Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:04:41 (4797)

2003-03-11 22:04:41# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:04]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vék að því í fyrri ræðu minni að það mætti leiða að því talsverðar líkur að hér væru menn aftur byrjaðir að stofna sjóði til þess að styrkja ný og góð verkefni í atvinnugreinum, í þessu tilviki innan sjávarútvegsins. Út af fyrir sig er ég ekki að lýsa mig andvígan því. Ég hef oft talið að það væri af hinu góða að eiga sjóð til þess að efla nýsköpun í sjávarútveginum.

Ég vék hins vegar að því, herra forseti, að hér á árum áður hefðum við átt sjóði sem voru sérmerktir til ákveðinna verkefna. Mig langar bara í örstuttu máli að lesa, með leyfi forseta, tilvitnun í lög Fiskveiðasjóðs, meginhlutverk hans. Þetta er tilvitnun í 2. gr. laga um Fiskveiðasjóð frá 1976. Hann var lagður niður árið 1998 með stofnun FBA, en er núna orðin deild í Íslandsbanka. Hlutverk Fiskveiðasjóðs var að efla framleiðslu og framleiðni í fiskveiðum, fiskiðnaði og skyldri starfsemi. Það var hlutverk Fiskveiðasjóðsins og stjórn sjóðsins gat ákveðið að stofna nýja lánaflokka og var hægt að kveða nánar á um það í reglugerð sem þurfti samþykki ráðherra, þ.e. gera þurfti tillögur að reglugerð sem ráðherra þurfti að staðfesta sem reglugerð.

Iðnþróunarsjóðurinn hafði svipað hlutverk. Í lögum um hann segir, með leyfi forseta:

,,Hlutverk Iðnþróunarsjóðs er að stuðla að uppbyggingu alhliða og samkeppnishæfs atvinnulífs á Íslandi.``

Þetta voru nú meginmarkmið. Síðan var það auðvitað sérstakt við þessa sjóði að atvinnugreinin smátt og smátt tók það upp á sína arma að fjármagna þá. Fiskveiðasjóður var fjármagnaður með Stofnfjársjóði fiskiskipa, eins og menn muna, og Iðnþróunarsjóður með sérstöku gjaldi, iðnaðarmálagjaldi sem atvinnurekendur greiddu líka inn í sjóðinn.

Hér er sem sagt verið að leggja til að stofna sjóð sem hafi til umráða 200 milljónir á árinu 2004 og síðan 250 árið 2005, 300 árið 2006, 350 árið 2007 og 400 milljónir árið 2008, eða um 1,5 milljarða kr. á þessum fimm árum. Við erum að vísu að stofna hér sjóð sem ætlað er að styrkja verkefni. En mér kæmi nú ekkert á óvart, herra forseti, þó að þróun þessa sjóðs yrði með því sniði að í hann rynni fjármagn m.a. úr því sem við höfum kallað auðlindagjald, eða það sem hér var lögfest sem gjaldtaka af sjávarútvegi fyrir notkun á auðlindinni, og að síðar yrði svo fundin kannski einhver viðbótarfjármögnunarleið fyrir þennan sjóð. Ég verð að segja, herra forseti, að mér kæmi ekki á óvart þó að málin mundu þróast þannig.

Það sem ég var að vekja athygli á, herra forseti, var að við erum í raun komin í hring. Við erum að byrja að stofna sjóði til þess að efla nýsköpun í atvinnulífinu og þar með er ríkisstjórnin í raun að viðurkenna að vegferð hennar núna í fimm, sex ár hefur ekki tekist, þ.e. sú stefna að stofna til stórfyrirtækja, stórfyrirtækjareksturs, lánastofnana og sjóða sem hafa fyrst og fremst haft það hlutverk að styrkja eða lána til tiltölulega stórra verkefna eins og Nýsköpunarsjóður, en hafa í litlu sinnt nýsköpun í smærri fyrirtækjum. Hér er auðvitað verið að ýta undir það.

Í þessu sambandi er rétt, herra forseti, að vitna aðeins í athugasemdir með frv. sem var lagt hér fram um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Í athugasemdum við það lagafrumvarp sagði, með leyfi forseta:

,,Endurskoðun á sjóðakerfi atvinnuveganna hefur hin síðari ár verið til umræðu af hálfu stjórnvalda og hagsmunasamtaka atvinnulífsins og hefur sú umfjöllun einkum varðað fjárfestingarlánasjóði í iðnaði og sjávarútvegi, þ.e. Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð og Fiskveiðasjóð Íslands. Í byrjun kjörtímabilsins ákváðu forsætisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegsráðherra að fela ráðuneytisstjórum þessara ráðuneyta að vinna að endurskoðun á núverandi sjóðakerfi að því er varðar starfsemi þessara sjóða.

Markmið endurskoðunarinnar var að tryggja atvinnulífinu aðgang að fjármagni til fjárfestingar á markaðskjörum á sem hagkvæmastan hátt og tryggja atvinnulífinu aðgang að fjármagni til nýsköpunar og þróunar. Skilyrði var að öll fyrirtæki, í hvaða atvinnugrein sem var, ættu jafnan aðgang að fjármagni úr sjóðakerfi atvinnuveganna. Með því væri afnumin sú atvinnugreinaskipting sem verið hefur í sjóðakerfinu.``

Þarna var sem sagt verið að lýsa þeim markmiðum að stofna Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og að þar ættu menn að hafa aðgang að ódýru og góðu fjármagni og góðri fjármögnun. Hið gamla hlutverk sjóðanna var sem sagt lagt niður og stofnaður einn sjóður. Nú erum við farin af stað aftur og byrjuð að stofna nýja styrktarsjóði sem ég held reyndar að sé hið þarfasta mál. Ég lýsti því yfir í upphafi máls míns til þess að fyrirbyggja allan misskilning að ég teldi að þörf væri á að gera þetta. Ég dró það hins vegar fram að í skýrslu hæstv. ráðherra, AVS-skýrslunni, er miklu einfaldari leið til þess að ná fljótari virðisauka en hér er lagt til, sýnist mér, í því veganesti sem er í textanum sem ráðherrann hæstv. flutti hér, það er m.a. með því að auka vinnslu á ferskum fiski og útflutning á honum. Þannig væri mjög auðvelt að ná í tugmilljóna króna verðmætisauka út úr íslenskum sjávarútvegi og er ég þá ekki að gera lítið úr því þó að hæstv. sjútvrh. leggi hér sérstaklega upp með að efla vinnslu á aukaafurðum og líftækni og fiskeldi. Þetta er allt góðra gjalda. Ég er hins vegar bara að benda á að það er innbyggt í skýrslu ráðherrans að það þarf að breyta fiskveiðistjórninni til að ná virðisaukanum. Það þarf að efla fiskveiðar og koma með ferskt hráefni að landi til þess að ná þeim virðisauka sem mestur slægur er í, miðað við skýrsluna sem hér er vitnað til.

Það er fróðlegt að menn skuli fara þessa hringferð og séu í raun hér í verki, herra forseti, að viðurkenna að stefna ríkisstjórnarinnar í sex, átta ár hefur ekki tekist.