Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 11:05:33 (4887)

2003-03-13 11:05:33# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[11:05]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst gæta ósamræmis í málflutningi hv. þingmanns. Annars vegar talar hún mikið um jafnræði, að ekki eigi að beita sérákvæðum og það eigi að vera almennar gegnsæjar reglur hvað varðar styrki til fyrirtækja. Hins vegar er hún á móti þeirri jafnræðisreglu sem kemur fram í frv. að ef um sérstaka skatta verði að ræða í sambandi við útblástur megi þeir ekki ná til allra fyrirtækja. Þar vill hún beita einhverjum sérreglum og, eftir því sem ég best get skilið að sé mögulegt, að skattleggja einungis álfyrirtæki vegna útblásturs á gróðurhúsalofttegundum.

Í sambandi við styrkjakerfi það sem Samfylkingin vill koma á væri forvitnilegt að vita hvort það ætti að gilda eingöngu á landsbyggðinni, hvort verið er að tala um byggðastyrki eða hvort þau eru að tala um styrki almennt til fyrirtækja sem stofnsett verða, og hvort þá er eingöngu um byggðastyrki að ræða. Ég veit að þau hafa t.d. talað um að sama reglan eigi að gilda í sambandi við öll álfyrirtæki í landinu. Eru þau þá ekki komin í ákveðin vandræði í sambandi við Ísal í því sambandi?