Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 19:53:00 (4860)

2003-03-12 19:53:00# 128. lþ. 98.1 fundur 493#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, BH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 128. lþ.

[19:53]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Undanfarna mánuði hefur mikil hreyfing verið á fylgi flokkanna og margt bendir til þess að nú fari í hönd tímabil breytinga og uppstokkunar. Samstarf núverandi stjórnarflokka er gengið sér til húðar. Kjósendur kalla eftir nýju fólki og nýrri stefnu til að takast á við þau framtíðarverkefni sem við blasa.

Síðustu ár hafa verið ár breytinga hér heima og á alþjóðavettvangi. Hröð tækniþróun og aukið viðskiptafrelsi hafa umbreytt samfélögunum um allan heim og Ísland er engin undantekning í því. Íslenska þjóðin þarfnast stjórnvalda sem hafa burði og vilja til að takast á við þessar breytingar sem kunna að nýta sér þau fjölmörgu tækifæri sem skapast fyrir land og þjóð í þessu umhverfi á sama tíma og þau taka á því óréttlæti sem óneitanlega er fylgifiskur, eins og aukinni misskiptingu gæðanna.

En ríkisstjórnin hefur gert hið þveröfuga. Hún hefur aukið misskiptinguna. Hún hefur hækkað skatta á einstaklinga og aukið mest byrðarnar á þá sem minnstar tekjur hafa. Lífeyrisþegar sem lifa af bótum einum borga nú heil mánaðarlaun sín í skatta en voru skattlausir allt til þess tíma er ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. tók við. Á sama tíma lækkar ríkisstjórnin skatta á hátekjumenn og stóreignafólk og tekjuhæstu fyrirtækin. Og það dugir ekki fyrir ráðherra ríkisstjórnarinnar að skjóta sífellt sendiboðana og halda því fram að fréttastofur eða félagasamtök sem halda fram staðreyndum málsins fari með rangt mál. Tölurnar tala sínu máli og fólkið skynjar aukna skattbyrði í heimilisbókhaldi sínu. Svona hefur ríkisstjórnin nýtt þau tækifæri sem hún hefur til tekjujöfnunar með skattkerfinu.

En það felast líka tækifæri í því að stokka upp það fyrirkomulag sem við búum við í sjávarútvegi. Samfylkingin hefur ein stjórnmálaflokka lagt fram heildstæðar tillögur um það á hvern hátt megi vinda ofan af því óréttlæti sem hefur þrifist í skjóli núverandi stjórnarflokka, óréttlæti sem birtist í úthlutun kvótans og sérfyrirgreiðslu fárra útvalinna á kostnað almennings og einkum þeirra sem búa í sjávarbyggðum landsins. Það verður engin sátt um stjórnkerfi fiskveiða fyrr en eignarhaldsfyrirkomulagið á kvótanum verður afnumið og núverandi stjórnarflokkar hafa sýnt það og sannað að saman skortir þá allan vilja til umbóta í þessa veru. Ríkisstjórnin hefur ekki heldur staðið við þau orð sín að festa ákvæði um sameign þjóðarinnar í stjórnarskrá.

Það er þó ekki aðeins í sjávarútvegi sem sérhagsmunagæsla stjórnarflokkanna birtist. Ríkisstjórnin er gjörn á að beita sértækum aðgerðum í atvinnulífinu í stað þess að skapa almenna umgjörð og jöfn tækifæri fyrirtækja til að þrífast. Samfylkingin telur það ekki hlutverk stjórnvalda að hlutast til um atvinnulíf þjóðarinnar með þessum hætti. Hlutverk stjórnvalda er að skapa skýrar leikreglur þannig að öll fyrirtæki njóti jafnra tækifæra.

Góðir landsmenn. Síðustu vikurnar hefur farið hátt umræðan um hugsanleg tengsl stjórnmálaflokkanna við atvinnu- og fjármálalífið. Þessi umræða er ekki ný af nálinni. Hún hefur komið upp reglulega hér á landi og hún er eðlileg í því þjóðfélagi sem við búum í þar sem fjármálaöflin verða í krafti alþjóðlegra áhrifa sífellt sterkari. En þetta er ekkert séríslenskt vandamál. Hinu sama hafa nágrannalönd okkar staðið frammi fyrir og dæmin eru fjölmörg sem hafa sýnt að ástæða er til að vera á varðbergi. Víða hefur verið brugðist við með því að setja lög sem skylda stjórnmálaflokka til að opna fjárreiður sínar. Samfylkingin hefur lagt fram frumvarp í þessa veru en núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa hins vegar aldrei viljað ljá máls á þessu og hefur Sjálfstfl. farið þar fremstur í flokki. Það er staðreynd þrátt fyrir að talsmenn þess flokks hafi verið manna ötulastir við að væna aðra stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka um óeðlileg tengsl við einstaka kaupsýslumenn eða fyrirtæki. Lesum bara blöðin þessa dagana og við blasir rakalaus áróður af slíku tagi.

Mál er að þessari umræðu linni og að gróusögurnar víki fyrir staðreyndunum sem opinberast við það eitt að flokkarnir opni bókhald sitt. Það er vilji Samfylkingarinnar.

