Staða íslenska táknmálsins

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 10:54:54 (4829)

2003-03-12 10:54:54# 128. lþ. 97.1 fundur 660. mál: #A staða íslenska táknmálsins# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[10:54]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að þetta mál hefur verið rætt á þingi áður og þar hefur það komið fram að það væri langtímamarkmið þingsins, sem og ríkisstjórnar, að finna þessu máli þann endanlega farveg að hægt væri að líta svo á að táknmál heyrnarlausra væri þjóðtunga þeirra eða móðurmál. Hitt er annað mál að slíkri yfirlýsingu þurfa að fylgja mjög margar aðgerðir. Það er afskaplega einfalt að lýsa slíku yfir með ályktunartexta eða öðru slíku en það er algjörlega ljóst að því þyrftu að fylgja aðgerðir svo umfangsmiklar, ef ætti að mega að tryggja þetta, að það þyrfti ekki bara mjög mikla fjármuni heldur mjög mikla skipulagningu og undirbúning og skilgreiningar á því hvað í þessari yfirlýsingu fælist. Þetta þekkja menn.

Ef þetta væri vandalaust væri þetta auðvitað búið. Það er ekki vegna þess að í þessum þingsal eða hjá ríkisstjórn sé að finna fjandskap í garð heyrnarlausra, öðru nær, enda væri það fráleitt og siðlaust ef svo væri. En það er heldur ekki hægt að segja, eins og hv. málshefjandi gerði, að öll þjónusta við heyrnarlausa sé í uppnámi og enginn skýr lagarammi til um það. Þannig er málið auðvitað ekki vaxið. Það er heldur ekki hægt að halda því fram að málaflokkurinn sé munaðarlaus. Í mínum huga liggur það ljóst fyrir að mál þetta heyrir undir menntmrh. þannig að ég tel ekki að málið sé stjórnsýslulega munaðarlaust, þvert á móti sé rangt að halda því fram. Á hinn bóginn er í lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra gert ráð fyrir því að í stjórn slíkrar stofnunar sem menntmrh. skipar komi aðrir aðilar, þar með taldir fulltrúar frá félmrh. og fulltrúi frá heilbrrh. Í mínum huga er alveg ljóst að menntmrn. fer með forræði þessa máls.

Það er heldur ekki satt að það sé bara slett til peningum og engir fastir fjármunir eða þess háttar til þessa málaflokks. Það er varið 47 millj. á ári til þessarar Samskiptamiðstöðvar. Það eru þeir peningar sem þeir hafa úr að spila á ári hverju þannig að lýsing hv. þingmanns var auðvitað fjarri öllu lagi. Gjöldin árið 2002 skiptust þannig að táknmálstúlkun var um 22 millj. kr., námsefnisgerð 5 millj. kr., námskeið 12 millj. kr., ráðgjöf 2,5 millj. kr. og skrifstofukostnaður 5,5 millj. kr. Þetta gera 47 millj. kr. Það var mjög óburðug lýsing að lýsa því svo að ríkisstjórnin, eins og sagt var svo óvirðulega, sletti peningum til eða frá.

Hér var haldinn myndarlegur mótmælafundur af hálfu heyrnarlausra, vel skipulagður og myndarlegur, kurteis þó en með miklum þunga. Í beinu framhaldi af því var brugðist við með þessari fjárveitingu, ekki vegna þess að þar með héldum við því fram að við værum að leysa aðalkröfur heyrnarlausra. Við vitum alveg að því fer fjarri. Við heyrðum hvað fólkið sagði. Við erum með ályktanir þeirra, við höfum kynnt þær í ríkisstjórninni. Við þekkjum hver langtímamarkmið þeirra eru og við getum tekið undir að það eru einnig langtímamarkmið okkar. Við eigum samt ekki að láta eins og hér sé allt í uppnámi, hér sé ekkert gert, því að þessir fjármunir eru fyrir hendi. Þjónusta er veitt, hana á auðvitað að auka ár frá ári og við þurfum að styrkja Samskiptamiðstöðina. Við þurfum einnig að tryggja að forgangsröðun verkefna sé kannski enn þá gleggri en verið hefur. Það er ekki rétt að þessi grein sé munaðarlaus í stjórnkerfinu vegna þess að hún sorterast alveg örugglega undir menntmrn.