Meistaranám iðngreina

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:57:39 (4854)

2003-03-12 11:57:39# 128. lþ. 97.6 fundur 656. mál: #A meistaranám iðngreina# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:57]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um að gagnlegt er hér á Alþingi að taka þessi mál til umræðu. Það er hugsanlegt að einn flöturinn á þessu máli sé að skoða hvort stytta eigi meistaranámið. Það er reyndar svo að í sumum löndum Evrópu er meistaranámið jafnlangt og hér þó að það eigi ekki við um Norðurlöndin, að því er ég tel, en það er sjálfsagt svipað að lengd í Þýskalandi og hér ef ekki lengra í vissum tilfellum.

En það sem mér finnst skipta mestu máli er að þörfin fyrir meistaranám virðist vera mjög mismunandi eftir greinum og við þurfum að sjálfsögðu að reyna að átta okkur sem best á því hver þessi þörf er vegna þess að námið á að svara þörfum. Það eru ákveðin atriði sem snerta öryggismál sem standa undir meistaranáminu. Þeim kröfum þarf að svara. Að öðru leyti þarf að nálgast þennan vanda, sem hv. þm. hefur rætt í þingsölum, með opnum huga og með mjög sveigjanlegum hætti vegna þess að atvinnulífið gerir í raun og veru sveigjanlegar kröfur til þessa náms.