Leikreglur lýðræðisins eru dýrmætar og okkur ber að hlúa að þeim. Samfylkingin hefur lagt mikla áherslu á þennan málaflokk á liðnu kjörtímabili og mun gera áfram. Við erum nýr flokkur sem vill ekki aðeins styrkja þær stoðir sem lýðræðisþjóðfélagið byggir á eins og þrískiptingu ríkisvaldsins, sjálfstæði dómstóla og virkt eftirlitskerfi. Við viljum líka leita nýrra leiða til að þróa okkar lýðræði í takt við nýja tíma og höfum lagt fram tillögur þar um.

Góðir landsmenn. Það eru blikur á lofti í alþjóðamálunum og því miður virðist í uppsiglingu ófriður sem getur haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir heimsbyggðina alla. Við Íslendingar hljótum að velta því fyrir okkur hvaða hlutverki við gegnum á alþjóðlegum vettvangi. Við höfum sýnt það að rödd okkar skiptir máli í alþjóðlegu samhengi og er skemmst að minnast þess hvernig Íslendingar léku stórt hlutverk þegar Eystrasaltsríkin börðust fyrir sjálfstæði á sínum tíma. Íslendingar styðja afvopnun Íraks samkvæmt ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og það er mikilvægt að alþjóðasamfélagið standi vörð um þær aðgerðr. Samfylkingin hafnar því stríði sem nú er í uppsiglingu án samþykkis alþjóðasamfélagsins og á þeim hæpnu forsendum sem Bandaríkjamenn byggja á. Ríkisstjórn Íslands þarf að kveða skýrt á um það hvort hún sé tilbúin til að fylgja Bandaríkjamönnum í þessum efnum eða hvort hún hyggist fara hina hófsömu leið til afvopnunar Íraka sem fjölmargar Evrópuþjóðir vilja fara.

Það stafa margar ógnir að heimsbyggðinni og á ég þá ekki aðeins við stríðsógnir. Alþjóðleg glæpastarfsemi fer vaxandi, svo sem ólögleg vopna- og eiturlyfjasala og verslun með fólk. Verslun með konur og börn til kynlífsþrælkunar þrífst góðu lífi um allan heim. Þessi þrælasala er skammarblettur á samtímanum og gegn henni þarf að berjast með öllum tiltækum ráðum. Þar er forgangsmál að tryggja konum sem fyrir slíkum glæpum verða vernd þannig að þær geti lagt lið við að uppræta þessa starfsemi sem ber vitni um lágkúrulegustu hvatir mannanna.

Samfylkingin vill sjá velferð landsmanna tryggða og við teljum að þjóðfélag sem getur státað af þeim lífskjörum sem við gerum eigi ekki að líða fátækt. Eigi að síður vex þetta mein í samfélaginu og bera sífellt vaxandi biðraðir hjá mæðrastyrksnefnd þess vitni. Fólk stendur ekki í biðröðum vegna þess að varan er ókeypis. Fólk stendur í biðröðum út af neyð.

Samfylkingin hafnar því að fólk eigi ekki kost á fullri þátttöku í samfélaginu vegna fátæktar. Samkvæmt nýlegri úttekt eru um 10 þúsund manns undir þeim tekjumörkum sem þarf til lágmarksframfærslu. Öryrkjar, ellilífeyrisþegar sem þurfa að lifa af bótum einum, atvinnulausir, fullvinnandi fjölskyldufólk í láglaunastörfum og bændur eru í þessum hópi. Og ríkisstjórnin kann engin ráð til að takast á við vandann annan en að auka skattbyrði þeirra tekjulægstu.

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkur landsins sem hefur það á stefnuskrá sinni að Ísland eigi að skilgreina samningsmarkmið sín gagnvart Evrópusambandinu og sækja um aðild í kjölfarið. Við teljum líka nauðsynlegt að þjóðin fái að leggja mat á þann samning ef hann næst. Við Íslendingar erum býsna harðir í horn að taka þegar kemur að samningum um okkar hagsmunamál og munum að sjálfsögðu vera það áfram innan eða utan Evrópusambandsins. En EES-samstarfið er okkur óhemjumikilvægt og við þurfum að tryggja það að þeir hagsmunir sem í því felast séu tryggðir til frambúðar.

Það bendir margt til þess að undan EES-samningnum sé að flæða smátt og smátt og þá verðum við að hafa kjark til að horfa til framtíðar og takast á við þá stöðu sem þá kynni að koma upp. Samfylkingin telur það best gert með því að sækja um aðild og láta þjóðina síðan um að meta það hvort gengið skuli að þeim samningi. Til þess er henni fyllilega treystandi.

Góðir landsmenn. Þann 10. maí gefst ykkur tækifæri til breytinga til hagsbóta fyrir land og þjóð. Samfylkingin ætlar að efla lýðræðið og krefst þess að sanngjarnar leikreglur ríki fyrir fólk og fyrirtæki á Íslandi. Um það verður kosið í vor. --- Góðar stundir.