu þetta árið, hann þurfi ekki á neinum peningum að halda í þennan sjóð á þessu ári, það sé ekki fyrr en á næsta ári á eftir. Fjárlög hafa verið afgreidd fyrir þetta ár og það er nógur tími til þess að taka afstöðu til málsins við næstu fjárlög án þess að trufla nokkuð það sem hæstv. sjútvrh. er að áforma með þessum sjóði sem hann vill hafa allan einkarétt á og hefur í raun og veru ekki einu sinni áhuga á að leggja fyrir hv. Alþingi til að skoða með neinum hætti.

Það er líka umhugsunarefni af hverju hæstv. sjútvrh. hefur ekki farið yfir það hér, úr því að hann er búinn að stofna sjóðinn, af hverju ekki kemur fram í þessu bréfi til Alþingis hverjir eiga sæti í sjóðnum, hvaða aðilar það eru, hversu margir eru í sjóðnum og hvernig hæstv. sjútvrh. ætlar sér eða er búinn að skipa mönnum til starfa þar. Mér finnst ástæða til að það komi fram.

Það er annað sem manni flýgur í hug og það er að það er svolítið samræmi milli þeirra fjármuna sem hæstv. sjútvrh. ætlar ríkissjóði að leggja til þessa sjóðs og þess hvenær koma eiga inn lítils háttar fjármunir vegna veiðigjaldsins sem hæstv. sjútvrh. lagði til að yrði sett á útgerðina í landinu. Mér býður í grun að hæstv. sjútvrh. sé að úthluta eða ætlist til þess að Alþingi úthluti þessu aflafé aftur til sjávarútvegsins með þessum hætti, að þannig sé nú málið vaxið.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst að það hefði átt að leggja þetta mál fyrir Alþingi, það hefði átt að leggja fyrir hvernig þessi sjóður á að vera. Það hefði átt að leyfa sjútvn. að fjalla um sjóðinn, tilgang hans og verkefni, hvernig honum skuli stjórnað o.s.frv., en ekki að leggja málið fyrir með þeim hætti að senda Alþingi bevís og ,,verið þið velkomin að skaffa peninga til þessa verkefnis sem ég er búinn að ákveða hvernig eigi að vera í öllum atriðum``.

Það er svo sem ekki skemmtilegt hlutverk að vera að fjargviðrast yfir því að menn hafi ekki farið rétt að við að gera hluti sem við sannarlega erum tilbúin að standa að og styðja, þ.e. að vinna að því að auka verðmæti sjávarafurða og sjávarfangs inn í framtíðina. En það er nú einu sinni hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að benda á það sem við teljum að betur megi fara og setja út á það þegar virðingarleysi fyrir Alþingi keyrir úr hófi. Það finnst mér vera ástæða til að segja um þá aðferð sem hæstv. ráðherra hefur hér viðhaft.

Tvíburi hans í kvöld, hæstv. landbrh., hefur þó kosið að leggja mál fyrir Alþingi með eðlilegum hætti og það verður að virða honum til hróss að hafa gert það en að hafa ekki sent Alþingi bara bréf og óskað eftir peningum til að framkvæma það sem honum hefur dottið í hug að gera.