Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 10:50:20 (4886)

2003-03-13 10:50:20# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, Frsm. 1. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[10:50]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hluta iðnn. sem skipaður er fulltrúum Samfylkingarinnar, þeirri sem hér stendur og Bryndísi Hlöðversdóttur.

Herra forseti. Minnihlutaálit okkar helgast ekki af því að við leggjumst gegn málinu, heldur er kannski nálgun okkar með öðrum hætti en meiri hlutans og þess vegna kusum við að vera með sérálit varðandi afgreiðslu málsins.

Fram hefur komið og kom fram í umfjöllun nefndarinnar um frv. sem hér liggur fyrir að sú reynsla sem fengist hefur af starfrækslu álversins á Grundartanga er góð ef marka má umsagnir þeirra sem iðnaðarnefnd leitaði til. Það hefur jafnframt vakið athygli að þau mótmæli sem voru þegar bygging verksmiðjunnar stóð yfir á sínum tíma virðast nú þögnuð, a.m.k. hafa þau ekki borist til minna eyrna, og ég skil það í rauninni svo að mun meiri sátt sé um álver á Grundartanga en var þegar ráðist var í þá framkvæmd upphaflega. Þá liggur líka fyrir bæði starfsleyfi og umhverfismat vegna stækkunar upp í 300 þús. tonn.

Það er skammt stórra högga á milli á Alþingi varðandi stórframkvæmdir og stutt síðan við ræddum hér álver í Reyðarfirði, Fjarðaál. Í tengslum við það ræddu menn mikið hugsanlega þróun efnahagslífsins á næstu árum og á það var bent að til skamms tíma geti það verkefni haft neikvæð áhrif á efnahagslífið sem birtist í hærra raungengi og síðar í hærri vöxtum en ella. Þetta með raungengið höfum við þegar orðið vör við og hefur verið rætt og var m.a. rætt á góðum fundi sem nefndin átti með fulltrúum frá Seðlabanka, frá greiningardeild Landsbanka Íslands og fulltrúum sem komu fyrir Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandsins. Þar fóru menn mjög vel yfir þá stöðu sem er hér varðandi gengismálin og efnahagsmálin. Ljóst er að gríðarlegt gjaldeyrisinnstreymi verður á framkvæmdatíma þessara framkvæmda allra, sem mun að óbreyttu auka spennu á vinnumarkaði og stuðla að hærra gengi krónunnar. Hin aukna spenna mun einnig setja þrýsting á verðbólgu og þau áhrif sem hafa verið kölluð ruðningsáhrif, þ.e. starfsemi sem ræður ekki við ýkt skammtímaáhrif framkvæmdanna, eða er ekki eins framleiðin og stóriðjan, lætur undan síga af völdum hás gengis og/eða hárra vaxta þegar þar að kemur.

Þá má líka ætla, herra forseti, að sú atvinnustarfsemi sem ekki getur keppt við stóriðjuna í launum láti undan síga í framtíðinni. Stefnt er að því að þær framkvæmdir sem hér um ræðir verði á undan framkvæmdunum fyrir austan þannig að aðalframkvæmdatími þeirra verði liðinn þegar framkvæmdir eystra verða í hámarki. Sú framkvæmd sem hér um ræðir mun því, ásamt þeim framkvæmdum sem fylgja orkuöflun vegna hennar, verða til þess að stjórnvöld þurfa að hafa styrka stjórn á ríkisfjármálum, þurfa hugsanlega að grípa í taumana fyrr en reiknað var með og það er jafnvel spurning hvort þær flýtiframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru, samanber frumvarp um fjáraukalög 2003 og kallast aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum, 653. mál, sem gera ráð fyrir viðbótarfjárfestingum fyrir á sjöunda milljarð kr. á næstu 18 mánuðum, muni ekki þarfnast endurskoðunar í ljósi þess hraða sem verður á álversframkvæmdum á Grundartanga og virkjanaframkvæmdum þeim tengdum. Ég held að þetta sé mál sem hið háa Alþingi ætti að velta alvarlega fyrir sér nú á lokadögum þingsins þegar við stöndum einnig frammi fyrir því að afgreiða fjáraukalög fyrir árið 2003. Fram hefur komið að menn eru ekki sammála um hvort sá slaki sem nú er í efnahagslífinu verði einnig fram á næsta ár og setja þess vegna spurningarmerki við slíkar flýtiframkvæmdir, ekki síst þegar horft er til þess að hér er verið að samþykkja framkvæmdir sem á að keyra eins hratt í gang og mögulegt er, m.a. til þess að þær og framkvæmdirnar fyrir austan verði ekki í hámarki á sama tíma. Það er alveg ljóst, herra forseti, að allar þessar fyrirhuguðu framkvæmdir, og þá er ég ekki að undanskilja flýtiframkvæmdir ríkisstjórnarinnar, munu auðvitað ekki bara verða til þess að jafna hér út það ójafnvægi sem menn kunna að horfa til núna, heldur er hér um að ræða ákveðið álag á hagkerfið og hagstjórnina og það er alveg ljóst að ef af öllum þeim framkvæmdum verður sem eru fyrirhugaðar, þá mun það reyna mjög á. Við, fullrúar Samfylkingarinnar, leggjum höfuðáherslu á að sem best samvinna takist við stjórn peninga- og ríkisfjármála og einnig að virk samvinna verði við aðila vinnumarkaðarins til að sem mestur ávinningur verði af framkvæmdunum fyrir þjóðarbúið allt, vegna þess að undir svona kringumstæðum, herra forseti, er augljóslega hætta á því að eitthvað geti farið úrskeiðis og menn missi þau tök sem þurfa þó að vera styrkari á þenslutímum en ella.

