Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 11:30:34 (4892)

2003-03-13 11:30:34# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[11:30]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson talaði eins og að möguleikar álversins í Hvalfirði væru klárir til þess að stækka upp í 180 þús. tonn. Það er alls ekki rétt. Orkuöflunin við Norðlingaöldu er forsenda þess að hægt sé að fara í þessa stækkun núna og hv. þm. er á móti því, það hefur komið skýrt fram. Og það er líka þannig að sá tími sem er mögulegur til þess að stækka þetta álver og skaffa raforku til þess er núna, og hann er ekki aftur fyrr en hinum miklu framkvæmdum á Austurlandi verður lokið. Þannig liggur þetta mál og þess vegna er svolítið skrýtið að tala út frá þeim sjónarmiðum sem hv. þm. nefndi og margtók fram, að álverið gæti bara stækkað upp í 180 þús. tonn. Það gerist ekki ef sjónarmið hv. þm. og flokks hans fá að ráða hér.

Síðan langaði mig til að nefna upphaf ræðunnar sem var ákaflega undarlegt og gekk út á það hversu upprifinn þingmaðurinn hafi orðið yfir því hve vel starfsmenn hjá þessu fyrirtæki væru starfi sínu vaxnir og meðvitaðir um að það þurfi að lifa í sem mestri sátt við umhverfið. Þetta kemur okkur ekkert á óvart sem þekkjum til þarna. Það hefur verið unnið mjög vel að þeim málum í þessu álveri og ég held að allir ættu að geta orðið sammála um að þetta álver er komið til að vera og til þess að það standist til framtíðar í samkeppni heimsins um álframleiðslu þarf það að fá að stækka upp í þá hagkvæmustu stærð sem þar er í gangi um þessar mundir. Þess vegna þurfa menn að sjá til þess að fyrirtækið fái tækifæri til þessarar stækkunar núna.