Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:43:43 (4806)

2003-03-11 22:43:43# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:43]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi ummæli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar svo að það hefði verið röng stefna hjá þessari ríkisstjórn að leggja niður þá sjóði sem höfðu veitt styrki til atvinnurekstrar og taldi að hann hefði talað á þeim grundvelli. Það hefur kannski verið misskilningur.

En mér fannst hann tala um það að með þeirri aðgerð sem hér er verið að tala um væri verið að vekja upp gamlar hugmyndir og ganga gamlan stíg. Þetta var kannski misskilningur. Ef svo er þá er ég ánægður yfir því af því að þá erum við sammála um það að hér sé skynsamlega staðið að verki og þá erum við líka sammála um það að ekki beri að fara þá leið sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar fór á árunum 1988--1991 með Hlutafjársjóði og með öðrum hætti að halda hér uppi ,,fallít`` rekstri.

Að vísu veit hv. þm. að þessi stefna olli því að ýmis ágæt sjávarútvegsfyrirtæki fóru halloka vegna þess að hér var með styrkveitingum haldið uppi gengi sem ekki gat staðist og reyndist mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum þungt í skauti. En það er alveg rétt hjá hv. þm. að Fiskveiðasjóður var mjög öflugur og ríkur sjóður.