Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 10:47:13 (4884)

2003-03-13 10:47:13# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[10:47]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég var eingöngu í andsvari mínu að biðja um ákveðnar tæknilegar upplýsingar varðandi umfjöllun nefndarinnar um málið. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þingmenn greinir á um þetta mál eins og gjarnan er um stór mál sem koma fyrir þingið, það er ekkert óeðlilegt við það. En mig langar að vita, herra forseti, hverjum var gefinn kostur, hvaða aðilar fengu eða áttu þess kost að gefa skriflegar umsagnir um málið. Þar er ég sérstaklega með í huga umhverfissamtök og náttúruverndarsamtök. Ég nefndi sérstaklega samtökin Sól í Hvalfirði eða samtökin sem ég man nú ekki í svipinn hvað heita en fjalla um línulagnir frá væntanlegum virkjunum sem kæmu til með að flytja rafmagn til álversins. Mér leikur forvitni á að vita, herra forseti, hvort aðilum af þessu tagi hafi verið gefinn kostur á að eiga orðastað við nefndina eða senda inn umsagnir um málið.