Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 10:48:09 (4885)

2003-03-13 10:48:09# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[10:48]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki með það hér nákvæmlega hverjir voru á útsendingarlista. En ég get þó sagt það að allir sem óskuðu eftir innan nefndarinnar, og það hefur nú verið venjan í þessari nefnd eins og öðrum að þegar fram koma óskir um að senda mál til umsagnar til einstakra aðila, þá höfum við orðið við því í iðnn. eins og yfirleitt í flestum nefndum þingsins. Ég held því að ég geti svarað því með þeim almenna hætti að málið var sent til þeirra sem óskað var eftir innan nefndarinnar frá öllum nefndarmönnum. Engum var hafnað.

Ég vil hins vegar bæta því við að okkur kann að greina á, mig og hv. þm., um það með hvaða hætti á að skoða einstök mál, en ég árétta það sem ég sagði áðan að við höfum engum hafnað að fara á útsendingarlista til umsagnar.

En hvað varðar t.d. mat á umhverfisáhrifum þá árétta ég það að Alþingi setti lög um mat á umhverfisáhrifum og hefur síðan stjórnsýslustofnanir til að fylgja slíkum lögum eftir. Ég lít svo á að þar sé um að ræða verkfæri þingsins til þess að hleypa Alþingi að slíkum málum, einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum og því um líku til þess að eiga aðkomu að málum, gera athugasemdir um þau mál sem eru í gangi hverju sinni við mat á umhverfisáhrifum t.d. Það eru stjórnsýslustofnanir sem fylgjast með þessu og sjá til þess að farið sé eftir lögum. Ég lít ekki á það sem hlutverk Alþingis að fara sjálft í hið eiginlega mat. Það er hlutverk okkar hins vegar að fylgjast með því að matið hafi farið fram samkvæmt þeim lögum sem við höfum sett á Alþingi. Og fram hefur komið að í þessu tilviki eins og öllum öðrum hefur það verið gert.