Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 10:45:55 (4883)

2003-03-13 10:45:55# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[10:45]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Fram kemur í nál. frá meiri hluta iðnn. hverjir veittu umsagnir og hvaða gestir komu til nefndarinnar og vísa ég til þess.

Hvernig á að mæla hvað er ítarlegt og hvað er ekki ítarlegt? Ég held að það sé í rauninni vonlaust að fara í einhverja umræðu um það, ég hygg að ég og hv. þm. verðum seint sammála um það, enda er það mjög afstætt hvað er ítarlegt. Það sem ég á við með ítarlegt er að nefndarmenn töldu málið orðið það þroskað að hægt væri að afgreiða það úr nefndinni, enda hefði málið aldrei verið afgreitt úr nefnd að öðrum kosti. Ég hygg að það hafi verið samdóma álit allra nefndarmanna. Enginn nefndarmanna gerði athugasemd við það sem er vísbending um að allir nefndarmenn, þar á meðal fulltrúi Vinstri grænna, hafi talið málið vera orðið það þroskað að hægt væri að taka það úr nefndinni, nefnilega að menn hefðu fengið nægar upplýsingar til þess að afgreiða það. Hitt er svo allt annað mál hvort menn eru sammála um efni þess. En ég vek athygli á því að yfirgnæfandi meiri hluti nefndarmanna er sammála því að mæla með samþykkt frv.