Staða íslenska táknmálsins

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:00:27 (4831)

2003-03-12 11:00:27# 128. lþ. 97.1 fundur 660. mál: #A staða íslenska táknmálsins# fsp. (til munnl.) frá forsrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:00]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli sem mér finnst mjög brýnt. Ég hef sjálfur komið með mál af þessum toga inn í þingið og þá fyrst og fremst varðandi fjármuni til þess að þýða efni fyrir þennan hóp og túlka í sjónvarpi. Fram hefur komið að Ríkisútvarpið telur sig ekki hafa fjármuni til þess að texta efni sem kemur í sjónvarpi nema að mjög takmörkuðu leyti og það þarf að sjálfsögðu að fá fjármuni til þess að Ríkisútvarpið geti sinnt þessum skyldum sínum.

Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að nauðsynlegt sé að varanlegar lausnir finnist á því að þjóna fólki sem er heyrnarlaust því að það er sannarlega hópur sem þarf á þeirri aðstoð að halda og á ekki að gleyma því hvar þeir sitja.

Ég tek undir það með forsrh. að auðvitað tekur þetta sinn tíma en þarna hefði samt mátt gera betur þegar litið er á túlkun fyrir heyrnarlausa.