Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:39:59 (4803)

2003-03-11 22:39:59# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:39]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það var Skúli Alexandersson og hann barðist sko gegn því fyrirbrigði sem hv. þm. hefur stutt allan tímann, þessum einkarétti á því að nýta Íslandsmiðin.

Ég held að hv. þm. ætti nú bara að rifja svolítið betur upp sögu þeirra sjálfstæðismanna sem stjórnuðu hér og réðu ríkisstjórnum á þeim áratug sem hann nefndi og var aðdragandi að þeirri eymd sem upp var komin þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við. Það er hollt fyrir menn að muna það hvernig aðdragandinn var á þeim árum. Og þegar allt var komið í kaldakol eftir ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar þá varð þessi ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar til. Ef menn ætla að vera í fortíðinni þá held ég að menn ættu að grafa alla leið og fara yfir það hverjir hafa verið við völdin. Það eru nú ekki svo mörg ár sem Sjálfstfl. hefur verið utan valdstjórnarinnar á undanförnum árum að hann geti kennt öðrum meira um eymdina en sjálfum sér.