Herra forseti. Við gerðum því ítarleg skil þegar fjallað var hér um Fjarðaál hversu óeðlilegt og óæskilegt við teljum að þegar stóriðjufyrirtæki hafa verið sett niður á Íslandi skuli samið við hvert þeirra fyrir sig um afslætti og stór frávik frá þeim reglum, þar með talið skattareglum, sem íslenskum fyrirtækjum er ætlað að búa við. Þetta endurtekur sig nú hvað eftir annað, þó að markmiðið hljóti að vera það að öllum fyrirtækjum í landinu sé boðið upp á ásættanlegt skattumhverfi þannig að ekki þurfi að semja sérstaklega um frávik þegar laða á atvinnustarfsemi inn í landið. Eða, herra forseti, kannski ekki endilega laða að atvinnustarfsemi inn í landið, heldur að reyna að koma því til leiðar að hér geti vaxið upp fjölbreytt og blómlegt atvinnulíf. Við teljum að frávikin sem gerð hafa verið fyrir sum fyrirtæki sem hefja starfsemi hér á landi sýni hvers fyrirtækin þurfi við, öll fyrirtæki, herra forseti, og ætti þá að verða til þess að stjórnvöld litu til slíkra breytinga fyrir öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi. Það getur ekki bara verið þannig, herra forseti, að fyrirtæki í stóriðju ýmiss konar þurfi á því öryggi að halda varðandi rekstrarumhverfi sitt að vita mörg ár fram í tímann hver skattprósentan verður að hámarki, eða það séu eingöngu þau fyrirtæki sem þurfi að hafa lægri stimpilgjöld en gengur og gerist í atvinnulífinu, svo ég nefni einungis tvö atriði. Við viljum sérstaklega benda á lækkun og afnám stimpilgjalda sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur lagt fram frv. um á Alþingi, líklega í þrígang, og er nú til umfjöllunar í efh.- og viðskn., þar sem vilji okkar í þessum efnum hefur ítrekað komið fram án þess þó að það fengist fyrir því stuðningur á hinu háa Alþingi að slík tillaga yrði afgreidd, en hún lýtur að bæði fyrirtækjum, einstaklingum og fjölskyldum hér á Íslandi.

Við höfum jafnframt, herra forseti, gert það að umræðuefni í umfjöllun um þessi stórfyrirtæki sem verið er að styðja með margvíslegum hætti, menn eru með býsna miklar stuðningsaðgerðir við tiltekin fyrirtæki, við höfum ítrekað bent á mikilvægi þess að ef stjórnvöld telja að styrkja þurfi fyrirtæki eins og í þessu tilfelli, eða beita sérstökum aðgerðum til að ná erlendri fjárfestingu inn í landið, sem út af fyrir sig getur verið markmið, eigi að gilda um það almennar, gegnsæjar reglur sem byggist á jafnræði þar sem hið sama gildi fyrir alla sem eins er ástatt um.

