Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:27:25 (4800)

2003-03-11 22:27:25# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:27]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hafði raunar ekki ætlað mér að taka til máls en eins og orð hafa fallið hér held ég að óhjákvæmilegt sé að gera það.

Ég hygg að það sé öllum ljóst að síðustu tvo áratugi hefur orðið mikil hagræðing í sjávarútveginum af ástæðum sem við öll þekkjum hér á Alþingi. Förum tólf ár aftur í tímann, til síðustu vinstri stjórnar, en hv. 3. þm. Vesturl., Jóhann Ársælsson, var mikill stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar og átti með þeim stuðningi m.a. þátt í því að gera kvótakerfið frjálst. Á þeim tíma var hér haldið uppi atvinnurekstri með því að stofna til opinberra sjóða eins og hlutabréfasjóðs og annarra slíkra sjóða, og ég veit að hv. þm. man eftir því að verulegt fé var lagt til sjóðsins, svo milljörðum skiptir ef ég man rétt, og tapaðist vegna þess að það er ekki hægt að halda uppi til lengdar hallarekstri á röngum forsendum.

Ástæðan fyrir því að horfið var frá sjóðakerfinu, eins og það hafði áður verið byggt upp, var sú ömurlega reynsla sem við Íslendingar höfðum, ekki síst af þeirri ríkisstjórn sem sat á árunum 1988--1991, ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, hverrar hv. þm. Jóhann Ársælsson var einn harðasti stuðningsmaður.

[22:30]

Á þeim tíma, ef ég man rétt, var því stundum hreyft hvort skynsamlegt gæti verið að koma fastari böndum á sjóði atvinnulífsins og það voru einmitt menn úr þeim greinum, sjávarútvegi og iðnaði, sem lögðu á það mikla áherslu, vegna þess að þeir sáu eigið fé fyrirtækjanna verða að engu þegar alltaf var verið að hlaupa undir bagga með þeim fyrirtækjum sem gátu ekki staðið undir sér vegna þess að rekstur þeirra var í molum og vegna þess að þau voru ekki arðbær. Ef við tökum einhver einstök dæmi um þessa bitru reynslu þá getum við tekið t.d. rekstur Sambandsverksmiðjanna á Akureyri, en ég veit ekki hvort hv. þm. þekkir þá miklu fátækt sem var á Akureyri eftir þá döpru reynslu þegar sá iðnaður allur hrundi.

Samsvarandi reynsla var víða annars staðar. Auðvitað er það ljóst að við getum ekki haldið uppi batnandi lífskjörum hér á landi ef við ætlum að að reyna að treysta atvinnulífið sem byggt er á röngum forsendum. Þetta var m.a. ástæðan fyrir því að lífskjör fóru mjög versnandi allan þann tíma sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, síðasta vinstri stjórnin hér á landi, sat við völd. Þetta var ástæðan fyrir því að verkalýðshreyfing og atvinnurekendur risu upp út af því atvinnuleysi sem við blasti ef ekkert yrði að gert í lok tímabils þeirrar ríkisstjórnar.

Það hefur áður verið rætt um það hversu miklir peningar fóru forgörðum og þær miklu fórnir sem við Íslendingar færðum á þeim tíma. Þess vegna kom mér það mjög mikið á óvart að hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, skyldi ræða um það sjóðasukk sem þá var í sömu andránni og við erum að tala hér um að verja verulegu fjármagni til þess að auka verðmæti sjávaraflans á heilbrigðum forsendum. Og það er ekki verið að keppa að neinu smáu, hér er verið að tala um það að með auknu rannsókna- og þróunarstarfi sé raunhæft markmið að útflutningsverðmæti geti orðið um 240 milljarðar kr. á árinu 2012, hvorki meira né minna.

Í grg. með þáltill. segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í skýrslunni er talið að slík aukning verði fyrst og fremst borin uppi af fiskeldi, líftækni og vinnslu aukaafurða, auk bættrar tækni við fiskvinnslu.``

Á öðrum stað í grg. er vikið að því að sérstaklega sé gert ráð fyrir því að verja verulegum fjármunum til þróunarverkefna og rannsókna í þorskeldi, en eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson veit hefur verið unnið mjög mikið þróunar- og rannsóknastarf á síðustu árum af sjávarútvegsfyrirtækjunum til þess að breikka grunn sjávarútvegsins hér á landi og til að styrkja möguleika frystihúsanna til að veita sínu fólki vinnu. Skýrasta dæmið um þetta er að sjálfsögðu laxeldið í Mjóafirði, þær tilraunir sem þar eru uppi, og er hugmyndin að vinna þann fisk í frystihúsinu á Neskaupstað. Jafnframt er búið að ná verulega langt t.d. í hlýraeldi. Við vitum hversu vel okkur hefur tekist að byggja upp lúðueldi, og þó svo að ríkið hafi þar einnig komið að er enginn vafi á því að framlög og áhugi sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur ráðið úrslitum um að í það verkefni var ráðist á sínum tíma og hversu vel það hefur gengið. Enn liggur það alveg ljóst fyrir að þorskeldið er borið uppi af sjávarútvegsfyrirtækjunum, þeim mikla áhuga sem menn þar hafa.

Þessi tillaga er byggð á allt öðrum forsendum en það sjóðakerfi sem áður varð gjaldþrota og hafði gengið sér til húðar. Hér er verið að ýta undir nýjungar, þróun og rannsóknir í þorskeldi, í fiskeldi, sem er auðvitað mikið þjóðþrifamál og nokkuð sem við Íslendingar allir horfum til. Ég held satt að segja að Samfylkingin eigi ekki alltaf að vera svona fýlugjörn þegar farið er að ræða um sjávarútveg og eigi að viðurkenna að mikil hagræðing hefur orðið í þeirri grein og fyrirtæki í sjávarútvegi eru til fyrirmyndar bæði um vinnubrögð og aðra hluti.