Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 21:39:22 (4874)

2003-03-12 21:39:22# 128. lþ. 98.1 fundur 493#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 128. lþ.

[21:39]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni gerið þið ykkur grein fyrir því, landsmenn góðir, að hér er hart tekist á um grundvallaratriði á hinu pólitíska sviði. Val þjóðarinnar í næstu kosningum mun verða mjög afdrifaríkt. Valið stendur um áframhaldandi stjórnarhætti, eins og þá sem við höfum upplifað síðustu ár, eða breytingar sem byggjast alfarið á því að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð njóti trausts sem flestra til þess að komast að sem virkt afl í landsmálunum.

Ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl., með dyggum stuðningi Samfylkingar, keyrir fram harða einkavæðingarstefnu og markaðsvæðingu samfélags okkar. Það er sú staðreynd sem blasir við. Og það vita allir landsmenn sem hafa fylgst með vinnunni hér í þinginu í vetur, raunar öll þessi fjögur ár. Sala ríkisfyrirtækja, markaðsvæðing stofnana ríkisins, undirbúningur að markaðsvæðingu þjónustustofnana í grunnþjónustu, síminn, raforkukerfið, vatnsveitur, hitaveitur, heilbrigðiskerfið, öldrunarþjónusta, menntakerfið.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er eina stjórnmálaaflið í landinu sem vill standa vörð um félagslegan rekstur grunnþjónustunnar í landinu, eina stjórnmálaaflið á hinu háa Alþingi. Allir hinir flokkarnir munu halda áfram á braut markaðsvæðingar fái þeir til þess umboð. Góðir landsmenn, þannig eru valdahlutföllin hér á hinu háa Alþingi.

Fylgifiskar þeirrar markaðsvæðingar sem þegar er komin í gang eru nú að koma í ljós. Græðgi, firring, vanlíðan þjóðarinnar, samanber aukna lyfjanotkun, minnkandi þjónusta við almenning, minnkandi umburðarlyndi og fátækt þeirra sem minna mega sín. Þetta eru staðreyndir varðandi samfélag okkar í dag.

Annað: Hatrömm átök valdablokka um peninga og völd. Það sem er auðfengið er hart barist um, byggt á kvótagróða, afhendingu ríkiseigna. Siðspilling samfélagsins á grunni skjótfengins gróða fárra sem fara síðan fram í valdi peninganna. Þetta er stórhættulegt ástand og getur verið hættulegt að því leyti til að hér fari að myndast pólitísk spilling í krafti fjármuna sem aðrir hafa fengið á ótrúlega skömmum tíma. Þannig er samfélag okkar að þróast.

En Vinstri hreyfingin -- grænt framboð stendur vörð um íslensk gildi á grunni samhjálpar og félagshyggju. Samfélagslegur rekstur og grunnþjónusta við borgarana sem er aðgengileg öllum á jafnréttisgrundvelli er meginmál. Markaðsvæðingu grunnþjónustuþátta samfélagsins er hafnað. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er eina stjórnmálaaflið sem keyrir slíka stefnu á hinu háa Alþingi.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafnar atvinnustefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem byggir á einhæfni þar sem einblínt er á þungaiðnað með tilheyrandi gríðarlegum náttúruspjöllum sem eru óafturkræf og verða að flokkast sem glæpur gagnvart komandi kynslóðum. Atvinnustefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs byggir á fjölbreytileika í atvinnulífinu með stuðningi hins opinbera við frumkvöðla á sem flestum sviðum. Við viljum efla möguleika ungs fólks á því að hasla sér völl í atvinnulífinu á eigin forsendum og að eigin frumkvæði.

Sjávarútvegsstefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs mun á ný treysta búsetu í landinu öllu. Í stað samþjöppunar kvótaeignar á fárra hendur er lagt upp með aðgengi sjávarbyggðanna að auðlindinni en það er grundvöllur tilveru þeirra á grunni byggðatengds kvóta. Breytt stefna varðandi fiskveiðar mun gagnast lífríkinu og leiða til aukins afraksturs þegar til lengri tíma er litið.

Í landbúnaðarmálum er þörf fyrir sýn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs varðandi framþróun landbúnaðar í landinu. Aukin og bætt menntun til þess að takast á við nýjar greinar, svo sem lífræna ræktun, grunnframlög sem búsetustyrkir og framlög vegna landvörslu er liður í stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til framfarasóknar á ný í landbúnaði.

Herra forseti. Íslendingar eru friðelskandi þjóð sem hefur í aldir leyst ágreiningsmál sín við aðrar þjóðir með samningum. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur mikla áherslu á að þjóðin blandi sér ekki með neinum hætti í hernaðarátök annarra þjóða, heldur haldi hlutleysi sínu og stefnu um að fara aldrei með ófriði gagnvart öðrum þjóðum.

Góðir Íslendingar. Góðir landsmenn. Gott gengi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er lykill til breytinga til aukinnar velferðar fyrir alla í þessu samfélagi. --- Góðar stundir.