Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 21:13:01 (4869)

2003-03-12 21:13:01# 128. lþ. 98.1 fundur 493#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 128. lþ.

[21:13]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Það líður að lokum þessa kjörtímabils. Nokkrir dagar eru eftir af þinghaldinu og kosningar í nánd eins og þegar má merkja í fjölmiðlum og í þjóðfélaginu. Þetta hefur um margt verið viðburðaríkt þing og fyrir talsmenn umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar hefur kjörtímabilið nánast verið ein samfelld varnarbarátta. Fyrst voru Eyjabakkarnir undir, nú Kárahnjúkasvæðið og Þjórsárver.

Barátta náttúruverndarfólks hefur borið árangur. Það má ekki gleymast að sigrar hafa unnist þó að vonbrigðin hafi stundum verið mikil. Sú barátta mun halda áfram þar til náttúran fær að njóta vafans. Því er nauðsynlegt að mynda ríkisstjórn sem leggur stóriðjustefnuna til hliðar, ríkisstjórn sem byggir á fjölbreyttu atvinnulífi og nýsköpun í stað þess að einblína á þungaiðnað, sem núverandi stjórnarflokkar segja nauðsynlegan til að reka velferðarkerfið.

Kjörtímabilið hefur jafnframt einkennst af einkavæðingu, einkarekstri og samruna fyrirtækja í skjóli markaðsvæðingar sem hefur á skömmum tíma veikt hinar dreifðu byggðir til sjávar og sveita. Eftir átta ára valdatíma Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur frjálshyggjustefnan náð slíkri fótfestu að árslaun hjá forstjórum fjármálafyrirtækja eru hærri en ævitekjur venjulegs fólks á almennum vinnumarkaði. Samruni stórra og í mörgum tilfellum markaðsráðandi fyrirtækja mynda valdablokkir sem teygja anga sína inn á öll svið viðskiptalífsins. Græðgi og siðleysi eru hugtök sem oft koma ósjálfrátt upp í huga fólks við fréttir af því ástandi sem hér ríkir. Á sama tíma fjölgar þeim stöðugt sem sitja fastir í fátæktargildru. Fjölskyldur, einstæðar mæður, atvinnulaust fólk, aldraðir, öryrkjar og heilu stéttirnar eiga erfitt með að framfleyta sér. Opinber stuðningur er takmarkaður og það er langt í land að stjórnvöld átti sig á því að það er enn dýrara fyrir samfélagið að viðhalda fátækt en að styðja fólk til mannsæmandi lífs.

Fátækt er smánarblettur á okkar ríka samfélagi. Hún er sprottin af kerfislægum göllum sem verður að uppræta með réttlátri löggjöf. Það er dýrt að gera ekki allt sem í okkar valdi stendur til að búa betur að börnum og unglingum. Þau verða aldrei metin til fjár. Fátækt, húsnæðisleysi og andvaraleysi gagnvart aðstæðum nýrra landsmanna eru dæmi um vandamál sem oft verða undirrót andlegs og líkamlegs heilsuleysis barna og fullorðinna.

Herra forseti. Velferðarkerfið hefur látið á sjá í valdatíð Sjálfstfl. Heilbrigðisþjónustan hefur á ýmsum sviðum verið færð yfir í einkarekstur sem ásamt einkaframkvæmd er lausnarorð ríkisstjórnarinnar á því sviði sem öðrum. Slíkt rekstrarform byggir á að sem stærstur hluti tekna sé fenginn með notendagjöldum frá sjúklingum. Félagslegt misrétti eykst í réttu hlutfalli við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þetta er staðreynd sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

Það er farið að tala um rekstur öldrunarstofnana sem arðvænlegan atvinnuveg og fréttir berast af gífurlegum fjárhagsávinningi fyrir eigendur hjúkrunarheimilanna. Þeir veðja á aldraða.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfnum gróðahyggju í velferðarkerfinu en leggjum áherslu á öfluga grunnheilsugæslu, fjölbreytta starfsemi sjúkrahúsanna, forvarnir og aukna samvinnu milli heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sveitarfélaga.

Góðir áheyrendur. Við þurfum ríkisstjórn sem ber hag allra fyrir brjósti og hefur mannúð að leiðarljósi, ríkisstjórn sem þorir að beita sér fyrir þjóðfélagsumbótum í þágu almennings, hefja vernd náttúru og umhverfis til vegs á Íslandi og treysta byggð um allt land. Slík stjórn verður ekki mynduð nema með Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. --- Góðar stundir.