Álagning STEF-gjalda á óskrifaða geisladiska

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:40:28 (4847)

2003-03-12 11:40:28# 128. lþ. 97.5 fundur 642. mál: #A álagning STEF-gjalda á óskrifaða geisladiska# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:40]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Lagt er STEF-gjald á óskrifaða geisladiska og því gjaldi er ætlað að uppfylla höfundarrétt þeirra sem gefið hafa út tónlist á diskum sem hægt væri að afrita á aðra diska. Höfundarrétturinn hefur stundum verið kallaður réttur andans og það er ljóst að sú viðurkenning sem felst í greiðslu STEF-gjalda fékkst einungis fyrir mikla baráttu margra merkra listamanna og þar vil ég sérstaklega nefna Jón Leifs sem hefur stundum verið kallaður guðfaðir STEFs.

En á síðari árum hafa þeir sem standa að innheimtu STEF-gjalda og njóta þeirra haft af því vaxandi áhyggjur hvernig höfundarréttinum reiddi af við hinar miklu tæknibreytingar sem gera fólki kleift að nálgast verk listamanna eftir nýjum og ófyrirséðum leiðum og þá er spurning hvernig koma á STEF-gjöldum fyrir þannig að sanngjarnt þyki.

Það varð nokkur hvellur þegar Björn Bjarnason, þáv. menntmrh., ákvað að láta greiða ýmist 17 eða 50 kr. af hverjum diski eftir stærð og gaf út reglugerð því til staðfestingar. Netverjar og tölvufólk komu því ítrekað á framfæri að þeir notuðu diskana fyrst og fremst við tölvuvinnslu og svo var um fleiri, svo sem þá sem vinna við ljósmyndun og ljósmyndir sem fannst á sér brotið að þurfa að greiða STEF-gjald án þess að skrifa nokkru sinni gjaldskylt efni á diska. Eftir þetta tilkynnti Skífan að framvegis yrðu allir diskar sem fyrirtækið gæfi út læstir þannig að ekki væri hægt að spila þá í tölvum eða afrita og mér skilst að það virki. Aðrar íslenskar útgáfur munu fylgja í kjölfarið. Spurningin er þá þessi: Hvað verður um STEF-gjaldið á diskana þegar þessi læsing hefur átt sér stað?

Þú skalt ekki stela, var heiti á grein eftir Halldór Laxness sem hann ritaði eitt sinn um höfundarréttarbrot og það á jafn vel við í dag. Fólk þarf að vera sannfært um réttmæti gjaldanna. Það þarf að vera trú á því að verið sé að fara réttlátar leiðir og eins og ég sagði, þá var reiknað með því að gjaldið sem lagt var á diskana ætti að uppfylla höfundarrétt þeirra sem hafa gefið út tónlist á diskum sem hægt væri að afrita á aðra diska. Ef það er ekki lengur hægt, herra forseti, þá er spurning hvort ráðherra telur að sú breyting gefi tilefni til að endurskoða álagningu STEF-gjalda á óskrifaða diska. Það er ljóst að trúverðugleiki STEFs á sitt undir því og þar með skilningur á þróun gjaldanna að fólk sé sannfært um það að hér sé gætt þeirrar sanngirni sem þarf.