Höfundaréttur

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 12:07:35 (4857)

2003-03-12 12:07:35# 128. lþ. 97.7 fundur 674. mál: #A höfundaréttur# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[12:07]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Reyndar er ég ekki alveg sáttur við svarið við annarri spurningunni þar sem spurningin var um hvort menn séu jafnir fyrir lögum vegna þess að t.d. höfundar heimasíðna, höfundar ljósmynda sem menn gera heima hjá sér og höfundar ritverka á netinu njóta ekki þessa gjalds. En samt er gjaldið lagt á geisladiskana sem þeir nota til að geyma þessi hugverk sín og á það sérstaklega við um ljósmyndir þar sem margir áhugaljósmyndarar nota geisladiska aðallega til að geyma ljósmyndir sínar því að þær eru mjög plássfrekar. Þeir þurfa þá að borga höfundarréttargjald til einhvers fólks úti í bæ sem á hugverk sem þeir nota alls ekki í þessu tilfelli. Hins vegar nota þeir mikið af hugbúnaði við ljósmyndagerðina, hugbúnaði sem þeir hafa hugsanlega keypt, hugsanlega ekki og ættu þar af leiðandi að borga til þeirra höfunda gjald, sem ekki er um að ræða.

Ég er spenntur að vita hvert svar hæstv. ráðherra verður við þriðju spurningunni sem er um það hvort yfirleitt sé heimilt að leggja gjald á ákveðinn hóp manna, eins konar skatt, sem rennur til annars hóps manna án þess að ríkið komi þar að með fjárveitingum sem er þó kveðið á um í stjórnarskránni, að skatt skuli leggja á með lögum. Skattur er í eðli sínu eitthvert gjald til ríkisins og ríkið getur ekki greitt út peninga úr sjóðum sínum nema með fjárlögum.