Þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 10:35:12 (4820)

2003-03-12 10:35:12# 128. lþ. 97.92 fundur 495#B þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[10:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn. Það er að sjálfsögðu utanrmn. sem tekur sjálfstæða afstöðu til þess hvaða tillögur eru afgreiddar þar og hverjar ekki. Auðvitað skiptir meginmáli að um það sé bærileg samstaða.

Nú liggur fyrir að meiri hluti þingsins útilokar það ekki að valdi verði beitt í þessum málum. En ég hef skilið hv. þingmann þannig að hann útiloki það undir öllum kringumstæðum að valdi verði beitt með sama hætti og hann útilokaði það að því er varðaði bæði Bosníu og Kosovo á sínum tíma. Ég held að það væri mjög mikilvægt að hann gerði þinginu grein fyrir því undir hvaða kringumstæðum hann telur að hægt sé, og rétt, að beita valdi til að vernda mannréttindi og koma í veg fyrir glæpi gegn mannkyni. Ég tel að hann skuldi hv. Alþingi að gera okkur grein fyrir því og geti ekki alltaf verið að spyrja meiri hluta þingsins að því í hvaða tilvikum meiri hluti þingsins telji rétt að beita valdi.

Ég spurði hv. þingmann um það fyrir nokkru síðan hvort hann hefði talið það rétt, t.d. að því er varðaði nasismann, og hvenær hann teldi hugsanlega rétt að beita valdi. Hann hafði engin svör. En það liggur alveg ljóst fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar að það er ekki hægt að ná friði og friðsamlegri lausn varðandi Írak nema að baki liggi alvarleg hótun. Það er í þessu andrúmslofti sem reyna verður að ná friðsamlegri lausn í þessu máli.