[11:00]

Það þarf ekki endilega, herra forseti, að gilda það sama fyrir alla án tillits til kringumstæðna heldur þannig að samkeppnisforsendum sé ekki raskað, að það sama gildi um alla sem eins er ástatt um. Í því sambandi viljum við líka benda á margflutta tillögu okkar um bætta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs þar sem hvatt er til þess að skoðaðir verði möguleikar þess að stofna sjóð sem geti veitt stofnstyrki á faglegum forsendum, ef talin er nauðsyn á stuðningi við fyrirtæki til að hafa áhrif á þróun atvinnulífsins eða til að ná tiltekinni starfsemi inn í landið.

Þetta er sú aðferðafræði sem önnur Evrópulönd, þar með talinn Noregur --- þó að Noregur sé ekki innan Evrópusambandsins --- hafa beitt. Þar eru reglur um þessa hluti og menn vita að hverju þeir ganga ef þeir ætla að vera með atvinnustarfsemi eða byggja hana upp í þessum löndum, öfugt við það sem hér gerist, þar sem það er undir stjórnvöldum hverju sinni komið hvort og þá hverjir styrkirnir eru. Núna er það reyndar líka undir reglum ESA komið vegna þess að með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið höfum við í rauninni samþykkt að beygja okkur undir þær reglur sem önnur Evrópuríki nýta hvað varðar þessa hluti og við megum ekki styrkja meira en þar segir. Hins vegar höfum við ekki kannski nýtt okkur faglegu hliðina á þessu máli, heldur fyrst og fremst horft til upphæðanna.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, undirstrika hér atriði sem var nokkuð rætt þegar hér var verið að afgreiða frv. um álver í Reyðarfirði. Það er alvara þess að íslensk stjórnvöld skuli gera samninga og síðan lögfesta ákvæði, og þá vísa ég í e-lið 3. gr. frv., sem sníða því stakk með hvaða hætti unnt verður að beita hagrænum stjórntækjum varðandi útblástur og mengun. Það kemur í ljós að stjórnvöld beinlínis bjóða samninga eins og þessa, bjóða það að einstök fyrirtæki fái að hafa úrslitaáhrif um það með hvaða hætti íslensk stjórnvöld setja skattalög eða eftir atvikum ívilnandi reglur í framtíðinni, þ.e. beita hagrænum stjórntækjum í gegnum skattalög til þess að hafa áhrif á það með hvaða hætti fyrirtækin ganga frá útblæstri sínum og þá afleiðingum hans, mengun.

Þarna teljum við einnig, herra forseti, að reglur þurfi að vera og eigi að vera þannig að fyrirtæki njóti jafnræðis og sé ekki mismunað þannig að samkeppnisforsendur þeirra raskist. Í frv. er hins vegar gengið svo frá málum að ef á að beita ákvæðum eins og þeim að skatta fyrirtæki fyrir mengun verði það ekki gert nema það eigi við um öll önnur fyrirtæki í landinu, eins og stendur í frv.

Þetta er fullkomlega óeðlilegt og, herra forseti, í rauninni svo fullkomlega óeðlilegt að menn hljóta að staldra við að í samningum við einstök fyrirtæki séu þeim settar skorður með hvaða hætti stjórnvöld geti tekist á við útblástur mengandi lofttegunda í framtíðinni.

Herra forseti. Við fulltrúar Samfylkingarinnar mótmælum þessum vinnubrögðum stjórnvalda harðlega.

Afstaða þingmanna Samfylkingarinnar gagnvart einstökum greinum eða ákvæðum mun koma fram við atkvæðagreiðslu um málið. Það er ljóst að menn eru ósáttir við þá aðferðafræði sem beitt er og mjög ósáttir við þetta ákvæði í e-lið 3. gr. Eigi að síður styður þingflokkurinn málið í heild sinni. Það liggur fyrir bæði starfsleyfi og umhverfismat vegna þessarar stækkunar og það er skoðun okkar að það sé eðlilegt að frv. fái hér framgang. Ég rakti áðan hvernig reynslan er af starfrækslu álversins. Miðað við þær umsagnir og upplýsingar sem við höfum er hún þannig að það er ekki ástæða til annars, herra forseti, en að veita því framgang að þetta fyrirtæki fái að dafna og stækka áfram á Íslandi.